Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2023 Utanríkisráðuneytið

Íslenska utanríkisþjónustan tekur þátt í 16 daga alþjóðlegu átaki gegn kynbundnu ofbeldi

Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg. - mynd

Utanríkisráðuneytið er nú baðað roðagylltum ljóma til að vekja athygli á alþjóðlegu 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Sendiskrifstofur Íslands um allan heim taka sömuleiðis þátt í vitundarvakningunni á samfélagsmiðlum. Átakið hófst síðastliðinn laugardag, á alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundu ofbeldi undir yfirskriftinni „Sameinumst! Fjárfestum í aðgerðum til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi gagnvart konum og stúlkum“ (e. UNiTE! Invest to prevent violence against women and girls).  

Roðagyllti liturinn er táknrænn fyrir von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis en þetta er í fjórða sinn sem utanríkisþjónustan leggur átakinu lið með þessum hætti. Því lýkur svo á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna, þann 10. desember næstkomandi.   

Ísland leggur mikla áherslu á kynjajafnrétti í alþjóðlegu samstarfi og leiðir nú sérstakt aðgerðabandalag gegn kynbundnu ofbeldi innan átaksverkefnis UN Women „Kynslóð jafnréttis“ (e. Generation Equality Forum ). Ísland hefur sett fram 23 skuldbindingar til að binda enda á kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og gengur framkvæmd þeirra framar vonum.  

„Kynbundið ofbeldi er því miður enn djúpstætt og vaxandi vandamál allt of víða og sums staðar í heiminum horfum við nú upp á bakslag í réttindum kvenna. Þótt við Íslendingar séum hvað fremst í heimi þegar kemur að kynjajafnrétti getum við gert langtum betur, bæði hér heima og þegar kemur að því að láta til okkar taka á alþjóðavettvangi,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. 

Kynbundið ofbeldi er eitt útbreiddasta mannréttindabrot í heiminum og fyrirfinnst á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt tölum frá UN Women hefur ein af hverjum þremur konum og stúlkum verið beitt kyndbundnu eða kynferðislegu ofbeldi um ævina. Til viðbótar bætist við stafrænt áreiti og ofbeldi sem konur og stúlkur verða fyrir. Um 86% kvenna og stúlkna búa í ríkjum sem ekki veita lagalega vernd gegn kynbundnu ofbeldi. Þá bjuggu yfir 600 milljónir kvenna og stúlkna á átakasvæðum árið 2022, eða helmingi fleiri en árið 2017, þar sem konur eru margfalt líklegri til að verða fyrir kynbundnu ofbeldi.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum