Hoppa yfir valmynd
4. júlí 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Unnið að sameiningu Landmælinga Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Ramý

Horft til Snækolls - myndHugi Ólafsson

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur á undanförnum mánuðum unnið að sameiningu þeirra stofnana sem starfa á vegum ráðuneytisins. Kynnt hefur verið ákvörðun um að sameina tíu af stofnunum ráðuneytisins í þrjár og er vinna við gerð lagafrumvarpa vegna Náttúruverndar- og minjastofnunar (Vatnajökulsþjóðgarður, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar og Minjastofnun) og Loftslagsstofnunar (Orkustofnun og Umhverfisstofnun) langt komin.

Varðandi áform um öfluga Náttúruvísindastofnun (Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn (Ramý), Veðurstofa Íslands, Landmælingar Íslands og ÍSOR) hefur ráðuneytið ákveðið að þau muni ekki ganga upp nema að hluta, þar sem sú leið þarfnast frekari skoðunar. Því er ekki gert ráð fyrir að Veðurstofan og ÍSOR verði sameinuð öðrum stofnunum í þessum áfanga, en áfram verður unnið að því að efla samstarf stofnananna og skoða samþættingu eða flutning einstakra verkefna.

Sérstaða ÍSOR

Starfsemi Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR) er ólík starfsemi annarra framangreindra stofnana þar sem hún er B-hluta stofnun og tekjur hennar eru alfarið byggðar á tekjum af samningsbundnum verkefnum á samkeppnismarkaði. Vegna þessa hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið haft til skoðunar framtíðarfyrirkomulag ÍSOR í samhengi við fyrirliggjandi tillögur um sameiningu stofnana og er niðurstaðan að sú vinna muni taka nokkurn tíma.

Í ljósi þess verður nú hafist handa við vinnu að sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Ramý. Áfram verði þó unnið að því að leita leiða við að til verði öflug Náttúruvísindastofnun. Fram að því verður hins vegar lögð áhersla á aukið samstarf og samvinnu allra þessara fimm stofnana.

Sameining Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Ramý fæli strax í sér hagræðingu og einföldun hvað varðar stjórnun og innri þjónustu.  Starfsmenn hinnar nýju stofnunar yrðu um 80 talsins með starfsstöðvar í Garðabæ, Akranesi, Akureyri, Breiðdalasvík og við Mývatn. Líkt og fyrr er mikilvægt að í ferlinu öllu verði  staðið vörð um mikilvæga þekkingu og sérhæfingu starfsmanna stofnananna og að stuðlað verði að enn frekari þekkingaruppbyggingu og nýsköpun og eflingu starfsstöðva á landsbyggðinni.

Gert er ráð fyrir að leggja fram frumvarp á Alþingi um sameiningu LMÍ og Ramý haustið 2023 með það að markmiði að ný stofnun taki til starfa á árinu 2024.

Sameiningu stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins er m.a. ætlað að ná þeim markmiðum að:

  • Til verði stærri, kröftugri og faglega öflugri stofnanir sem geti tekist á við áskoranir  til framtíðar og unnið að markmiðum Íslands í umhverfismálum.
  • Efla þekkingar- og fræðasamfélag og nýsköpun í opinberum rekstri.
  • Fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu
  • Nýta betur þekkingu og innviði og auka sveigjanleika til að takast á við stór verkefni.
  • Einfalda áætlanagerð og auka rekstrarhagkvæmni. 
  • Tryggja aðkomu nærsamfélaga að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum