Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ísland á framkvæmdastjórnarfundi UNESCO í París

Fulltrúar Íslands á framkvæmdarstjórafundi UNESCO - mynd

Ísland tók nýlega þátt í 219. fundi framkvæmdastjórnar Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) sem haldinn var í París 13.- 26. mars. Fundinn sóttu fulltrúar fastanefndar Íslands gagnvart UNESCO ásamt fulltrúa menningar- og viðskiptaráðuneytis. Dagskrá fundarins var yfirgripsmikil að vanda með 65 dagskrárliðum. Málefnasvið stofnunarinnar nær yfir menningu, fjölmiðla, menntamál og vísindi.

Meðal umfjallana voru styrking á jafnréttisstarfi stofnunarinnar, aðgerðaráætlun til tjáningarfrelsis vísindafólks og framlengingu á samstarfssamningi við Vigdísarstofnun sem er alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar á vettvangi UNESCO. Einnig voru tekin fyrir áhrif stríðsátaka, meðal annars á Gaza-svæðinu og í Úkraínu, út frá ábyrgðarsviði og starfsemi UNESCO. Samþykktar voru ályktanir um neyðaraðstoð til Úkraínu og Gaza meðal annars til að styðja við menntun á svæðum þar sem ríkir neyðarástand.

Ísland á sæti í framkvæmdastjórn til 2025

Ísland var kosið í framkvæmdastjórn UNESCO fyrir tímabilið 2021-2025 á aðalráðstefnu stofnunarinnar árið 2021 með yfirgnæfandi stuðningi en Ísland hlaut flest atkvæði allra ríkja í kosningunni. Í framkvæmdastjórn sitja 58 ríki og er almennt mikil samkeppni meðal hinna 194 aðildarríkja UNESCO um sæti í framkvæmdastjórn. Kjörtímabil Íslands í framkvæmdastjórn UNESCO er nú vel á veg komið og hefur Ísland tekið virkan þátt og oft á tíðum forystu í málum innan stofnunarinnar, sérstaklega í málum er varða jafnréttismál, menningar- og menntamál, vernd tungumála og mannréttindamiðaða nálgun að leiðarljósi.

Íslenska UNESCO-nefndin vinnur að málefnum UNESCO jafnt á innlendum sem erlendum vettvangi og á vefsíðu íslensku UNESCO-nefndarinnar má finna upplýsingar um starfsemi UNESCO og alla UNESCO-aðila á Íslandi. Á innlendum vettvangi hefur undanfarið verið unnið að tilnefningu sundlaugamenningar á Íslandi á lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf og einnig er unnið að tilnefningu Snæfellsness sem fyrsta UNESCO vistvangsins á Íslandi. Þá eru fulltrúar Vigdísarstofnunar í stjórn Alþjóðlegs áratugs frumbyggjamála árið 2024 og mun Vigdísarstofnun standa fyrir viðburðum af því tilefni á þessu ári.

UNESCO er sjálfstæð undirstofnun Sameinuðu Þjóðanna sem hefur það að markmiði að stuðla að friði og öryggi í heiminum með því að efla alþjóðlega samvinnu í málaflokkum stofnunarinnar og er eina sérstofnun Sþ sem hefur það hlutverk að efla alþjóðlega samvinnu á sviði menningarmála sem heldur m.a. úti hinni þekktu Heimsminjaskrá og er sú stofnun SÞ sem hefur sérstakt umboð til að efla tjáningar- og fjölmiðlafrelsi.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum