Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Frumvarp um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir í samráðsgátt

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í Samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til laga um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Frumvarpið felur í sér innleiðingu þriggja EES-gerða sem gert er ráð fyrir að verði samþykktar af sameiginlegu EES-nefndinni í desember nk. Þar eru lagðar til breytingar á ETS-kerfinu vegna herts markmiðs ESB um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030. ESB gerir ráð fyrir 62% samdrætti í losun frá þeim geirum sem falla undir ETS-kerfið. Til að því markmiði verði náð verður losunarheimildum í ETS-kerfinu fækkað hraðar, dregið úr endurgjaldslausri úthlutun losunarheimilda, starfsemi sjóflutninga verður felld undir kerfið og nýtt hliðstætt ETS kerfið verður sett á fót, svokallað ETS2-kerfi sem mun ná utan um losun frá byggingum, vegasamgöngum og smærri iðnaði.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sjóflutningar séu felldir undir ETS-kerfið, ásamt öðrum breytingum sem þurfa að taka gildi um áramót.

Þær þrjár EES-gerðir sem hér ræðir um eru: Reglugerð (ESB) 2023/957 sem breytir reglugerð ESB 2015/757 til að gera kleift að fella sjóflutningastarfsemi inn í ETS-kerfi og varðandi vöktun, skýrslugjöf og vottun á losun gróðurhúsalofttegunda og losun frá fleiri tegundum skipa. Tilskipun (ESB) 2023/958 hvað varðar framlag til flugstarfsemi til markmiðs ESB um samdrátt í losun sem hefur áhrif á allt hagkerfið og viðeigandi framkvæmd hnattrænnar markaðstengdrar ráðstöfunar (ETS-kerfi í flugi). Einnig tilskipun (ESB) 2023/959 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan ESB og ákvörðun (ESB) 2015/1814 um að koma á fót og starfrækja markaðstöðugleikavarasjóð fyrir kerfi Sambandsins fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda.

Gerðirnar munu ekki taka gildi fyrr en löggjöf til innleiðingar tekur gildi í Íslandi, Liechtenstein og Noregi.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að umfjöllun um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS-kerfið) verði í sérlögum til að auka skýrleika.

Auk frumvarps þessa er gert ráð fyrir framlagningu frumvarps um ETS2-kerfið  á vorþingi.

Athygli er vakin á því að umsagnarfrestur vegna frumvarpsins í samráðsgátt stjórnvalda er til 14. nóvember nk.

Frumvarp til laga um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (EES-innleiðing)

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum