Hoppa yfir valmynd
12. desember 2023 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra tók þátt í viðburði í tilefni 75 ára afmælis Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í dag þátt í viðburði í Genf í tilefni af 75 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Forsætisráðherra stýrði þar pallborðsumræðum þar sem rætt var um tengsl mannréttinda og umhverfis- og loftslagsmála.

Útgangspunktur umræðnanna var hvernig tryggja megi rétt mannkyns til heilnæms umhverfis þegar heimurinn stendur frammi fyrir þrefaldri umhverfisógn; loftslagsvá, ógn við líffræðilegan fjölbreytileika og aukinni mengun.

Í inngangsorðum sínum lagði forsætisráðherra áherslu á að ekki sé hægt að aðskilja mannréttindi frá neinum hliðum mannlegrar tilveru.

„Við þurfum að huga að réttindum fólks í þróunarríkjum sem býr við verstu afleiðingar loftslagsbreytinga og á hvað minnstan þátt í orsökunum. Loftslagsbreytingar hafa einnig meiri áhrif á viðkvæma hópa á borð við konur, stúlkur, ungt fólk og frumbyggja,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Meðal þátttakenda í umræðunum voru Alexander Van der Bellen, forseti Austurríkis, Faure Essozimna, forseti Tógó, Hussain Mohamed Letheef, varaforseti Maldíva, og W.K. Mutate Nalumango, varaforseti Sambíu.

Fundur með utanríkisráðherra Palestínu

Forsætisráðherra átti einnig fund með Riyad al-Maliki, utanríkisráðherra Palestínu. Á fundinum kom forsætisráðherra á framfæri samúðarkveðjum vegna hins skelfilega mannfalls á Gasa. Forsætisráðherra ítrekaði stuðning Íslands við tafarlaust vopnahlé og nauðsyn þess að tryggja óhindraðan aðgang hjálpargagna til Gasa. Þá greindi forsætisráðherra frá ályktun Alþingis um málið og upplýsti um stuðning Íslands við tillögu um tafarlaust vopnahlé í atkvæðagreiðslu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag.

Þá átti forsætisráðherra tvíhliða fundi með Patrice Trovoada, forsætisráðherra Saó Tóme og Prinsípe, og Maneesh Gobin, utanríkisráðherra Máritíus. Á fundunum var rætt um framboð Íslands til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2025-2027. Ennfremur átti forsætisráðherra fundi með Daniel Risch, forsætisráðherra Liechtenstein, og Alain Berset, forseta Sviss.

 

 

  • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Riyad al-Maliki, utanríkisráðherra Palestínu - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum