Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ráðast í greiningu á þörfum fatlaðs fólks fyrir máltæknilausnir

Frá undirritun samningsins fyrr í dag.  - myndMVÍ

Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur gert samning við ÖBÍ réttindasamtök og greiningarfyrirtækið Sjá viðmótsprófanir um að ráðast í greiningu á þörfum fatlaðs fólks fyrir vörur og hugbúnað sem byggja á máltækni. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, undirritaði samninginn í dag ásamt Ölmu Ýr Ingólfsdóttur, formanni ÖBÍ, og Jóhönnu Símonardóttur, framkvæmdastjóra Sjá.

Verkefnið verður unnið á komandi vikum og mun Sjá framkvæma þarfagreininguna í samstarfi við ÖBÍ. Þar verður dregin fram skýr og góð mynd af þörfum þeirra hópa fatlaðra sem nota máltæknilausnir í daglegum athöfnum.

Verkefnið er eitt nokkurra hagnýtra máltækniverkefna sem menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur ákveðið að styðja við. Niðurstöður greiningarinnar verða nýttar áfram í það máltæknistarf sem styrkt er af ráðuneytinu auk þess sem niðurstöðurnar eru afar gagnlegar innlendum framleiðendum máltæknilausna fyrir þennan hóp.

„Við erum að sækja fram í máltækninni um þessar mundir og þessi greining á þörfum fatlaðs fólks fyrir máltæknilausnir er gríðarlega mikilvæg fyrir þá vinnu og þróun í máltækni sem mun fara fram hér á landi á næstu árum. Þetta er einn allra mikilvægasti hópurinn sem nýtir máltækni og þróun á íslenskri máltækni svo að hægt sé að tala íslensku við tækin er ekki síður mikilvægt aðgengismál fyrir fatlað fólk en mál sem snýst um vernd íslenskunnar,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

„Þessi samningur er fagnaðarefni. Tækniþróun er ör og það er mikilvægt að nýjar lausnir gagnist öllum, hvort sem um er að ræða aðgang að mynd, hljóði eða texta. Þetta verkefni og vinnan framundan gerir okkur kleift að öðlast þekkingu um þarfir fatlaðs fólks á sviði máltækni. Þannig verður hægt að stuðla að bættu aðgengi fatlaðs fólks að máltæknilausnum, aukinni samfélagsþátttöku og minni félagslegri einangrun,“ segir Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum