Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Endurskoðun á undanþágum frá aðalnámskrá grunnskóla

Mennta- og barnamálaráðuneytið vekur athygli á breytingum á aðalnámskrá grunnskóla um undanþágur frá skyldunámi og leiðir til að fullnægja skólaskyldu.

Helstu breytingar eru eftirfarandi:

  • Endurskoðun á undanþágum frá skyldunámi með nýjum og einfaldari viðmiðum
  • Skýrari viðmið um leyfilega fjarvist frá skólasókn
  • Nýjar leiðbeiningar vegna óútskýrðrar fjarvistar og skólaforðunar
  • Frekari skilgreining á viðurkenningu á námi utan grunnskóla
  • Ítarlegri umfjöllun um aðrar leiðir til að fullnægja skólaskyldu, þ.e. þróunarskóla, alþjóðaskóla, heimakennslu og fjar- og dreifnám
  • Nýr kafli í almenna hluta aðalnámskrár um trúar- og lífsskoðanir í fjölmenningarsamfélagi
  • Endurskoðun aðalnámskrár m.t.t. nýlegra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Nýr og endurskoðaður kafli um undanþágur frá aðalnámskrá hefur það að markmiði að veita eins skýra leiðsögn um undanþágur frá aðalnámskrá og framast er unnt innan ramma gildandi laga og reglugerða. Breytingarnar á aðalnámskrá tóku jafnframt mið af umsögnum sem bárust í Samráðsgátt.

Ráðherra skipaði starfshóp með fulltrúum helstu hagsmunaaðila til þess að endurskoða 16. kafla aðalnámskrár grunnskóla frá 2011. Hlutverk hópsins var að skilgreina þau atriði kaflans sem þarfnast endurskoðunar. Starfshópnum var m.a. ætlað að móta viðmið um skólasókn og taka mið af tillögum Velferðarvaktarinnar um fækkun nemenda með skólaforðun. Einnig var hópnum ætlað að setja viðmið um undanþágu frá skyldunámi. Starfshópurinn vann að heildarendurskoðun kaflans og lagði til umtalsverðar breytingar frá gildandi undanþágukafla með það fyrir augum að auka skólasókn nemenda og minnka fjarveru á skólatíma.

Mennta- og barnamálaráðuneytið og Menntamálastofnun vinna saman að frekari kynningu og innleiðingu á nýjum undanþágukafla.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum