Hoppa yfir valmynd
20. október 2023 Utanríkisráðuneytið

Þétt dagskrá utanríkisráðherra á hliðarlínu Arctic Circle

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra og Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur. - myndUdenrigsministeriet

Hringborð norðurslóða - Arctic Circle var sett í Hörpu í gær en utanríkisráðuneytið er einn af bakhjörlum þingsins. Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra var viðstaddur setningarathöfnina en ráðstefnan er nú haldin í tíunda sinn og hafa yfir tvö þúsund gestir boðað komu sína á hana að þessu sinni.

„Núverandi staða alþjóðamála gerir lýðræðislegan vettvang sem þennan mikilvægan sem aldrei fyrr,“ segir Bjarni. „Við horfum fram á stórar áskoranir en með því að vinna sameiginlega að lausnum getum við tryggt norðurslóðunum bjarta framtíð, íbúum og náttúru til heilla. Alþjóðleg samvinna er eina leiðin til að takast á við þau erfiðu verkefni sem við stöndum frammi fyrir, ekki síst þeirra sem eru tilkomin vegna loftslagsbreytinga.“

Að lokinni setningu hringborðsins átti utanríkisráðherra fund með Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur. Ráðherrarnir ræddu málefni efst á baugi á alþjóðavettvangi nú um stundir, meðal annars innrásarstríð Rússlands í Úkraínu og átökin fyrir botni Miðjarðarhafs.

Fyrr um daginn átti utanríkisráðherra tvíhliða fund með Sim Ann, vararáðherra í utanríkisráðuneyti Singapúr. Þar ræddu ráðherrarnir um mikilvægi þess að efla enn frekar tvíhliða samskipti ríkjanna meðal annars um norðurslóðamálefni, en Singapúr hlaut áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu árið 2013. Málefni Rússlands og Úkraínu voru sömuleiðis til umræðu á fundi ráðherranna.

Þá undirritaði utanríkisráðherra samkomulag við bresk stjórnvöld um aukið rannsóknarstarf varðandi norðurslóðir. Með samkomulaginu er komið á fót sérstöku styrkjafyrirkomulagi til vísindarannsókna á norðurslóðum fyrir vísindafólk í báðum ríkjum. Sendiherra Bretlands á Íslandi undirritaði samkomulagið fyrir hönd breskra stjórnvalda.

Dagskrá utanríkisráðherra í gær lauk svo með tvíhliða fundi með Høgna Hoydal, utanríkisráðherra Færeyja, en íslensk stjórnvöld leggja mikla áherslu á að efla tvíhliða samskipti ríkjanna enn frekar. Ráðherrarnir ræddu helstu pólitísku málefni líðandi stundar sem og viðskipti milli Íslands og Færeyja.

  • Dr. Bryony Mathew, sendiherra Bretlands á Íslandi, og Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra. - mynd
  • Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra og Sim Ann, vararáðherra í utanríkisráðuneyti Singapúr. - mynd
  • Høgni Hoydal utanríkisráðherra Færeyja og Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. - mynd
  • Þétt dagskrá utanríkisráðherra á hliðarlínu Arctic Circle - mynd úr myndasafni númer 4

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum