Hoppa yfir valmynd
12. desember 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Notkun hljóðbóka eykst um 145% og lestur bóka dregst saman um 17%

Notkun hljóðbóka eykst um 145% og lestur bóka dregst saman um 17%  - myndMiðstöð íslenskra bókmennta
Notkun hljóðbóka hér á landi hefur aukist um 145% á síðustu sex árum og lestur bóka hefur á sama tíma dregist saman um 17%.

Þetta kemur fram í niðurstöðum lestrarkönnunar Miðstöðvar íslenskra bókmennta í samvinnu við helstu aðila á bókmenntasviðinu. Helsta breyting á lestrarvenjum er verulega aukin notkun hljóðbóka.

Samkvæmt könnuninni les eða hlustar þjóðin á 2,4 bækur að meðaltali á mánuði og ver til þess 30 til 60 mínútum á dag. Ekki er marktækur munur á yngsta hópnum og þeim elsta þegar svörin eru skoðuð en báðir hópar lesa/hlusta á 2,2 bækur á mánuði. Yngsti hópurinn les meira nú en í fyrra, en sá elsti minna.

Þetta er sjöunda árið sem sambærileg könnun er lögð fyrir þjóðina þar sem lestrarhegðun og viðhorf til lestrar og bókmenningar er kannað. Að könnuninni auk Miðstöðvar íslenskra bókmennta standa Borgarbókasafn Reykjavíkur, Félag íslenskra bókaútgefenda, Hagþenkir, Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, Reykjavík – Bókmenntaborg UNESCO og Rithöfundasamband Íslands að hönnunninni.

Bókasöfn skipa verulegan sess þegar kemur að lestri. Næstum helmingur Íslendinga, eða 47%, hefur nýtt sér þjónustu bókasafna undanfarið ár. Bókagjafir njóta enn sem fyrr mikillar hylli en um 61% gaf einhverjum bók á síðasta ári.

Mikill meirihluti þjóðarinnar er hlynntur opinberum stuðningi við íslenskar bókmenntir. 77% svarenda telur stuðninginn mikilvægan sem er hækkun úr 74% frá fyrra ári.

„Þetta eru Jákvæðar fréttir varðandi lestur og hlustun. Það er mikilvæg áskorun að efla áhuga barna á lestri og auka orðaforða. Ef barn hef­ur ekki yfir 98% þekk­ingu á orðum þá nær það ekki að draga rétta álykt­un. Það er samfélagsverkefni að stór­efla lesskiln­ing barna með áherslu á fag­orðaforða til þess að þau geti klárað grund­vallar­próf líkt og PISA með sóma. Tungumálið okkar verður að fá aukið vægi í víðu samhengi í þjóðfélaginu,“ seg­ir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Sjá einnig: Miðstöð íslenskra bókmennta 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum