Hoppa yfir valmynd
3. október 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ræddi íslensku bankana, verðbólgu og samkeppni á málþingi um bankaskýrsluna

Frá pallborðsumræðum á málþinginu í dag. - myndMVF
„Þegar verðbólga er í hæstu hæðum, þá gerir maður kröfu á að allir taki þátt í þessari vegferð að ná henni niður og minnka þennan herkostnað sem verðbólgan er,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra á málþingi um nýútkomna bankaskýrslu á Hilton fyrr í dag.

ASÍ, BSRB, BHM og Neytendasamtökin stóðu fyrir sérstökum morgunverðarfundi um skýrslu starfshóps menningar- og viðskiptaráðuneytisins um gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna. Markmiðið með málþinginu í dag var að dýpka umræðuna um niðurstöður skýrslunnar, fjalla um þær í samhengi við samkeppni og neytendamál og ræða framhaldið.

Kostnaðarhlutföll bankanna hafa lækkað og arðsemi batnað

Á meðal þess sem kom fram í máli ráðherra var að kostnaðarhlutföll bankanna hafa lækkað og eru orðin sambærileg og hjá svipuðum bönkum á Norðurlöndunum en aukin hagkvæmni og lækkun sérstaka bankaskattsins hefur þó ekki skilað sér í minni vaxtamun heldur fyrst og fremst í bættri arðsemi bankanna.

Aukin hagkvæmni og lækkun sérstaka bankaskattsins hefur ekki skilað sér í minni vaxtamun

Vaxtamunur heildareigna hér á landi er töluvert meiri en á Norðurlöndunum, þrátt fyrir svipuð kostnaðarhlutföll og svipaða arðsemi síðastliðin tvö ár.

„Þetta er ekki boðlegt,“ sagði viðskiptaráðherra meðal annars í ávarpi sínu.



Ráðherra ræddi meðal annars um verðbólguna og samkeppnismál. Hún sagði mikilvægt að fylgja skýrslunni fast eftir og sagði skýrsluna vera undirbúning fyrir næstu skref.

„Ég tel mjög mikilvægt að þessi skýrsla sé rædd á Alþingi og líka hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Hún sé gerð árlega til þess að auka aðhaldið, því þá getum við séð þessar breytingar sem eiga sér stað.“

Kostnaður þjóðfélagsins vegna greiðslumiðlunar er mun hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar. Seðlabankinn áætlar að kostnaður samfélagsins af notkun greiðslumiðla hér á landi á árinu 2021 hafi verið um 47 ma.kr. eða um 1,43% af vergri landsframleiðslu. Þar af var kostnaður vegna greiðslukorta ríflega 20 ma.kr. Ein af tillögum starfshópsins var því að skoða að koma á innlendri greiðslumiðlun.

Glærukynningu ráðherra má nálgast HÉR.

Á meðal þeirra sem tóku til máls auk Lilju Daggar Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra voru þau Auður Alfa Ólafsdóttir sérfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands, Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins, Þórunn Anna Árnadóttir forstjóri Neytendastofu, Inga Dröfn Benediktsdóttir forstöðumaður í viðskiptaháttaeftirliti hjá Fjármálaeftirlitinu, Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna og Haukur Skúlason framkvæmdastjóri og annar stofnandi Indó.

Guðmundur Gunnarsson stýrði pallborðsumræðum í lok fundar. Hann tók það sérstaklega fram að SFF, Landsbankanum, Íslandsbanka og Arion Banka hafi verið boðið að vera með á málþinginu en ekki séð sér fært að taka þátt.

Upptöku frá viðburðinum má sjá hér fyrir neðan. Pallborðsumræðurnar hefjast þegar tvær klukkustundir eru liðnar af málþinginu.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum