Hoppa yfir valmynd
12. mars 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Frumvarp um fjölmiðla samþykkt - mynddeiliveitum skylt að tryggja öryggi barna

Alþingi hefur samþykkt frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011.

Í lögunum er að finna það nýmæli að mynddeiliveitum (e. video sharing platforms) verður skylt að tryggja vernd barna með tæknilegum úrræðum og gera notendum kleift að tilkynna efni sem hvetur t.d. til ofbeldis eða hryðjuverka. Auk þess verða gerðar kröfur um skýrar merkingar auglýsingaefnis á mynddeiliveitum.

Aðrar helstu breytingar eru eftirfarandi:

  • Reglur um hámarkshlutfall auglýsinga í línulegri sjónvarpsdagskrá verða rýmkaðar. Þessum breytingum er ætlað að styrkja hefðbunda fjölmiðla í samkeppni við streymisveitur og samfélagsmiðla.
  • Gerðar verða kröfur um 30% hlutfall íslensks og annars evrópsks efnis í ólínulegri dagskrá. Áður voru einungis gerðar kröfur um tiltekið hlutfall íslensks og annars evrópsks efnis í línulegri sjónvarpsdagskrá.
  • Fjölmiðlum verður skylt að bæta aðgengi sjón- og heyrnarskertra að myndefni með virkum hætti.
  • Auk þess miðar efni frumvarpsins að því að auka fræðslu um upplýsinga- og miðlalæsi, sem talið er nauðsynleg færni í nútímasamfélagi og mikilvægur hluti af netöryggi almennings.

Lagabreytingar eru byggðar á evrópsku hljóð- og myndmiðlunartilskipuninni frá árinu 2018 og  er ætlað að uppfæra lagaumhverfi fjölmiðla til samræmis við tækniþróun og breytta fjölmiðlanotkun almennings. Samkvæmt henni gilda sömu lágmarksreglur um hljóð- og myndmiðlun í öllum EES-ríkjum, þar á meðal á Írlandi, þar sem þekktasta mynddeiliveita heims, YouTube, er staðsett.

Línulegt sjónvarpsáhorf hefur minnkað og meira er horft á myndefni í ólínulegri dagskrá og á mynddeiliveitum, eins og YouTube, Facebook og Instagram. Markmið breytinganna er meðal annars að tryggja vernd barna og öryggi notenda myndmiðla, óháð því hvort myndefni er miðlað með línulegum eða ólínulegum hætti í fjölmiðlum eða á mynddeiliveitum.

Nánar má fræðast um feril frumvarpsins og nefndarálit á vef Alþingis.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum