Hoppa yfir valmynd
15. desember 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umsóknir um leyfi til að reka raforkumarkað

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið stefnir á að afgreiða umsóknir tveggja aðila um leyfi til reksturs raforkumarkaðar, sem taka eiga gildi á næstunni. Eru þetta fyrirtækin Elma orkuviðskipti ehf. og Vonarskarð ehf.

Að mati ráðuneytisins uppfylla báðir aðila skilyrði raforkulaga til að reka raforkumarkað, en samkvæmt raforkulögum þarf leyfi ráðherra til að reka raforkumarkað.

Elma er dótturfélag Landsnets hf. og að fullu í eigu flutningsfyrirtækisins. Framkvæmdastjóri félagsins er Katrín Olga Jóhannesdóttir og í stjórn félagsins situr Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets hf.

Vonarskarð ehf. er í eigu félagsins Bolmagn ehf. en það félag er í eigu hjónanna Björgvins Skúla Sigurðssonar og Kristínar Friðgeirsdóttur. Björgvin Skúli er framkvæmdastjóri Vonarskarðs.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:„Markaður fyrir raforkuviðskipti er mjög mikilvægur til að stuðla að aukinni samkeppni og gegnsæi verðmyndunar á raforkumarkaði. Markaðurinn er einnig tæki til þess að opna á aðkomu nýrra aðila á framleiðendahlið markaðarins.“

Leyfin, sem um ræðir, eru ekki sérleyfi né fela þau í sér önnur sérréttindi og þurfa umsækjendur að sýna fram á fjárhagslegan styrkleika og þekkingu á raforkumarkaði til að efna skuldbindingar vegna starfseminnar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum