Hoppa yfir valmynd
6. desember 2023 Utanríkisráðuneytið

Ísland ítrekar enn á ný ákall sitt um tafarlaust vopnahlé á Gaza

Ísland ítrekar enn á ný ákall sitt um tafarlaust vopnahlé á Gaza - mynd© UNRWA/Ashraf Amra
Ákall íslenskra stjórnvalda um tafarlaust vopnahlé af mannúðarástæðum á Gaza var ítrekað í ávarpi sem Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, flutti fyrir hönd Íslands á alþjóðlegum fundi um stöðu mannúðarmála á Gaza sem fram fór í París í dag. 

Utanríkisráðherra Frakklands boðaði til fundarins, en sérstakir gestir hans voru Philippe Lazzarini, yfirmaður Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) og M. Martin Griffiths, framkvæmdastjóri samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA). Þá tóku einnig þátt um 70 fulltrúar ríkja, alþjóðastofnana og alþjóðlegra hjálparsamtaka.  

Í ræðu Íslands var sömuleiðis ákall um tafarlausa lausn gísla, óhindrað aðgengi að nauðþurftum og framfylgd alþjóðalaga ítrekað, í samræmi við ályktun Alþingis frá 9. nóvember sl. um afstöðu Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs. Loks undirstrikuðu íslensk stjórnvöld að langtímalausn deilunnar felist í tveggja ríkja lausn sem byggi á alþjóðalögum.  

Ísland hefur lagt 225 m.kr. til UNRWA frá því að átökin hófust 7. október og er meðal hæstu framlagsþjóða til stofnunarinnar miðað við höfðatölu.  

Hér er hægt að lesa ávarp Íslands sem flutt var á fundinum í dag. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum