Hoppa yfir valmynd
26. september 2023 Matvælaráðuneytið

Tillögur kynntar um nýtingu lífbrjótanlegra efna

Tillögur kynntar um nýtingu lífbrjótanlegra efna - myndiStock/Karel Stipek

Samantekt um nýtingu lífbrjótanlegra efna í landbúnaði og landgræðslu ásamt tillögum að markmiðum og aðgerðum hefur verið skilað til matvælaráðuneytisins.

Samantektin er unnin af ráðgjafarfyrirtækinu Eflu með þátttöku vinnuhóps með fulltrúum matvælaráðuneytisins, Landgræðslunnar, Matís, Matvælastofnunar og Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.

Lífbrjótanleg efni eru þau efni sem ná að brotna niður á lengri eða skemmri tíma fyrir tilstilli örvera í náttúrunni. Meðal þeirra efna sem samantektin fjallar er úrgangur úr fiskeldi og húsdýraeldi, kjötmjöl, seyra, svartvatn, hliðarafurðir sláturhúsa og Bokashi molta.

Samantektin gerir grein fyrir stöðu nýtingar á landsvísu ásamt fyrirliggjandi þekkingu á nýtingu lífbrjótanlegra efna. Einnig er að finna í samantektinni yfirlit um stefnu stjórnvalda, lög og reglugerðir.

Að auki eru settar fram tillögur að aðgerðum til að ná eftirfarandi markmiðum:

  • Minnka innflutning tilbúins áburðar jafnt og þétt fram til 2040.
  • Auka endurnýtingu lífbrjótanlegra efna fram til 2040.
  • Draga úr sóun og fullnýta verðmæti sem eru til staðar.
  • Hámarka endurnýtingu fosfórs úr öllum flokkum lífbrjótanlegra efna. Fosfór er mikilvægt efni í áburðarframleiðslu og takmörkuð auðlind á heimsvísu.
  • Lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda vegna förgunar lífbrjótanlegra efna.
  • Tryggja leiðir til að nýta þau lífbrjótanlegu efni sem til falla.
  • Að tryggja flokkun lífbrjótanlegra áburðarefna þannig að þau efni sem henta til öflunar fóðurs eða í matvælaframleiðslu nýtist þar.
  • Að koma í veg fyrir að neysluvatni sé spillt við notkun lífbrjótanlegra áburðarefna.

Við vinnslu samantektarinnar var fundað með fulltrúum 24 samtaka, fyrirtækja og stofnana. Næsta skref í vinnunni er að taka afstöðu til einstakra tillagna, en þær munu nýtast við áframhaldandi mótun stefnumótun ráðuneytisins á þessu víðfeðma sviði. Birtingin er jafnframt í því skyni að gögnin geti nýst öðrum hagaðilum sem vinna að sömu meginmarkmiðum.

Samantektin er unnin í samræmi við stefnu íslenskra stjórnvalda um að draga úr loftslagsáhrifum í þjóðfélaginu í heild og ná kolefnishlutleysi 2040. Hluti af lausninni er að vinna í anda hringrásarhagkerfisins á öllum sviðum og er þýðingarmikill hluti við innleiðingu hringrásarhagkerfis að ná betri árangri við nýtingu á lífrænum efnum.

Samantektina má finna hér.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

12. Ábyrð neysla og framleiðsla
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin
15. Líf á landi
14. Líf í vatni
11. Sjálfbærar borgir og samfélög

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum