Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2023 Matvælaráðuneytið

Hert skilyrði og aukið eftirlit forsenda áframhaldandi veiða á langreyðum

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra mun í dag setja nýja reglugerð sem ætlað er að bæta umgjörð veiða á langreyðum. Með reglugerðinni er brugðist við niðurstöðum eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar um veiðar á langreyðum árið 2022, áliti fagráðs um velferð dýra og skýrslu starfshóps um mat á leiðum til að fækka frávikum við veiðarnar.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum frá Matvælastofnun og fagráði um velferð dýra, var það mat ráðuneytisins að veiðar á langreyðum gætu ekki farið fram í samræmi við kröfur laga um hvalveiðar og laga um velferð dýra.

Til að bregðast við framangreindu var farin sú leið að fresta fyrirhuguðu upphafi veiðitímabilsins til 1. september. Þannig gæfist tími til að rannsaka hvort unnt væri að gera úrbætur, en í áliti fagráðs var talið vandséð að unnt væri að gera úrbætur á veiðunum. Með tilliti til hagsmuna veiðileyfishafa var tímarammi frestunar settur eins þröngur og unnt var en sem gæfi jafnframt svigrúm til að leita leiða til að minnka frávik við veiðarnar.

Starfshópur sérfræðinga var skipaður fulltrúum matvælaráðuneytisins, Matvælastofnunar og Fiskistofu var síðan skipaður í júlí 2023. Hópurinn skyldi leggja mat á leiðir til að fækka frávikum við veiðarnar. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni 28. ágúst sl. og er mat hópsins m.a. að mögulegt sé að bæta veiðiaðferðir við veiðar á stórhvelum.

Með vísan til skýrslu starfshópsins telur matvælaráðuneytið að forsendur séu til að gera breytingar á veiðiaðferðinni sem geti stuðlað að fækkun frávika við veiðarnar og þar með aukinni dýravelferð.

Sett verður reglugerð sem felur í sér ítarlegar og hertari kröfur til veiðibúnaðar, veiðiaðferða og aukið eftirlit. Skilyrðin snúa m.a. að þjálfun, fræðslu, veiðibúnaði og veiðiaðferðum.
Ráðuneytið vekur athygli á því að í skýrslu starfshópsins kemur fram að ýmsum spurningum sé ósvarað varðandi mögulega virkni og áhrif rafmagns við aflífun og því gerir reglugerðin ekki ráð fyrir notkun á slíkum búnaði.

Samkvæmt fyrrgreindri reglugerð munu Matvælastofnun og Fiskistofa vinna saman að eftirliti með veiðunum. Ráðgert er að stofnanirnar sendi ráðuneytinu skýrslu við lok veiðitímabils þar sem dregnar eru saman helstu niðurstöður eftirlits með hvalveiðum 2023.

Reglugerðina má sjá hér.

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum