Hoppa yfir valmynd
19. október 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Íslensk hönnun í sviðsljósinu

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Eyjólfur Pálsson stofnandi Epal á sýningunni Samband. - mynd

Íslensk hönnun er einstaklega áberandi þessa dagana. Í vikunni voru afhentir styrkir úr Hönnunarsjóði og einnig er verið að kynna tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands þessa dagana. Verðlaunin verða afhent í tíunda skipti þann 9. nóvember næstkomandi.

Þá stendur yfir sýning á verkum 14 íslenskra hönnuða sem eiga það sammerkt að hafa hannað vörur og húsgögn sem eru þróaðar, framleiddar og seldar á Norðurlöndunum, Bretlandi og Bandaríkjunum. Með sýningunni er varpað ljósi á íslenska húsgagna- og vöruhönnun; fagi sem í alþjóðlegu samhengi er tiltölulega nýtt hér á landi en hefur sannarlega vaxtarmöguleika. Sýningin „Samband“ var upphaflega sett upp í tengslum við hönnunarvikuna 3 days of Design í Kaupmannahöfn í sumar.

„Þetta er íslensk hönnun“ kynningarátakið er líka farið aftur af stað og lýsir nú upp höfuðborgina. Markmiðið átaksins er að auka sýnileika, vitund og virðingu fyrir íslenskri hönnun, en um 60 ólíkar hönnunarvörur og verk arkitekta birtast á ljósaskiltum um allt höfuðborgarsvæðið þessavikuna og miðla gæðum og fjölbreytileika íslenskrar hönnunar, hvort sem um er að ræða fatahönnun, arkitektúr, húsgögn, skart, keramik, grafíska hönnun eða hönnun stoðtækja, véla og tölvuleikja.

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs skipuleggur átakið og tekur þar við keflinu af Eyjólfi Pálssyni stofnanda Epal, sem átti frumkvæðið að því árið 2021.

„Íslenskt hugvit er hreyfiafl framfara og íslensk hönnun á sannarlega erindi við heiminn. Hún er allt í kringum okkur, ýmist áþreifanleg eða ósýnileg. Ég hvet alla til þess að kynna sér tilnefningarnar og gróskuna í íslenskri hönnun,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum