Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Kynnti þingsályktun og aðgerðaáætlun í málstefnu íslensks táknmáls

Frá kynningarfundi ráðherra hjá Félagi heyrnarlausra í dag. - mynd

Táknmálstúlkun má finna neðar í fréttinni.  

Íslenskt táknmál er eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi og eina tungumálið sem á sér lagalega stöðu utan íslenskrar tungu, líkt og kemur fram í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra kynnti í dag á opnum fundi þingsályktun um málstefnu íslensks táknmáls 2024-2027 og aðgerðaáætlun. Ráðherrann mælti fyrir þingsályktuninni á Alþingi á dögunum.

„Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða samþætting sjón- og heyrnarskerðingar hefur greinst,“ segir ráðherra um aðgerðirnar.

Gert er ráð fyrir að Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra geti tekið meginábyrgð á framkvæmd aðgerða í aðgerðaáætlun í góðu samráði við aðra aðila eftir því sem við á.

Starfshópur skipaður fulltrúum Málnefndar um íslenskt táknmál, Félags heyrnarlausra og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra vann drög að málstefnu og aðgerðaáætlun með málstefnunni í víðtæku samstarfi við sérfræðinga í málaflokknum. Táknmálssamfélagið var boðað til umræðufundar þar sem drögin voru rýnd og tekið var tillit til athugasemda er komu fram á fundinum.

Tillaga til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls 2023–2026 og aðgerðaáætlun sem henni fylgir taka mið af lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, þingsályktun um menntastefnu fyrir árin 2021–2030 og þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi.

Áherslur í málstefnum minnihlutamála geta verið ólíkar áherslum í málstefnum meirihlutamála og byggt á öðrum forsendum. Málstefnan tekur til sex meginstoða sem skipta máli fyrir málstefnu minnihlutamálsins og áhersluþætti innan hverrar meginstoðar.

A. Máltöku táknmálsbarna
B. Rannsókna og varðveislu
C. Jákvæðs viðhorfs
D. Fjölgunar umdæma íslensks táknmáls
E. Lagaumhverfis
F. Máltækni.


Aðgerðaáætlun með málstefnunni sem ráðherra mælti fyrir á Alþingi miðast eingöngu við þær aðgerðir sem koma þurfa til framkvæmda á næstu þremur árum en að þeim liðnum verður málstefnan endurskoðuð og ný aðgerðaráætlun unnin í kjölfarið.

Táknmálstúlkun á fréttatilkynningu

Táknmálstúlkun á þingsályktuninni sjálfri má sjá hér fyrir neðan. 

Sjá einnig:

Ferill málsins á vef Alþingis

Tillaga til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls 2024–2027 og aðgerðaáætlun.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum