Hoppa yfir valmynd
15. desember 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Uppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2023

Uppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2023 liggur nú fyrir. Uppgjörið í heild sinni er aðgengilegt á vef Fjársýslu ríkisins.

Helstu niðurstöður uppgjörsins eru:

  • Afkoma tímabilsins skv. rekstraryfirliti var neikvæð um 87 ma.kr. sem er 35 ma.kr. lakari afkoma en áætlun gerði ráð fyrir. Frávikið skýrist að stærstum hluta vegna 42 ma.kr. umfram gjaldfærslu vegna hækkunar lífeyrisskuldbindinga.
  • Tekjur tímabilsins voru 48 ma.kr. umfram áætlun. Tekjur af sköttum og tryggingagjöldum voru 44 ma.kr., eða 5,9%, yfir áætlun. Þar af var tekjuskattur á einstaklinga og skattur á fjármagnstekjur 12,3 ma.kr. og 12,6 ma.kr. yfir áætlun. Aðrir skattar voru samtals 18,6 ma.kr. yfir áætlun. Tekjuþróunin litast að nokkrum hluta af því að verðbólga hefur verið meiri en spár gerðu ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga og nafnvöxtur tekna meiri af þeim sökum.
  • Fjármagnsgjöld voru 22,6 ma.kr., eða 31,9% yfir áætlun á meðan fjármunatekjur voru 4,3 ma.kr., eða 10,2% undir áætlun sem veldur 26,9 ma.kr. halla á fjármagnsliðum eða 93% sem skýrist að mestu af meiri verðbólgu og hærra vaxtastigi en áætlanir gerðu ráð fyrir.
  •  Heildarafkoma janúar til september skv. GFS grunni er neikvæð um 31 ma.kr. Í frumvarpi til fjáraukalaga ársins 2023 er endurmetin afkoma ársins áætluð neikvæð um 45 ma.kr. en til samanburðar gera fjárlög ársins, sem samþykkt voru á síðasta ári, ráð fyrir 120 ma.kr. neikvæðri afkomu.
  • Eignir A1-hluta ríkissjóðs námu í lok september samtals 2.812 ma.kr., skuldir samtals námu 2.699 ma.kr. og eigið fé var jákvætt um 112 ma.kr.
  • Handbært fé í lok september var 273 ma.kr., sem er lækkun um 58 ma.kr. frá ársbyrjun. Rekstrarhreyfingar voru neikvæðar um 10,6 ma.kr., fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 58,2 ma.kr. og fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 10,8 ma.kr.
  •  Langtímaskuldir voru samtals 1.343 ma.kr. og lækkuðu um 37 ma.kr. frá ársbyrjun
  •  Fjárfestingar námu 49,4 ma.kr. en fjárfesting á sama tímabili síðasta árs var 44,1 ma.kr.
  • Mánaðaruppgjör Fjársýslunnar eru gerð á grundvelli alþjóðlegra reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila sem miða við rekstrargrunn, IPSAS. Framsetning og flokkun upplýsinga um fjármál skv. 1. gr. fjárlaga er hins vegar samkvæmt hagskýrslustaðlinum GFS.

    Sundurliðun á tekjum ríkis og gjöldum niður á málefnasvið, málaflokka og ríkisaðila kemur fram í mánaðaruppgjöri sem Fjársýsla ríkisins birtir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum