Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Reglugerð um loftslagsráð í Samráðsgátt

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í Samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerð um loftslagsráð. Gert er ráð fyrir að við setningu reglugerðarinnar verði loftslagsráð skipað á grundvelli hennar að samráði loknu.

Reglugerðardrögin kveða á um hámarksfjölda fulltrúa í loftslagsráði, hæfniviðmið sem ráðherra skal hafa til hliðsjónar við skipan fulltrúa og samtal ráðs við hagaðila.

Ráðherra ber ábyrgð á skipan formanns og varaformanns loftslagsráðs, sbr. 3. mgr. 5. gr. b. í lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál og kveður nánar á um skipan, hlutverk og störf loftslagsráðs í reglugerð, sbr. 5. mgr. sama ákvæðis.

Nýlega hélt ráðuneytið í samstarfi við Loftslagsráð vel sótt málþing um stjórnun loftslagsmála og hlutverk loftslagsráða. Þar var meðal annars fjallað um skipan loftslagsráða í alþjóðasamhengi og um skýrslu Ómars H. Kristmundssonar, Loftslagsráð: Greining og ábendingar. Í þeirri skýrslu fjallar Ómar m.a. um nauðsyn þess að meðlimir loftslagsráðs uppfylli ákveðin hæfniviðmið og þannig verði ráðið fremur sérfræðiráð en fulltrúaráð, svipað því hvernig loftslagsráð nágrannalanda Íslands eru mönnuð. Slík skipun fellur einnig vel að þeim ábendingum sem komið hafa frá framkvæmdastjórn Loftslagsráðs.

Greining ráðuneytisins leiddi það í ljós að ráð annarra ríkja hafa mismunandi útfærslur við skilgreiningu hæfniviðmiða, en almennt er hæfniviðmiðunum ætlað að tryggja að samsetning ráðanna sé þannig að í heild hafi ráðin þekkingu á áhrifum loftslagsmála á allt samfélagið.

Vinna þessi er hluti af því verkefni að styrkja stjórnsýslu loftslagsmála og helst í hendur við áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál á þingmálaskrá 154. löggjafarþings.

Athygli er vakin á því að umsagnarfrestur vegna reglugerðarinnar í samráðsgátt stjórnvalda er til 6. febrúar nk.

Reglugerð um loftslagsráð

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum