Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2024 Utanríkisráðuneytið

Ísland styður sérstaklega við fátækustu íbúa Malaví

Frá Mangochi-héraði í Malaví. - mynd

Íslensk stjórnvöld hafa veitt 50 m.kr. viðbótarframlag í sérstakan sjóð Alþjóðabankans og ríkisstjórnar Malaví sem fjármagnar aðgerðir til að styðja þau allra fátækustu í landinu.

Áætlað er að 4.4 milljónir íbúa í Malaví búi við alvarlegan fæðuskort vegna bágborinnar stöðu efnahagsmála og ítrekaðra uppskerubresta.  Malaví er afar berskjaldað fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga og hafa þurrkar og flóð haft skelfilegar afleiðingar  undanfarin ár og valdið mannfalli og gríðarlegu tjóni á ræktarsvæðum og innviðum.  

Viðbótarframlag Íslands er eyrnamerkt svokölluðum grænum störfum fyrir þau sem búa við sárafátækt í Malaví. Verkefnið er mikilvægur liður í að auka þekkingu og getu viðkvæmra samfélaga til að vera betur í stakk búin til að takast á við náttúruhamfarir. Störfin eru m.a. við landgræðslu, verndun vatns og sérstakar aðgerðir til að auka viðnámsþrótt samfélaga gegn flóðum og þurrkum.

Afar ánægjulegt að sjá ávinninginn af eigin raun

Með launaðri vinnu eykst fæðuöryggi þátttakenda, stuðlað er að samfélagslegum stöðugleika og unnið er að uppbyggingu mikilvægra innviða á borð við stíflur og varnargarðar. Ríkisstjórn Malaví stefnir á að skapa 520.000 græn störf á árinu og fjölga þannig þeim heimilum sem fá mánaðarlegar stuðningsgreiðslur.

„Það er mjög ánægjulegt að sjá hvernig þetta verkefni hefur bætt hag þeirra allra verst settu í Malaví. Mörgum foreldrum er nú gert kleift að brauðfæða fjölskylduna út mánuðinn og þá hef ég hitt nokkrar fjölskyldur sem ná meira að segja að leggja fyrir hluta af mánaðarlegu upphæðinni til að byggja upp heimili sín og akra eftir náttúruhamfarir. Þá erum við auðvitað sérstaklega ánægð með að framkvæmd verkefnisins er að fullu í höndum stjórnvalda í Malaví sema tryggir sjálfbærni þess,“ segir Inga Dóra Pétursdóttir, forstöðukona sendiráðs Íslands í Malaví.

Ísland og Bandaríkin eru stofnaðilar að sjóði Alþjóðabankans sem komið var á fót árið 2022 og var stofnaður á ögurstundu fyrir malavískan efnahag. Ísland hefur skuldbundið sig til að leggja til sjóðsins 420 m.kr. yfir þriggja ára tímabil. Tilkynnt var um viðbótarframlag Íslands á saman tíma og tilkynnt var um þátttöku Evrópusambandsins, Írlands, Noregs og Bretlands í verkefninu.  Ísland á sæti í verkefnastjórn sjóðsins ásamt öðrum framlagsríkjum og sinnir eftirliti með reglubundnum heimsóknum á verkefnasvæðin.

  • Frá Mangochi-héraði í Malaví. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum