Hoppa yfir valmynd
13. júlí 2023 Innviðaráðuneytið

Tvíbreið brú yfir Stóru-Laxá í Hreppum eflir samfélag og ferðaþjónustu

Frá vígslu nýrrar brúar yfir Stóru-Laxá. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, tók í dag þátt í vígslu á tvíbreiðri brú yfir Stóru-Laxá í Hreppum, sem tengir saman tvö sveitarfélög, Skeiða- og Gnúpverjahrepp og Hrunamannahrepp. Stefnt er að því að gamla brúin fái nýtt hlutverk og verði útbúin sérstaklega fyrir gangandi, hjólandi og vegfarendur á hestum.

Umferðaröryggi mun aukast með tilkomu brúarinnar en umferð hefur aukist mjög mikið á þessu svæði, sér í lagi með fjölgun erlendra ferðamanna.

Oddvitar sveitarfélaganna tveggja, Haraldur Þór Jónsson og Jón Bjarnason, klipptu á borða með ráðherra og Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar, af þessu tilefni til að marka formlega opnun brúarinnar.

„Brúin er mikill áfangi í leið okkar að því að auka öryggi og fækka slysum í umferðinni. Brýr tengja byggðir, efla mannlíf og atvinnustarfsemi. Fjárfesting í brúnni er fjárfesting í samfélaginu og til marks um trú á framtíð þess. En brýrnar eru heldur ekki einkamál heimafólks. Samgönguinnviðirnir eru grundvöllur atvinnusköpunar í ferðaþjónustu, stærstu útflutningsgreinar Íslands,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Í ávarpi sínu í tilefni af opnuninni sagði ráðherra að það væri eitt af markmiðum samgönguáætlunar að útrýma einbreiðum brúm hér á landi þar sem umferð er yfir 200 bílum á sólarhring. Umferðin yfir þessa brú hafi verið yfir þessu viðmiði frá aldamótum, þegar mælingar hófust. Allt árið í fyrra hafi rúmlega 1.200 bílar farið að jafnaði yfir brúna, og hátt í 1.800 bílar síðasta sumar.

Nýja brúin er til hliðar við gömlu brúna, tvíbreið, staðsteypt, eftirspennt bitabrú, 145 m löng í fjórum höfum. Lengd vegkafla er rúmlega 1000 m og lengd reiðstígs rúmir 300 m.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum