Hoppa yfir valmynd
14. júlí 2023 Utanríkisráðuneytið

Ísland eykur stuðning sinn við konur í Afganistan

Ljósmynd: UN Women - mynd

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að veita viðbótarframlög til stofnana og sjóða sem berjast fyrir mannréttindum kvenna og stúlkna í Afganistan. Veittar verða samtals 150 milljón króna sem renna til Stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women), Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) og UN Women’s Peace and Humanitarian Fund (WPHF), sem er sjóður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem veitir styrki til félagasamtaka sem eru leidd af konum.

„Ástandið í Afganistan eftir valdatöku talíbana er skelfilegt. Þrengt hefur verið svo að mannréttindum kvenna og stúlkna í landinu að talið er að tveggja áratuga framfarir í jafnréttismálum hafi nú þurrkast út. Í mínum huga er því afar brýnt að Ísland leggi sitt af mörkum og sýni konum og stúlkum í Afganistan einarðan stuðning,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Samkvæmt sérfræðingum Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttinda- og jafnréttismála má líkja ofsóknum talíbana gegn konum við kynjaða aðskilnaðarstefnu þar sem konur eru niðurlægðar og útilokaðar ákerfisbundinn hátt af stjórnvöldum. Konur í Afganistan þurfa að hylja andlit sitt utan heimilis, þær mega ekkert fara án karlkyns velsæmisvarðar, þeim er meinuð stjórnmálaþátttaka og menntun stúlkna eftir sjötta bekk í grunnskóla er óheimil. Aðgangur kvenna að heilbrigðisþjónustu er sömuleiðis afar takmarkaður og því erfitt fyrir konur að tilkynna og leita réttlætis í kjölfar ofbeldis. Nýverið bönnuðu talíbanar einnig rekstur snyrtistofa í Afganistan sem er enn eitt skrefið í aðför talíbana að þátttöku kvenna í opinberu lífi en snyrtistofur hafa verið ákveðinn griðarstaður fyrir konur. Þróunin hefur leitt til þess að geðheilsa kvenna í Afganistan hefur farið hríðversnandi og hefur sjálfsvígstíðni aukist. 

Íslensk stjórnvöld hafa um árabil veitt mannúðaraðstoð til Afganistan. Á þessu ári hafa framlög að auki runnið til Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA), Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP), Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og í sérstakan sjóð Sameinuðu þjóðanna fyrir Afganistan (UN Special Trust Fund for Afghanistan, STFA). Stofnanir og sjóðir Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum leggja megináherslu á matvælaaðstoð, næringu og heilbrigðismál en konum og stúlkum sem leita sér slíkrar aðstoðar hefur fjölgað til muna frá síðasta ári.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum