Hoppa yfir valmynd
13. júlí 2023 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra tók þátt í leiðtogafundi Norðurlandanna með Bandaríkjaforseta

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, Sauli Niinistö, forseti Finnlands, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs.  - myndSkrifstofa forseta Finnlands

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í dag þátt í leiðtogafundi Norðurlandanna með Joe Biden Bandaríkjaforseta en fundurinn fór fram í Helsinki. Á fundinum var rætt um samstarf og samvinnu Norðurlandanna og Bandaríkjanna með áherslu á öryggismál, umhverfismál, tækniþróun og samfélagsleg málefni.

Í yfirlýsingu fundarins ítreka leiðtogarnir eindreginn stuðning sinn við sjálfstæði og fullveldi Úkraínu. Áframhaldandi stuðningi við Úkraínu er heitið eins lengi og þörf krefur.

Leiðtogarnir fagna yfirlýsingu um skjóta aðild Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu. Aðild Finnlands og Svíþjóðar að bandalaginu muni auka öryggi allra aðildarríkja bandalagsins og samstarfsríkja.

Í yfirlýsingunni er einnig fjallað um loftslagsbreytingar og verndun líffræðilegrar fjölbreytni sem eru meðal stærstu áskorana heimsins. Mikilvæg viðfangsefni á því sviði snúi m.a. að verndun og sjálfbærni á Norðurslóðum, grænum orkugjöfum, aukinni orkunýtingu og orkuöryggi. Samvinna á þessum sviðum sé lykilatriði við að ná sameiginlegum markmiðum í loftslagsmálum.

Norðurlöndin og Bandaríkin hyggjast einnig auka samstarf sitt á sviði tækniþróunar. Er þar m.a. horft til þróunar 5G og 6G tækni, gervigreindar, netöryggis og skammtatækni. Með aukinni samvinnu geti Norðurlöndin og Bandaríkin þróað tækni og staðla í samræmi við sameiginleg gildi og hagsmuni og um leið tryggt að lýðræði og mannréttindi séu höfð að leiðarljósi.

Leiðtogarnir leggja í yfirlýsingunni áherslu á að samvinna ríkjanna byggi á sameiginlegum gildum á borð við lýðræði, mannréttindi, jafnrétti kynjanna, vernd og jafnri meðferð allra einstaklinga og efnahagslegt frelsi.

Leiðtogafundur Norðurlandanna og Bandaríkjanna er sá þriðji sem haldinn hefur verið en fyrri fundir voru haldnir 2013 í Stokkhólmi og 2016 í Washington. Sauli Niinistö, forseti Finnlands, var gestgjafi fundarins. Auk Sauli Niinistö, Katrínar Jakobsdóttur og Joe Biden tóku þátt í fundinum þau Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar.

  • Forsætisráðherra tók þátt í leiðtogafundi Norðurlandanna með Bandaríkjaforseta - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum