Hoppa yfir valmynd
31. október 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Endurgreiðslutími stuðningslána framlengdur

Lánastofnunum hefur verið heimilað að lengja endurgreiðslutíma stuðningslána um allt að átján mánuði til viðbótar við fyrri fresti. Þetta kemur fram í nýrri reglugerð fjármála- og efnahagsráðherra.

Stuðningslán voru veitt til að aðstoða smærri rekstraraðila sem urðu fyrir tímabundnu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru við að standa undir rekstrarkostnaði. Endurgreiðslur stuðningslána hafa almennt gengið vel fyrir sig og enn sem komið er hefur ekki mikið reynt á ábyrgð ríkisins á lánunum. Eftirstöðvar virkra stuðningslána í lok september voru 5.111 milljónir króna en upphafleg lánsfjárhæð var 10.057 milljónir króna. Á sama tíma höfðu 244 milljónir króna fallið á ríkið.

Eigi að síður var talið tilefni til að veita aukið svigrúm við endurgreiðslur lánanna til að mæta ábendingum um að sumir rekstraraðilar í vissum greinum, þar á meðal í veitingarekstri, gætu átt erfitt með að standa undir mánaðarlegum endurgreiðslum með óbreyttum endurgreiðslutíma. Framlengdur endurgreiðslutími lækkar mánaðarlegar afborganir og mætir þannig rekstraraðilum í þeirri stöðu.

Eftirlitsnefnd með framkvæmd stuðningslána skilaði ráðherra þriðju skýrslu sinni í október. Helsta ábending nefndarinnar í skýrslunni var að lengja endurgreiðslutíma stuðningslána.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum