Hoppa yfir valmynd
23. október 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skýrsla um umfang og tilurð misræmis magns í inn- og útflutningstölum landbúnaðarvara

Starfshópur sem falið var að kanna umfang og tilurð misræmis milli magns í útflutningstölum úr gagnagrunni Evrópusambandsins (ESB) til Íslands og innflutningstölum Íslands frá ESB hefur skilað skýrslu til ráðherra. Hópnum var falið að kanna hvort finna megi kerfislægan mismun í gögnunum og í framhaldinu að greina orsakir hans og koma með tillögur til úrbóta.

Hópnum bar að líta einkum til ákveðinna tegunda landbúnaðarvara, þ.e. nautakjöts, svínakjöts, kjúklingakjöts og mjólkurafurða sem flokkast í 2. og 4. kafla í tollskrá. Skoðað var tímabilið frá 2010-2021.

Aldrei er það svo að skráður útflutningur á vörum hjá einu landi og skráður innflutningur í öðru landi stemmi að öllu leyti og fyrir því geta verið margar ástæður eins og fram kemur í skýrslunni. Athugun starfshópsins sneri ekki að því að stemma af hvert kíló heldur að kanna hvort finna megi kerfislægan mismun sem fellur utan eðlilegra skekkjumarka og í framhaldinu að kanna mögulegar orsakir hans.

Niðurstöður hópsins sýndu nokkurt misræmi milli skráningar ESB og Íslands, bæði í kjöt- og mjólkurvörum. Erfitt er að fullyrða um orsakir misræmisins en gögn sem hollensk tollayfirvöld létu starfshópnum í té gerðu mögulegt að bera saman skráningu þarlendra aðila og íslenskra tollyfirvalda á einstaka sendingum. Leiddi sú greining í ljós að í tilfelli Hollands orsakast misræmi í einhverjum tilvikum af ólíkri upprunaskráningu, sér í lagi á kjötvörum. Ólík skráning í undirliði tollskrár, þó að skráningin væri sú sama í vöruliði, var einkennandi fyrir misræmi í skráningu mjólkurvara í samanburðinum við Holland. Í báðum tilvikum var niðurstaða starfshópsins að skráningin á Íslandi væri nákvæmari.

Misræmi í 2. kafla skýrist að stærstum hluta af misræmi í skráðu magni alifuglakjöts en í 4. kafla er skýringin ekki með sama hætti bundin við ákveðna tegund innflutnings. Misræmið í köflunum tveimur verður enn fremur ekki skýrt að öllu leyti með athugun á hollensku gögnum en meðal tillagna hópsins til úrbóta er að Skatturinn fylgist sérstaklega með þeim númerum þar sem mismunur reyndist mestur. Einnig leggur hópurinn til að Skattinum verði gert kleift að nálgast innflytjendur og útflytjendur óformlega með það að leiðarljósi að bæta gæði og skil tollskýrslna. Enn fremur að kanna kosti þess að bæta gagnaöflun um umflutning til landsins og möguleika á því að gera sérstaka gagnaskiptasamninga við helstu viðskiptalönd Ísland sem og að tryggja áframhaldandi þróun stafrænna lausna vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum.

Starfshópurinn var skipaður Óttari Snædal Þorsteinssyni frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sem jafnframt var formaður starfshópsins, Auði Ólínu Svavarsdóttur frá Hagstofu Íslands, Bryndísi Eiríksdóttur frá matvælaráðuneytinu og Steinþóri Þorsteinssyni frá Skattinum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum