Hoppa yfir valmynd
9. október 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Græna eyjan – vegferð í átt að 100% orkuskiptum

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Árni Sigfússon, formaður hópsins, og Gísli Stefánsson, æskulýðsfulltrúi og bæjarfulltrúi. - mynd

Vestmannaeyjabær stefnir á full orkuskipti í Vestmannaeyjum og forsenda þess er að Landsnet ákveði að leggja tvo nýja raforkustrengi til Vestmannaeyja. Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps, sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði til að vinna tillögur um aðgerðir sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins og stuðlað geta að því að efla samfélagið í Vestmannaeyjum.

Starfshópurinn, sem var skipaður þeim Árna Sigfússyni, sem var formaður hópsins, Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum og Gísla Stefánssyni, æskulýðsfulltrúa og bæjarfulltrúa, kynnti tillögur sínar á fundi í Vestmannaeyjum í dag.

Raforkuþörf í Vestmannaeyjum er nú þegar 58 MW. Þar af eru um 44 MW ótryggur flutningur, sem þýðir að olía er notuð þegar ekki fæst orka. Þá eru ótalin uppbyggingarverkefni sem koma eiga til framkvæmda á næstu árum, þ.e. aukin raforkuþörf í fiskimjölsframleiðslu, landeldi og landtengingu skipa. Þessi verkefni kalla eftir a.m.k. 35-45 MW viðbótar raforkuþörf á næstu árum. Það má því áætla að árið 2030 verði heildarraforkuþörf í Vestmannaeyjum yfir 100 MW.

Að því er fram kemur í skýrslunni er eina leiðin til að tryggja öryggi raforkuflutninga og hringtengingu og ná 100% orkuskiptum í Vestmannaeyjum, líkt og áætlanir stjórnvalda gera ráð fyrir, að lagðir verði tveir nýir  rafstrengir til Vestmannaeyja. Að öðrum kosti verði samfélagið keyrt áfram á jarðefnaeldsneyti.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Vestmannaeyjar verða að taka þátt í vegferð stjórnvalda að 100% orkuskiptum. Staðan í Eyjum er óásættanleg – samfélagið hefur verið keyrt að meginstefnu á jarðefnaeldsneyti frá áramótum vegna bilunar í sæstreng. Ég fagna tillögum starfshópsins en skýrslan sýnir að nauðsynlegt er að bregðast við stöðunni með skipulögðum verkefnum. Til þess að Vestmannaeyjar geti orðið „græna eyjan„ - samfélag sem skarar fram úr og er öðrum fyrirmynd í þessum efnum þá verður að tryggja orkuöryggi og að samfélagið sé sjálfu sér nægt um raforku og varma.“

Meðal annarra tillagna sem fram koma í skýrslunni er að:

  • Sett verði af stað vinna að kanna frekari kosti við nýtingu lághita og annarra staðbundinna orkuöflunarkosta.
  • Vestmannaeyjabær verði fyrsta sveitarfélagið í heiminum til að taka upp stefnu sem miðar að „100% fisk“, þ.e. 100% fullvinnslu og fullnýtingu allra sjávarafurða. Samhliða verði unnið að eflingu hringrásarhagkerfisins og grænni atvinnuuppbyggingu.
  • Vestmannaeyjabær kanni frekar kosti þess að vinna að undirbúningi stofnun jarðvangs í Vestmannaeyjum: „Vestmannaeyjar, Unesco Global Geopark“.
  • Sett verði af stað vinna við að styðja við nýsköpunarumhverfið í Vestmannaeyjum hvað varðar verkefni á málefnasviði ráðuneytisins.

Ráðuneytið og Vestmannaeyjabær munu fylgja eftir tillögum starfshópsins.

Skýrsla starfshóps um eflingu samfélags í Vestmannaeyjum á málefnasviði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum