Hoppa yfir valmynd
20. september 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Gervigreind og hagfræði í New York

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra. - mynd

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra sótti viðburð um gervigreind og hvernig hægt sé að nýta hana til að flýta framvindu heimsmarkmiðanna (e. Artificial Intelligence for Accellerating Progress for the Sustainable Development Goals) í Almenningsbókasafninu í New York. Viðburðurinn er hluti af dagskrá í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem nú fer fram.

Meðal fyrirlesara var Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, en hann benti meðal annars á að framvinda heimsmarkmiðanna hafi staðnað og aðeins hafi náðst að uppfylla 12% þeirra. Mikið var fjallað um hraða þróun í gervigreind með tilheyrandi áhrifum á samfélög, væntingum um aukna framleiðni og siðferðisleg álitamál. Mikilvægt sé að skapa alþjóðlegan ramma til að ná utan um tækifæri og áskoranir nýrrar tækni.

Leiðandi aðilar á borð við Meta, Google, Microsoft, Open AI og Amazon tóku einnig þátt í samtalinu um hvernig sé hægt að tryggja að gervigreindin þjóni hagsmunum mannkynsins til framtíðar.

„Gervigreindin er stærsta tækniframþróun í samtímanum og mun umbreyta samfélögum. Hún mun nýtast okkur við að leysa fjölbreytt verkefni í daglegu lífi, líkt og að þýða á milli tungumála og efla heilbrigðisþjónustu. Gervigreindin opnar á ýmsa nýja möguleika í heilbrigðisþjónustu og mun aðstoða fjölda fólks. Þess vegna er svo mikilvægt að samfélög séu opin fyrir nýtingu gervigreindarinnar en á sama tíma þarf að skapa öfluga umgjörð,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Þá sótti ráðherra einnig ráðstefnu í New York til heiðurs Edmund Phelps nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, sem haldin var í tilefni af 90 ára afmæli hans. Ráðstefnan bar yfirskriftina Let’s Talk About Capitalism and Society þar sem fjallað var um áskoranir í tengslum við alþjóðavæðingu, stjórnmál og viðskipti.
  •  Edmund Phelps.  - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum