Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2023 Heilbrigðisráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið

Aukinn stuðningur við starfsemi Foreldrahúss

Ásmundur Einar Daðason, Berglind Gunnarsdóttir og Willum Þór Þórsson við undirritun samningsins - myndStjórnarráðið

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra undirrituðu í gær samning við Foreldrahús um auknar forvarnir. Stuðningurinn er til að auka aðgengi foreldra og barna að þjónustu, ráðgjöf og stuðningi Foreldrahúss í tengslum við fíknivanda barna með sérstaka áherslu á viðbragð við vaxandi notkun ópíóíða. Efla á samhliða forvarnarfræðslu til forsjáraðila barna á unglingastigi grunnskóla með tilliti til áhættuhegðunar barna.

Samningurinn styður við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar. Hann er liður í aðgerðum heilbrigðisráðherra til að sporna við skaða af völdum notkunar ópíóíða og annarra vímuefna og mennta- og barnamálaráðherra um snemmtækan stuðning í þágu farsældar barna. Aðgerðirnar snúa m.a. að eflingu úrræða á vegum frjálsra félagasamtaka sem sýnt hafa fram á árangur á sviði forvarna og snemmtækra inngripa fyrir ungmenni sem sýna forstigseinkenni vímuefnavanda og aðstandendur þeirra, með það að markmiði að koma í veg fyrir þróun frekari vanda eða fíknisjúkdóms.

Foreldrahús eru slík samtök. Þau voru stofnuð árið 1999 af foreldrasamtökunum Vímulausri æsku. Kjarnastarfsemi Foreldrahúss er ráðgjöf, meðferð og fræðsla. Þar er starfrækt fjölskylduráðgjöf, foreldrahópar og foreldranámskeið, sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga og stuðningsmeðferð fyrir ungmenni í vímuefnavanda.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum