Hoppa yfir valmynd
6. mars 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Aðgerðir í þágu öflugri fjölmiðla: Fjölmiðlastefna til 2030 birt í samráðsgátt

Drög að stefnu um málefni fjölmiðla til ársins 2030 og aðgerðaáætlun henni tengdri hafa verið birt í samráðsgátt. Um er að ræða fyrstu opinberu stefnu um málefni fjölmiðla á Íslandi.

Með stefnunni er mótuð framtíðarsýn og skilgreindar lykiláherslur á málefnasviði fjölmiðla með það að markmiði að efla fjölbreytni og fagmennsku á fjölmiðlamarkaði og bregðast við áskorunum samtímans á sviði tækni og stafrænna miðla. Einnig er áhersla lögð á vernd og valdeflingu almennings í stafrænum heimi, einkum barna, og að börn og ungmenni hafi aðgang að innlendu fjölmiðlaefni á íslensku.

„Í fjölmiðlastefnunni birtast skýr áform stjórnvalda um að efla rekstur innlendra fjölmiðla og bæta starfsumhverfi fjölmiðlafólks. Fjölmiðlastefnan endurspeglar mikilvægi faglegra fjölmiðla fyrir íslenskt samfélag og lýðræði. Það er tímabært að málefni fjölmiðla í víðu samhengi verði sett á dagskrá í íslensku samfélagi og að stjórnvöld leggi sitt af mörkum til styðja við starfsemi þeirra. Ég er þess fullviss að með meginmarkmið stefnunnar að leiðarljósi náum við að efla öfluga, íslenska fjölmiðlun til framtíðar,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Að loknu samráðsferli hyggst menningar- og viðskipraráðherra mæla fyrir þingsályktunartillögu um málið á Alþingi Íslendinga. Hljóðar heildarumfang aðgerðanna til stuðnings einkareknum fjölmiðlum upp á 727,2 milljónir á árinu.

Stefnan kemur meðal annars inn á minnkuð umsvif RÚV á auglýsingamarkaði og því hefur ráðuneytið birt skýrslu starfshóps um málefni Ríkisútvarpsins með tillögum sem miða að minnkun umsvifa ríkisfjölmiðilsins á auglýsingamarkaði og skoða leiðir til að létta á lífeyrisskuldbindingum stofnunarinnar.

 

Meðal helstu aðgerða sem finna má í drögum að aðgerðaáætlun nýrrar fjölmiðlastefnu til ársins 2030 eru eftirfarandi:


Tímabundin undanþága frá greiðslu 70% tryggingagjalds.
Stutt verði við rekstrargrundvöll einkarekinna fjölmiðla með tímabundinni undanþágu frá greiðslu 70% tryggingagjalds af launum fjölmiðlafólks sem falla undir tvö lægri skattþrep tekjuskattstofns.

Beinn rekstrarstuðningur til einkarekinna fjölmiðla.
Áfram verði stutt við rekstur einkarekinna fjölmiðla með fyrirsjáanlegu stuðningskerfi að norrænni fyrirmynd. Stutt verði við rekstur ritstjórna á einkareknum frétta- og dagskrármiðlum sem gegna lýðræðislegu hlutverki og gefa út fréttir, fréttatengt efni og umfjöllun um samfélagslega mikilvæg málefni. Stuðningskerfið verði endurskoðað í árslok 2024, með hliðsjón af skýrslu úthlutunarnefndar þar sem fram komi mat á stuðningskerfinu. Að teknu tilliti til tillagna úthlutunarnefndar verði stuðningskerfið framlengt til 2030. Einnig verði áfram veittur stuðningur til staðbundinna fjölmiðla með starfsemi utan höfuðborgarsvæðisins.

Dregið verði úr umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði.
Samkeppnisstaða einkarekinna fjölmiðla gagnvart Ríkisútvarpinu verður bætt með því að draga úr umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Um leið verði gætt að því að standa vörð um störf í skapandi greinum, framleiðslu á auglýsingum og rétt landsmanna til upplýsinga um vörur og þjónustu. Unnið verður með tillögur sem miða að því að breyta eðli og umfangi auglýsingasölu og/eða að lagabreytingum sem feli í sér takmarkanir á birtingu viðskiptaboða (leið 3 - sjá nánar hér að neðan). Meðal annars verður unnið að því að hefðbundin sala og markaðsetning á auglýsingum hjá RÚV verði óheimil.

Skipaður verður vinnuhópur um útfærslu þess efnis sem skila skal tillögum, ásamt verk- og tímaáætlun, eigi síðar en 31. maí 2024.  Aðgerð þessi er í samræmi við yfirlýsingu í viðauka við þjónustusamning sem ráðherra og útvarpsstjóri undirrituðu í janúar og felur í sér að umsvif RÚV á auglýsingamarkaði verði minnkuð.

• Rannsóknar- og þróunarsjóður fyrir fjölmiðla.
Stofnaður verði nýsköpunar- og þróunarsjóður sem styrkir nýbreytni og rannsóknarvinnu á fjölmiðlum. Gert er ráð fyrir að þróunar og rannsóknarstyrkir renni til útgefenda fjölmiðla, þ.e. einstaklinga og lögaðila sem starfrækja fjölmiðla og verði úthlutun þeirra í höndum óháðs aðila. Aðgerðin verði tímabundin í þrjú ár og endurmetin að þeim tíma loknum, með tilliti til árangurs og áhrifa af aðgerðinni.

• Stutt við talsetningu og textun barnaefnis á íslensku hjá einkareknum fjölmiðlum.
Innlendum fjölmiðlum er skylt að texta eða talsetja erlent myndefni á íslensku á grundvelli lagaskyldu. Samkeppnisstaða einkarekinna, innlendra fjölmiðla gagnvart erlendum streymisveitum verður bætt með tímabundinni endurgreiðslu á kostnaðivið talsetningu og textun barnaefnis á íslensku. Aðgerðin verði tímabundin í þrjú ár og endurmetin að þeim tíma loknum.

• Grunnmenntun blaðamanna verði efld.
Nám í blaðamennsku hefur verið í boði á meistarastigi við Háskóla Íslands um árabil. Haustið 2024 verður meistaranámið flutt á grunnstig, sem er nær því fyrirkomulagi sem tíðkast í nágrannalöndum, greiðir fyrir aðgengi að náminu og stóreykur möguleika nemenda á skiptinámi. Aðgerðin miðar að því að efla menntun blaða- og fréttamanna, fjölga fagmenntuðum blaðamönnum á ritstjórnum fjölmiðla og að nám og starfsferill í blaðamennsku verði raunhæfur og eftirsóknarverður valkostur.

• Gagnsæi um auglýsingakaup hins opinbera verði aukið.
Ráðuneyti og ríkisstofnanir birta nú þegar bókhald sitt á vefnum opnirreikningar.is, þar sem hægt er að sjá einstaka reikninga. Ekki er þó ekki unnt að nálgast þar upplýsingar um heildarfjárhæðir sem renna frá hinu opinbera til einstakra birgja (auglýsingamiðla). Aðgerðin felur í sér að ríkisstofnanir og aðrir opinberir aðilar sem verja meiru en 10 milljónum króna á ári í kaup á auglýsingum geri árlega grein fyrir því hvernig auglýsingafé er varið. Fjársýsla ríkisins taki framangreindar upplýsingar saman og geri þær aðgengilegar almenningi. Sjónarmið að baki aðgerðinni er að aukið gagnsæi geti leitt til þess að opinberar stofnanir auglýsi meira í íslenskum fjölmiðlum en á erlendum miðlum.

• Unnið verði að því að fjölmiðlar fái aukinn hlut í þeim fjárhagslegu verðmætum sem skapast við stafræna dreifingu fréttaefnis á erlendum samfélagsmiðlum og leitarvélum.
Í þeim tilgangi verði ráðist í lagabreytingar sem innleiði 15. og 17. gr. höfundaréttartilskipunar ESB, líkt og gert hefur verið í Danmörku og fleiri nágrannaríkjum Íslands.

• Unnið verði áfram að sameiginlegu regluverki með ríkjum OECD og fleiri ríkjum um skattlagningu alþjóðlegra tæknirisa.
Stjórnvöld móti tillögur að stafrænum þjónustuskatti á starfsemi alþjóðlegra tæknirisa hér á landi, komi til þess að ekki náist samkomulag um sameiginlegt regluverk á vettvangi OECD fyrir árslok 2024.

• Metin verði þörf á lagabreytingum til að sporna gegn tekjutapi fjölmiðla vegna höfundaréttarbrota sem framin eru í atvinnuskyni.
Aðgerðinni er ætlað að koma í veg fyrir kerfisbundin höfundarréttarbrot sem talin eru skerða tekjur íslenskra fjölmiðla umtalsvert á hverju ári.

• Ríkisútvarpið leiti leiða til að efla samstarf við staðbundna fjölmiðla á landsbyggðinni og auka þjónustu á landsvæðum þar sem engin eða takmörkuð fjölmiðlun er fyrir hendi.
Aðgerðin felur í sér að Ríkisútvarpið leiti leiða til að efla samstarf við staðbundna fjölmiðla og leggi áherslu á þjónustu við svokölluð skuggasvæði; landsvæði þar sem engin eða takmörkuð fjölmiðlun er fyrir hendi. Aðgerðin er jafnframt í samræmi við þjónustusamning Ríkisútvarpsins og menningar- og viðskiptaráðherra 2024-2027.

 

Skýrsla um málefni Ríkisútvarpsins


Í júní 2023 skipaði menningar- og viðskiptaráðherra starfshóp sem fékk það hlutverk að fjalla um málefni Ríkisútvarpsins (RÚV). Markmið með skipan hópsins var tvíþætt:

• Að skoða mögulegar leiðir og tillögur til að breyta eðli og umfangi auglýsingadeildar RÚV til að minnka umsvif ríkisfjölmiðilsins á auglýsingamarkaði.

• Að skoða möguleika á að létta lífeyrisskuldbindingum RÚV við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR).

Hópinn skipuðu Karl Garðarsson (formaður), Óttar Guðjónsson, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytis, og Steindór Dan Jensen fulltrúi menningar- og viðskiptaráðuneytis. Starfshópurinn hefur lokið störfum og skilað skýrslu þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum og tillögum meirihluta hópsins, sem Karl Garðarsson og Óttar Guðjónsson skipuðu. Steindór Dan Jensen skilaði minnihlutaáliti.

Varðandi fyrra markmiðið lagði meirihluti starfshópsins fram þrjár tillögur

1.Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði.
• Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði og hverfi þar með frá samkeppni við einkaaðila þegar kemur að sölu auglýsinga sem skekkt hafi markaðinn í langan tíma. Þessi breyting taki gildi áramótin 2024/2025.
• Lagt er til að útvarpsgjald hækki til að bæta RÚV tekjutap vegna þessa og að sú hækkun gangi síðan að hluta til baka.
• Áfram verði heimilt að birta auglýsingar og tilkynningar sem flokkist undir almannaþjónustu, svo sem almannavarnir, náttúruvá, tilkynningar frá stjórnvöldum og skattayfirvöldum o.fl.
• Ríkissjóður taki yfir lífeyrisskuldbindingar RÚV.
• Fjölmiðlastyrkir til einkarekinna fjölmiðla falli niður samhliða því að RÚV fari af auglýsingamarkaði. Staðbundnir minni fjölmiðlar á landsbyggðinni fái þó áfram styrki.
• Rekstur RÚV verði endurskoðaður. Skipuð verði nefnd um málið með það fyrir augum að aðlaga rekstur félagsins til framtíðar að breyttu tekjumódeli.
• Þjónustusamingur við RÚV verði endurskoðaður og samræmdur við stöðu RÚV án auglýsingatekna og þann sparnað sem stefnt er að. Samhliða verði nauðsynlegar lagabreytingar gerðar.

2. Auglýsingatími verði skertur.
• Auglýsingasala RÚV verði háð takmörkunum þannig að heimild til birtinga auglýsinga í sjónvarpi fari úr 8 mínútum á klukkustund í 4 mínútur. Sömu tímatakmarkanir gildi í hljóðvarpi. Þessi breyting taki gildi áramótin 2024/2025.

3. Pöntunartími taki við hefðbundinni sölu.
• Hefðbundin sala og markaðssetning á auglýsingum hjá Ríkisútvarpinu verði óheimil en í staðinn geti viðskiptavinir pantað auglýsingahólf hjá félaginu. Þessi breyting taki gildi áramótin 2024/2025.

Eftirfarandi tillögur fylgdu tillögum meirihlutans að tillögu 2 og 3.

• Ríkissjóður yfirtaki ekki lífeyrisskuldbindingar RÚV.
• Heimild RÚV til sölu skjáauglýsinga verði afnumin.
• Vöruinnsetning verði áfram óheimil, í samræmi við 7. mgr. 7. gr. laga nr. 23/2013 um RÚV.
• Föst verðskrá sem gildir að lágmarki í 3 mánuði í senn verði gefin út og afslættir frá henni verði bannaðir. Fríbirtingar verði bannaðar en heimilt að birta auglýsingar og tilkynningar í almannaþágu utan þess mínútufjölda sem kveðið er á um í 1.2.
• Kostanir verði bannaðar.
• Rekstur RÚV verði endurskoðaður. Skipuð verði nefnd með það fyrir augum að aðlaga rekstur RÚV til framtíðar að breyttu tekjumódeli.
• Fjölmiðlastyrkir til einkarekinna fjölmiðla lækki um fjórðung samhliða því að auglýsingamínútum fækki hjá RÚV. Sú lækkun styrks nái ekki til minni fjölmiðla á landsbyggðinni.
• Sala á „blokkum“ til viðskiptavina RÚV verði bönnuð, en þar er átt við að ekki verði hægt að kaupa upp stór auglýsingahólf fram í tímann, annað hvort til eigin nota eða til endursölu.
• Samningar um þjónustulaun verði bannaðir.
• Árangurstengdar greiðslur til starfsmanna RÚV sölu ehf. verði áfram bannaðar, sbr. yfirlýsingu með núgildandi þjónustusamningi.
• Svokallað „bundling“ verði bannað, þ.e.a.s að gera það sem forsendu fyrir viðskiptum að viðskiptavinir kaupi stærri auglýsingapakka með fleiri birtingum. Sérstaklega verði bannað að tengja saman viðskiptaboð auglýsinga í sjónvarpi og útvarpi.
• Metið verði hvort tekjutap vegna tapaðra auglýsingatekna verði það mikið að ástæða sé til að hækka útvarpsgjald.
Varðandi seinna markmiðið með starfi hópsins lagði meirihluti hans til að ríkissjóður taki yfir lífeyrisskuldbindingar RÚV verði farið eftir tillögu 1, þ.e. fari Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði.
Líkt og fram hefur komið hefur hyggst menningar- og viðskiptaráðherra leggja til við ríkisstjórn að skipaður verði vinnuhópur með það fyrir augum að draga úr umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingarmarkaði í samræmi við tillögu 3 í skýrslu starfshópsins. Vinna hópsins taki einnig mið af viðauka II í samningi ráðherra og Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu 2023-2027.

Skýrsla starfshóps um málefni Ríkisútvarpsins:  Takmarkanir á auglýsingasölu Ríkisútvarpsins og staða lífeyrisskuldbindinga félagsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum