Hoppa yfir valmynd
1. desember 2023 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra á ráðherrafundi ÖSE í breyttu öryggislandslagi í Evrópu

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra ásamt Bujar Osmani utanríkisráðherra Norður-Makedóníu. - myndÖSE

Utanríkisráðherra sótti ráðherrafund Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Skopje, höfuðborg Norður-Makedóníu, sem hófst á óformlegum kvöldverðarfundi ráðherra þann 29. nóvember en formleg dagskrá stendur yfir frá 30. nóvember til 1. desember. Efst á baugi voru innrásarstríð Rússlands í Úkraínu og örðugleikar í starfi ÖSE vegna ósamvinnuþýðra stjórnvalda í Rússlandi og Belarús.  

„Meginhlutverk stofnunarinnar er að viðhalda friði og byggja traust meðal aðildarríkjanna, og það hlutverk er að okkar mati enn mikilvægara nú en áður. Eigi hún hins vegar að þjóna hlutverki sínu er nauðsynlegt að samkomulag náist um stjórnun og fjármögnun stofnunarinnar sem hefur reynst þrautin þyngri vegna framferðis Rússa innan stofnunarinnar jafnt og annars staðar,“ segir utanríkisráðherra.

Lýðræði, mannréttindi og jafnréttismál eru ríkur þáttur í starfi Íslands innan ÖSE, en frá innrásinni í Úkraínu hafa málefni Úkraínu og fordæming á innrásarstríði Rússlands verið þungamiðja í málflutningi Íslands á vettvangi stofnunarinnar. Það var endurómað í máli ráðherra sem lýsti yfir fullum og langvarandi stuðningi við málstað Úkraínu og áréttaði mikilvægi alþjóðalaga og fjölþjóðasamvinnu, þar með talið starf ÖSE.

Stofnunin gegnir mikilvægu hlutverki á sviði öryggis-, efnahags- og umhverfismála og uppbyggingar lýðræðis og mannréttinda í þátttökuríkjunum, þar með talið með kosningaeftirliti. Allt frá innrás Rússlands á Krímskaga 2014, og enn frekar frá því að allsherjarinnrás hófst 2022, hafa Rússland og Belarús markvisst grafið undan starfseminni. Á síðustu dögum fyrir fundinn tókst að ná samstöðu um að Malta tæki við formennskunni af Norður-Makedóniu nú um áramót. Á fundinum sjálfum náðist loks samstaða um framlengingu samningstíma fjögurra yfirmanna ÖSE, þar með talið framkvæmdastjóra stofnunarinnar um níu mánuði, en sömu ríki höfðu staðið gegn því í lengri tíma. 

Ísland studdi yfirlýsingar um öryggi fjölmiðlakvenna, virðingu fyrir mannréttindum, Holodomor-hópmorð í Úkraínu 1932-1933, konur, frið og öryggi, og friðhelgi landamæra Georgíu. 

Utanríkisráðherra átti jafnframt tvíhliða fundi með Ilia Darciashvili, utanríkisráðherra Georgíu, og Dominique Hasler, utanríkisráðherra Liechtenstein, auk þess að styðja sérstaklega við hliðarviðburð Úkraínu um ábyrgðarskyldu Rússlands í ljósi innrásarinnar.

 
  • Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra og Helga Hauksdóttir fastafulltrúi Íslands hjá ÖSE á tvíhliða fundi með Ilia Darciashvili, utanríkisráðherra Georgíu. - mynd
  • Tvíhliðafundur með Dominique Hasler, utanríkisráðherra Liechtenstein. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum