Hoppa yfir valmynd
25. maí 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fyrsta hvítbókin í málaflokknum: Samfélag okkar allra – framtíð og stefna Íslands í málefnum innflytjenda

Drög að stefnu (hvítbók) í málefnum innflytjenda hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Stefnan er sú fyrsta sem íslenska ríkið mótar sér um málefni innflytjenda og markar tímamót á málefnasviðinu. Yfirskrift hennar er „Samfélag okkar allra – framtíð og stefna Íslands í málefnum innflytjenda“. 

Hvítbókin er birt á þremur tungumálum: Íslensku, ensku og pólsku, auk þess sem hún kemur út á auðlesinni íslensku. Í henni er sett fram framtíðarsýn, þrjú meginmarkmið og sautján mælanleg markmið sem ætlað er að endurspegla þær lykiláskoranir sem lýst var í grænbók sem kom út í nóvember síðastliðnum.

Við undirbúning stefnunnar boðaði félags- og vinnumarkaðsráðuneytið til samtals víða um land þar sem innflytjendur voru sérstaklega hvattir til að taka þátt. Markmið samtalsins var að fá fram raddir innflytjenda og tryggja sýn þeirra á áskoranir í málaflokknum við mótun stefnunnar. Þátttaka á fundunum var afar góð og sóttu um 500 manns opna fundi og fundi rýnihópa. 

Hvítbókin er niðurstaða af vinnu stýrihóps um stefnu í málefnum innflytjenda og var unnin í breiðu samráði, auk þess sem sérfræðingar frá OECD greindu gögn um Ísland og veittu ráðgjöf.

Framtíðarsýnin í hvítbókinni kjarnast um að skapa samfélag þar sem öll njóta jafnra tækifæra hér á landi, óháð uppruna. Stefnunni er ætlað að ná til áranna 2024-2038. Til að tengja framtíðarsýnina skilgreindum markmiðum eru í hvítbókinni sett fram svokölluð meginmarkmið. Þau lýsa almennum framförum sem ætlað er að ná fram og eru hugsuð til langs tíma. Undir hverju meginmarkmiði eru síðan sett fram markmið um mælanlegan árangur af stefnunni. 

Í kjölfarið verður unnin tillaga til þingsályktunar sem ráðgert er að lögð verði fram á Alþingi á haustþingi 2024. Stefnunni mun fylgja tillaga um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem leysir gildandi framkvæmdaáætlun af hólmi.

Tímabær og mikilvæg skref

„Ég hef lagt ríka áherslu á málefni innflytjenda frá því að ég tók við embætti félags- og vinnumarkaðsráðherra. Með stefnumótuninni erum við sem samfélag að taka mikilvæg og löngu tímabær skref,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

„Innflytjendur á Íslandi eru fjölbreyttur hópur fólks sem flust hefur hingað til lands af ýmsum ástæðum. Stefnu í málefnum innflytjenda er ætlað að tryggja að markvisst sé tekið tillit til þarfa innflytjenda til jafns við aðra, fólk búi við jöfn tækifæri, mannauður sé virkjaður og ljóst sé hvaða kröfur gerðar séu til fólks og samfélagsins í heild.“

Mögulegt er að senda inn umsagnir um hvítbókina til 21. júní nk. og er það gert í gegnum samráðsgátt stjórnvalda:

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýnin í hvítbókinni er svohljóðandi:

Ísland er fjölmenningarsamfélag sem er inngildandi og stuðlar að jöfnum tækifærum fólks til virkar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði.

Á Íslandi tilheyra innflytjendur samfélagi þar sem virðing ríkir fyrir fjölbreytileika og þar eru til staðar opinberir innviðir sem markvisst styðja við inngildingu og þátttöku allra í samfélaginu.

Á Íslandi er innflytjendum sköpuð fjölbreytt tækifæri og hvatning til að læra og tileinka sér íslensku sem tungumál þar sem aðgengi að hagnýtu íslenskunámi er gott og sveigjanleiki ríkir við námið.

Stefna Íslands í málefnum innflytjenda styður við grunngildi íslensks samfélags sem byggja á lýðræði, jafnrétti og virðingu fyrir almennum mannréttindum. 

Ítarefni: Hvað er hvítbók?

Hvítbók (drög að stefnu) felur í sér umfjöllun og ákvörðun um framtíðarsýn, markmið og árangur af starfsemi yfir tiltekið tímabil, ávinning á tilteknu sviði eða sjónarmið og gildi sem byggt skal á. Stefna nær yfir tiltekið tímabil og er ætlað að stuðla að heildstæðri áætlanagerð, fyrirsjáanleika við töku ákvarðana um aðgerðir, árangursmati og markvissu eftirliti. Hvítbók í málefnum innflytjenda er lögð fram til 15 ára eða til ársins 2038. 

Undanfari hvítbókar er stöðumat (grænbók) sem felur meðal annars í sér greiningu á lykilviðfangsefnum og eftir atvikum valkostum. Hvítbók er birt í opnu samráðsferli í samráðsgátt stjórnvalda. Það er ferlið sem nú stendur yfir. Að því loknu er farið yfir helstu sjónarmið sem fram koma áður en hin endanlega stefna er útfærð. Í tilfelli stefnu um málefni innflytjenda verður það gert með tillögu til þingsályktunar um stefnu til 15 ára ásamt framkvæmdaáætlun.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum