Hoppa yfir valmynd
5. mars 1997 Innviðaráðuneytið

Rípurhreppur - Auglýsing hreppsnefndarfunda og birting fundargerða

Leifur H. Þórarinsson                                           5. mars 1997                                                      97020029

Keldudal, Rípurhreppi                                                                                                                                1001

551 Sauðárkrókur

 

 

 

 

 

             Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 2. febrúar 1997, þar sem kvartað er yfir að hreppsnefnd Rípurhrepps auglýsi ekki hreppsnefndarfundi eins og lög gera ráð fyrir og birti ekki fundargerðir.

 

             Erindi yðar var sent til umsagnar hreppsnefndar Rípurhrepps með bréfi, dagsettu 5. febrúar 1997. Umsögn barst ráðuneytinu með bréfi, dagsettu 28. febrúar 1997.

 

Um fundargerðir hreppsnefndar:

 

             Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986 er sveitarstjórn ekki skylt að senda öllum íbúum sveitarfélagsins fundargerðir sínar, en henni er þó heimilt að ákveða slíkt. Ekkert liggur fyrir í máli þessu um að hreppsnefnd Rípurhrepps hafi ákveðið að senda út fundargerðir sínar.

 

             Hins vegar er rétt í þessu sambandi að geta nýrra upplýsingalaga nr. 50/1996, sem tóku gildi 1. janúar 1997. Þar segir svo í 1. mgr. 3. gr.: “Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr.” (Undirstrikun ráðuneytisins.) Upplýsingalögin skylda því ekki sveitarstjórnir til að birta í heild fundargerðir sínar, heldur ber þeim að veita upplýsingar um tiltekin mál ef eftir því er leitað.

 

Um auglýsingu hreppsnefndarfunda:

 

             Í umsögn Rípurhrepps segir m.a. svo um auglýsingu hreppsnefndarfunda að oddviti hafi “auglýst hreppsnefndarfundi annað slagið á glugga Félagsheimilisins, þar sem auglýst hefur verið í gegnum tíðina.”

 

             Í 2. mgr. 50. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 er svohljóðandi ákvæði: “Kunngert skal íbúum sveitarfélags með auglýsingu hvar og hvenær sveitarstjórn heldur fundi.”

 

             Í 49. gr. sveitarstjórnarlaga segir: “Sveitarstjórnir skulu setja sér fundarsköp. Ráðuneytið skal láta semja fyrirmynd að fundarsköpum fyrir sveitarstjórnir og birta hana í Stjórnartíðindum. Gilda þau fyrir sveitarstjórn þar til staðfest hafa verið sérstök fundarsköp fyrir hana.”

 

             Hreppsnefnd Rípurhrepps hefur ekki, þrátt fyrir lögboðna skyldu, sett sér fundarsköp. Um fundarsköp fyrir hreppsnefnd Rípurhrepps gildir því auglýsing félagsmálaráðuneytisins nr. 106/1987 um fyrirmynd að samþykkt um stjórn sveitarfélaga og fundarsköp fyrir sveitarstjórnir.

 

             Ákvæði um skyldu til að auglýsa fundi hreppsnefndar er að finna í 2. mgr. 14. gr. samþykktarinnar og er það efnislega samhljóða 2. mgr. 50. gr. laganna.

 

             Framangreind ákvæði 2. mgr. 50. gr. laganna og 2. mgr. 14. gr. samþykktarinnar fela í sér, að auglýsa ber fundi hreppsnefndar opinberlega í hreppnum á sama hátt og venja er þar um opinberar tilkynningar. Auglýsa ber alla hreppsnefndarfundi, sérstaklega ef hreppsnefnd hefur ekki ákveðna fasta fundardaga og fundartíma.

 

             Af ummælum kæranda annars vegar og oddvita hins vegar verður ekki annað ráðið en að mismunandi háttur sé hafður á í sveitarfélaginu hvað varðar opinberar tilkynningar. Svo virðist að ýmsar tilkynningar séu hengdar upp á glugga félagsheimilisins en aðrar komi til íbúanna með dreifibréfi, svo sem varðandi almenna hreppsfundi.

 

             Tilgangur 2. mgr. 50. gr. laganna og 2. mgr. 14. gr. samþykktarinnar er að tryggja að íbúar sveitarfélags viti hvar og hvenær fundir sveitarstjórnar eru haldnir, svo þeir geti fylgst með störfum sveitarstjórnarinnar og hugsanlega nýtt sér rétt sinn til að sitja sveitarstjórnarfundi, sbr. 3. mgr. 48. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

             Í ljósi framangreindra ákvæða telur ráðuneytið ljóst að hreppsnefnd Rípurhrepps hefur ekki auglýst fundi sína að öllu leyti í samræmi við fyrrgreind ákvæði laga og samþykktar og er það ámælisvert.

 

             Jafnframt telur ráðuneytið rétt, í ljósi mismunandi vinnulags við opinberar tilkynningar á vegum sveitarfélagsins, að beina þeim tilmælum til hreppsnefndar Rípurhrepps að hún taki til sérstakrar umræðu vinnulag við auglýsingu hreppsnefndarfunda og sjái til þess að fundirnir verði framvegis auglýstir í samræmi við lagaskyldu og tilgang lagaákvæðisins.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ljósrit:  Hreppsnefnd Rípurhrepps.

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum