Hoppa yfir valmynd
25. september 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Endurskipulagning stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins - Samráð við hagsmunaaðila í Samráðsgátt

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur á undanförnum mánuðum unnið að endurskipulagningu þeirra stofnana sem starfa á vegum ráðuneytisins. Kynnt hefur verið ákvörðun um að stofnunum fækki úr átta í þrjár og nú liggja fyrir í samráðsgátt stjórnvalda drög að lagafrumvörpum vegna Náttúruverndar- og minjastofnunar (Vatnajökulsþjóðgarður, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar og Minjastofnun Íslands) og Loftslagsstofnunar (Orkustofnun og Umhverfisstofnun (umhverfis- og loftslagsmál)). Þá er gert ráð fyrir sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ) og Landmælinga Íslands.

Gert er ráð fyrir skýrum kjarna í starfsemi hverrar stofnunar og lögð áhersla á sveigjanleika í tilfærslum verkefna milli stofnana til að auka árangur, skilvirkni og hagræðingu. Meginmarkmið endurskipulagningarinnar er að til verði stærri, kröftugri og faglega öflugri stofnanir sem geti tekist á við áskoranir til framtíðar og unnið að markmiðum Íslands í umhverfismálum.

Helstu markmið endurskipulagningarinnar:

  • Efla þekkingar- og fræðasamfélag og nýsköpun í opinberum rekstri.
  • Fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu
  • Nýta betur þekkingu og innviði og auka sveigjanleika til að takast á við stór verkefni.
  • Einfalda áætlanagerð og auka rekstrarhagkvæmni.
  • Tryggja aðkomu nærsamfélaga að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum.

Athugasemdafrestur vegna framangreindra frumvarpa er til 2. og 4. október nk. Hagsmunaaðilar og aðrir áhugasamir eru einnig hvattir til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri gagnvart áframhaldandi vinnu við áformaða endurskipulagningu stofnanakerfis ráðuneytisins, sér í lagi gagnvart eftirfarandi spurningum:

  1. Hvaða tækifæri eru fyrirsjáanleg með breyttu stofnanaskipulagi sem gætu orðið til þess að efla þjónustu?
  2. Hvernig gæti breytt stofnanaskipulag haft áhrif? Eru það áhrif sem eru jákvæð eða neikvæð?
  3. Hvaða helstu áhættuþátta ætti að horfa til?
  4. Hver eru helstu sjónarmið um hvernig endurskipulagning gæti breytt gæðum í veittri þjónustu?
  5. Hvaða styrkleikar er í núverandi þjónustu og mikilvægt er að varðveita?
  6. Eru frekari tækifæri til að efla rannsóknir og þróun/nýsköpun?
  7. Með hvaða hætti má efla og fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni?

Umsagnarfrestur í samráðsgátt stjórnvalda vegna áframhaldandi vinnu við stofnanabreytingar ráðuneytisins er til 9. október nk. Unnið verður með sjónarmið hagsmunaaðila gagnvart endurskipulagningu stofnana í undirbúningsvinnu sem er fram undan hjá ráðuneytinu í samstarfi við stofnanir þess. Þá nýtast sjónarmið og ábendingar einnig í stefnumótunarvinnu innan einstakra málaflokka þegar fram í sækir.  

Endurskipulagning stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins - samráð við hagsmunaaðila

Frumvörp til laga um Loftslagsstofnun og Náttúruverndar- og minjastofnun

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur (sameining Náttúrufræðistofnunar Ísl., Landmælinga Ísl. og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn

  •   - mynd
  • Endurskipulagning  stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins - Samráð við hagsmunaaðila í Samráðsgátt - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum