Hoppa yfir valmynd
24. mars 1997 Innviðaráðuneytið

Vestur-Landeyjahreppur - Lækkun mótframlags sveitarfélagsins vegna barna úr VL í leikskóla Hvolhrepps

Lögmenn Höfðabakka                                           24. mars 1997                                                    96100071

Jóhannes R. Jóhannsson hdl.                                                                                                             16-8604

Höfðabakka 9

112 Reykjavík

 

 

 

 

 

             Mánudaginn 24. mars 1997 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með erindi, dagsettu 28. janúar 1997, kærði Jóhannes Rúnar Jóhannsson hdl., fyrir hönd Svanborgar E. Óskarsdóttur, Skeggjastöðum, Vestur-Landeyjahreppi, ákvörðun hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps, sem tekin var á hreppsnefndarfundi þann 8. janúar 1997, þar sem staðfest var fyrri ákvörðun hreppsnefndar um lækkun mótframlags til leikskóla Hvolhrepps úr 100% í 50% vegna barna úr Vestur-Landeyjahreppi.

 

             Kæran var send hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps til umsagnar með bréfi, dagsettu 31. janúar 1997. Umsögn barst ráðuneytinu þann 10. febrúar 1997 með ódagsettu bréfi.

 

             Jafnframt bárust ráðuneytinu frekari gögn frá oddvita Vestur-Landeyjahrepps með bréfi, dagsettu 24. febrúar 1997, og frá Svanborgu E. Óskarsdóttur með bréfi, dagsettu 9. mars 1997.

 

             Í kærunni var farið fram á að réttaráhrifum ákvörðunar hreppsnefndarinnar yrði frestað meðan málið væri til úrskurðar hjá ráðuneytinu, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Varð ráðuneytið við þeirri kröfu og var ákvörðun ráðuneytisins tilkynnt hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps með bréfi, dagsettu 31. janúar 1997.

 

I.          Málavextir.

 

             Með bréfi til félagsmálaráðuneytisins, dagsettu 15. október 1996, óskaði Svanborg E. Óskarsdóttir eftir að ráðuneytið rannsakaði “þau vinnubrögð, sem hreppsnefnd Vestur- Landeyjahrepps hefur viðhaft í sambandi við framlag til greiðslu leikskólagjalds.”

 

             Ráðuneytið lauk afgreiðslu þess erindis með bréfi, dagsettu 20. desember 1996. Var í því bréfi fundið að málsmeðferð hreppsnefndar og því beint til hennar að taka málið fyrir á nýjan leik. Hins vegar kom fram í áliti ráðuneytisins að það teldi hreppsnefndinni vera heimilt að lækka umrætt mótframlag.

 

             Hreppsnefndin tók málið fyrir á ný á fundi þann 8. janúar 1997. Í fundargerð er svo bókað um afgreiðslu málsins:

             “Álit félagsmálaráðuneytisins vegna kæru Svanborgar E. Óskarsdóttur. Oddviti fór yfir málið. Niðurstaða ráðuneytisins er að hreppsnefnd taki málið fyrir á nýjan leik. Oddviti lagði til að staðfest verði fyrri samþykkt og taki hún gildi 1. febrúar. Samþykkt með 4 atkvæðum. Einn sat hjá.”

 

             Eins og fyrr segir barst ráðuneytinu síðan kæra vegna afgreiðslu málsins á þessum fundi með bréfi, dagsettu 28. janúar 1997.

 

II.         Málsástæður kæranda.

 

             Bent er á í kærunni að með úrskurði félagsmálaráðuneytisins frá 20. desember 1996 hafi hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps verið gert að taka upp ákvörðun sína um lækkun mótframlags til foreldra vegna dagvistunarkostnaðar. Ákvörðun hreppsnefndarinnar um lækkun mótframlagsins úr 100% í 50% hafi því í raun verið úrskurðuð ógild.

 

             Hreppsnefndarfundur hafi verið haldinn þann 8. janúar sl. þar sem fyrrgreint erindi var tekið fyrir í annað sinn. Oddviti hreppsins hafi þá virt að vettugi ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 um boðun fundarins. Hvorki hafi fundurinn verið kynntur með almennri auglýsingu, svo sem áskilið er í 2. mgr. 50. gr. sveitarstjórnarlaga, né heldur hafi hreppsnefndarmenn verið boðaðir með lögmæltum hætti. Fundarboð hafi borist hreppsnefndarmönnum með minna en sólarhrings fyrirvara en allt sé óljóst um hvernig boðun annarra hafi verið háttað.

 

             Þrátt fyrir að Svanborg E. Óskarsdóttir hafi reynt að fylgjast vel með viðbrögðum hreppsnefndar í kjölfar fyrrnefnds úrskurðar ráðuneytisins, hafi henni ekki borist vitneskja um hreppsnefndarfundinn eða aðrar athafnir hreppsnefndarinnar í málinu, fyrr en henni barst fundarboð í pósti síðdegis þann dag sem hreppsnefndarfundurinn var haldinn. Var henni tilkynnt hin nýja ákvörðun með bréfi, dagsettu 10. janúar 1997.

 

             Tilgreint er að ákvörðun hreppsnefndarinnar frá 8. janúar sl. hafi verulega þungbær fjárhagsleg áhrif fyrir Svanborgu E. Óskarsdóttur, enda þyngist mánaðarleg greiðslubyrði hennar úr um kr. 35.000 í um kr. 60.000 fyrir dagvistun barnanna tveggja. Það varði hana því miklu að réttra málsmeðferðarreglna sé gætt við ákvörðunina, þannig að tryggt sé að öll sjónarmið sem máli kunna að skipta komist að í málinu áður en ákvörðun er tekin.

 

             Félagsmálaráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu í áliti frá 20. desember 1996, að sveitarstjórn sé heimilt að ákveða lækkun á greiðslum vegna vistunar barna úr sveitarfélaginu í leikskóla annars sveitarfélags. Hvað sem því líður þá hljóti a.m.k. að vera ljóst, að sveitarstjórnir hafi ekki sjálfdæmi um hvort þau fylgi skýrum og afdráttarlausum fyrirmælum löggjafans um málsmeðferðarreglur í stjórnsýslu sinni.

 

             Þá er í kærunni vitnað í lög um leikskóla nr. 78/1994. Samkvæmt 7. gr. þeirra laga skuli bygging og rekstur leikskóla vera á kostnað og í umsjón sveitarstjórna og framkvæmd laganna sé í þeirra höndum í hverju sveitarfélagi. Þá sé sveitarstjórnum skylt að hafa forystu um að tryggja börnum dvöl í góðum leikskóla.

 

             Í lögunum séu ekki aðeins fögur fyrirheit um það að hverju skuli stefnt í dagvistarmálum, heldur sé foreldrum leikskólabarna einnig fengin tæki til að hafa áhrif á ákvarðanir sveitarstjórna. Í 9. gr. laganna segi að leikskólanefnd sem kjörin er af sveitarstjórn skuli fara með leikskólamálefni í umboði sveitarstjórnar. Í ákvæðinu segi auk þess beinlínis, að einn fulltrúi starfsfólks og einn fulltrúi foreldra leikskólabarna eigi rétt til setu á fundum leikskólanefndar með málfrelsi og tillögurétt. Með þessu ákvæði komi skýrt fram sá vilji löggjafans að fulltrúar foreldra leikskólabarna skuli hafðir með í ráðum þegar málefnum leikskóla er ráðið til lykta. Í Vestur-Landeyjahreppi hefur leikskólanefnd hins vegar ekki verið komið á fót. Foreldrar leikskólabarna eigi því engan annan vettvang en hreppsnefndarfundi til að hafa áhrif á ákvarðanatöku í dagvistarmálum. Á hreppsnefndarfundum njóti foreldrar leikskólabarna þó hvorki málfrelsis né tillöguréttar. Þannig gæti hreppsnefndin ekki þeirra hagsmuna foreldra og starfsfólks leikskóla sem tryggja á með 9. gr. fyrrgreindra laga.

 

             Kærandi telur að margt sé athugavert við málsmeðferð hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps á máli þessu. Svanborgu E. Óskarsdóttur hafi ekki verið tilkynnt um að mál hennar væri “til úrskurðar” hjá hreppsnefndinni og ekki hafi henni heldur verið tilkynnt um stöðu þess á hverjum tíma. Málið hafi velkst um í meira en hálft ár. Þrátt fyrir að ráðuneytið hafi ógilt fyrri ákvörðun hreppsnefndarinnar hafi hreppsnefndarmenn ekki tekið upp betri vinnubrögð, því Svanborg hafi ekki fengið tilkynningu um að hreppsnefndin hefði ákveðið að taka mál hennar fyrir að nýju fyrr en almennt fundarboð barst henni síðdegis þann 8. janúar sl., þ.e. sama dag og fundurinn var haldinn. Telur kærandi þessa málsmeðferð hreppsnefndarinnar vera brot á 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

             Ennfremur telur kærandi með vísun til framanritaðs að málsmeðferð hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps á máli þessu sé brot á 10. gr. stjórnsýslulaga. Í þeirri grein sé boðið að mál skuli nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er í því tekin. Dæmi um skýrt brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins sé þegar ráðgert er í lögum að álits utanaðkomandi aðila sé leitað, áður en ákvörðun er tekin, en slíkt ekki gert. Ekki sé starfandi leikskólanefnd í sveitarfélaginu eins og lög um leikskóla kveði á um þar sem sitja eiga meðal annarra fulltrúar foreldra leikskólabarna. Þannig hafi ekki verið leitað álits leikskólanefndar áður en ákvörðun hreppsnefndar var tekin.

 

             Í 13. gr. stjórnsýslulaga sé Svanborgu E. Óskarsdóttur sem einstaklingi tryggður andmælaréttur. Þegar metið sé hve ríkur þessi réttur hennar er í máli þessu, verði að taka mið af þeirri staðreynd, að fulltrúar leikskólabarna eiga ekki einungis sértækan andmælarétt í hverju máli heldur einnig almennan og lögvarinn málfrelsis- og tillögurétt samkvæmt leikskólalögum í gegnum leikskólanefndir. Þessi staðreynd geri það að verkum, að þeim mun brýnna er að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga, ekki hvað síst reglunni um andmælarétt, sé fylgt til hins ítrasta af hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps við meðferð einstakra mála er varði þennan málaflokk.

 

             Andmælaréttur Svanborgar E. Óskarsdóttur hafi verið freklega brotinn. Hún hafi aldrei fengið að tjá sig um framkomin gögn í máli hennar, áður en ákvörðun var tekin um lækkun mótframlags, lækkun sem hafi verulega íþyngjandi áhrif á efnahag fjölskyldu hennar. Hún hafi ekki fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við hreppsnefndina áður en hin afdrifaríka ákvörðun var tekin, hvorki fyrir fyrri úrskurð félagsmálaráðuneytisins í málinu, né heldur eftir að hann lá fyrir og áður en seinni stjórnsýsluákvörðun hreppsnefndarinnar var tekin.

 

             Með vísan til framanritaðs telur kærandi að málsmeðferð hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps í máli þessu brjóti í bága við 10. gr. stjórnsýslulaga, að því er varðar vanrækslu hreppsnefndar á að leita allra sjónarmiða er áhrif gátu haft við ákvörðun hennar, og 13. og 14. gr. sömu laga að því er varðar vanrækslu hreppsnefndarinnar á að tilkynna Svanborgu E. Óskarsdóttur um framvindu máls hennar og vanrækslu í sambandi við lögmæltan andmælarétt hennar.

 

             Þá liggi fyrir að boðun þess fundar hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps, þar sem ákvörðun var tekin í máli þessu brjóti í bága við 2. mgr. 50. gr. og 49. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986.

 

             Með vísan til alls framangreinds er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði ógilt.

 

III.        Málsástæður kærða.

 

             Á fundi hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps þann 5. febrúar 1997 var gerð svohljóðandi samþykkt um kæru Svanborgar E. Óskarsdóttur:

             “Hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps fellst ekki á, að fundur hreppsnefndar miðvikudaginn 8. janúar 1997 hafi verið ólögmætur vegna þess að íbúum sveitarfélagsins hafi ekki verið kunnugt með nægjanlegum fyrirvara um fundinn. Hreppsnefnd hefur samþykkt fasta mánaðarlega fundi sína fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði og er öllum íbúum sveitarfélagsins kunnugt um þá samþykkt. Í sveitarstjórnarlögum segir í 50. gr. 2. mgr., að “kunngert skuli íbúum sveitarfélags með auglýsingu hvar og hvenær sveitarstjórn heldur fundi.” Hreppsnefnd hefur kunngert íbúum Vestur-Landeyjahrepps um fastan fundartíma sinn, sem er fyrsti miðvikudagur í hverjum mánuði klukkan 21:00 í Njálsbúð, eins og áður er sagt. Þar að auki er dagskrá hvers hreppsnefndarfundar send að jafnaði með landpósti inn á hvert heimili í hreppnum og á það að vera tryggt að íbúar hafi fengið dagskrána í síðasta lagi sama dag og fastur fundur hreppsnefndar er haldinn. Þessi háttur hefur verið við hafður um nokkurn tíma og telur hreppsnefndin því að hún uppfylli klárlega ákvæði 2. mgr. 50. gr. sveitarstjórnarlaga.”

 

             Í umsagnarbréfinu, sem barst ráðuneytinu þann 10. febrúar 1997, segir ennfremur svo:

             “Varðandi skipan leikskólanefndar, sbr. lög 78/1994, vill hreppsnefnd taka fram að hún nýtir sér ákvæði 2. mgr. 58. gr. sveitarstjórnarlaga og fer sjálf með verkefni leikskólanefndar.

             Að því er varðar tilvitnanir í kæru Svanborgar Óskarsdóttur til Félagsmálaráðuneytisins dags. 28. jan. s.l. í stjórnsýslulög, vill hreppsnefnd taka fram eftirfarandi:

             Hreppsnefnd var og er kunnugt um öll atvik og aðdraganda málsins þ.e. leikskólavist barna Svanborgar og á því 10. gr. stjórnsýslulaga hér eigi við.

             Miðað við aðdraganda málsins og fyrri kæru Svanborgar til Félagsmálaráðuneytisins taldi hreppsnefnd ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga ekki koma til álita enda slíkt augljóslega óþarft.

             Svanborgu var fullkomlega kunnugt um meðferð málsins hjá hreppsnefnd enda mætti hún á öllum fundum hreppsnefndar þar sem mál hennar var tekið fyrir.”

 

IV.       Niðurstaða ráðuneytisins.

 

Um leikskólanefnd.

 

             Í 9. gr. laga um leikskóla er svohljóðandi ákvæði:

             “Leikskólanefnd, kjörin af sveitarstjórn, fer með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórnar. Einn fulltrúi starfsfólks leikskóla og einn fulltrúi foreldra leikskólabarna eiga rétt til setu á fundum leikskólanefndar með málfrelsi og tillögurétti. Heimilt er sveitarstjórn að sameina nefndir þannig að ein nefnd fari með verkefni á fleiri en einu sviði, sbr. 58. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Þar sem sveitarfélög hafa sameinast um rekstur leikskóla skulu þau öll eiga fulltrúa í þeirri nefnd sem fer með málefni leikskóla.”

 

             Í 2. mgr. 58. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 segir síðan:

             “Í sveitarfélögum þar sem íbúar eru færri en 500 er sveitarstjórn heimilt að fara sjálf með verkefni lögskipaðrar nefndar nema verkefni nefndarinnar sé ósamrýmanlegt störfum sveitarstjórnar að mati ráðuneytisins.”

 

             Meginástæðan fyrir setningu þessa ákvæðis er að í fámennustu sveitarfélögunum er oft erfitt að manna allar þær nefndir sem mælt er fyrir um í sérlögum að sveitarstjórnir skuli kjósa.

 

             Þann 1. desember 1996 voru íbúar í Vestur-Landeyjahreppi 159 samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands. Með vísan til þess og framangreinds ákvæðis 2. mgr. 58. gr. sveitarstjórnarlaga telur ráðuneytið að hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps hafi ekki brotið ákvæði laga með því að kjósa ekki sérstaka leikskólanefnd. Hreppsnefndinni er heimilt að fara með verkefni leikskólanefndar, enda er það mat ráðuneytisins að þau störf séu ekki ósamrýmanleg störfum hreppsnefndarinnar.

 

Um boðun hreppsnefndarfunda og auglýsingu þeirra.

 

             Í sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986 og í fyrirmynd að samþykkt um stjórn og fundarsköp N.N.hrepps, sbr. auglýsingu nr. 106/1987, er að finna misjafnlega ítarleg ákvæði annars vegar um fundarboðun til hreppsnefndarmanna um hreppsnefndarfund og hins vegar um auglýsingar á hreppsnefndarfundum sem ætlaðar eru hinum almennu borgurum.

 

             Í 1. og 3. mgr. 50. gr. sveitarstjórnarlaga segir svo:

             “Oddviti sveitarstjórnar, borgarstjóri, bæjarstjóri eða sveitarstjóri boðar sveitarstjórnarfundi á þann hátt sem sveitarstjórn ákveður. Hann ákveður og fundarstað og fundartíma hafi sveitarstjórn eigi gert það. ...

             Greina skal dagskrá í fundarboði.”

 

             Um fundarboðun eru ákvæði í samþykkt um stjórn og fundarsköp N.N.hrepps, sbr. auglýsingu nr. 106/1987, en hún gildir fyrir Vestur-Landeyjahrepp, sbr. 49. gr. sveitarstjórnarlaga, þar sem hreppsnefndin hefur ekki sett sérstaka samþykkt fyrir sveitarfélagið. Í samþykktinni eru tvenns konar ákvæði, annars vegar varðandi reglulega fundi hreppsnefndar í 16. gr. og hins vegar varðandi aukafundi hreppsnefndar í 17. gr.

 

             Samkvæmt 16. gr. samþykktarinnar skal oddviti “í síðasta lagi tveimur sólarhringum fyrir hreppsnefndarfund hafa boðað hreppsnefndarmenn símleiðis á hreppsnefndarfund og kynnt þeim í meginatriðum dagskrá fundarins.” Um aukafundi segir í 17. gr. samþykktarinnar að oddviti skuli “boða hreppsnefndarmenn símleiðis til aukafundar í hreppsnefnd a.m.k. sólarhring fyrir fund.”

 

             Í framangreindum ákvæðum er því einungis að finna skýr ákvæði um hvenær í síðasta lagi skuli boða fundi. Jafnframt er gert ráð fyrir að fundirnir séu boðaðir símleiðis.

 

             Samkvæmt gögnum málsins hefur hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps ákveðið fasta fundartíma á yfirstandandi kjörtímabili, þ.e. fyrsta virka miðvikudag hvers mánaðar kl. 21.00 í Njálsbúð. Jafnframt hefur það vinnulag tíðkast að dagskrá reglulegra funda ásamt fylgigögnum er send hreppsnefndarmönnum fyrir hvern fund. Er það vinnulag til þess fallið að stuðla að vandaðri vinnubrögðum hreppsnefndar.

 

             Hins vegar kemur fram m.a. í staðfestingu eins hreppsnefndarmanna að ekki hefur þess ætíð verið gætt að hreppsnefndarmönnum berist dagskrá ásamt fundargögnum í síðasta lagi tveimur sólarhringum fyrir fund. Ber sá hreppsnefndarmaður m.a. að oddviti hafi afhent honum dagskrá ásamt fundargögnum vegna hreppsnefndarfundar þann 8. janúar sl. daginn áður, þ.e. 7. janúar “um kl. 18:00 til 19:00.”

 

             Um auglýsingar á hreppsnefndarfundum er að finna ákvæði í 2. mgr. 50. gr. sveitarstjórnarlaga og 2. mgr. 14. gr. fyrrgreindrar samþykktar. Í 2. mgr. 50. gr. laganna segir að kunngera skuli “íbúum sveitarfélags með auglýsingu hvar og hvenær sveitarstjórn heldur fundi.” Samskonar ákvæði er í 2. mgr. 14. gr. samþykktarinnar.

 

             Af gögnum málsins verður ráðið að hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps hafi kynnt íbúum sveitarfélagsins ákvörðun sína um hina föstu fundartíma og jafnframt sé íbúum póstsend dagskrá hreppsnefndarfundanna þannig að hún berist þeim í síðasta lagi sama dag og reglulegur fundur er haldinn.

 

             Ráðuneytið telur að sveitarstjórnarfundi beri að auglýsa með hæfilegum fyrirvara. Við mat á því hvað telst hæfilegur fyrirvari er litið til þess hvort hreppsnefnd hefur ákveðið fasta fundardaga eða hvort hreppsnefnd ákveður slíkt frá einum fundi til annars. Gera verður því ráð fyrir styttri fyrirvara ef ákveðnir dagar eru fyrir hendi, en lengri tíma ef ekki er vitað um fundartíma fyrirfram af hálfu hreppsbúa. Hvað varðar Vestur-Landeyjahrepp telur ráðuneytið það eðlilega vinnureglu af hálfu oddvita og í samræmi við tilgang framangreindra ákvæða, að auglýsing um hreppsnefndarfundi eða dagskrá sé send út samhliða boðun til hreppsnefndarmanna, en samkvæmt áðurgreindu ber oddvita að boða hreppsnefndarfundi hreppsnefndarmönnum með dagskrá í síðasta lagi tveimur sólarhringum fyrir fund.

 

             Ljóst er að framangreindum ákvæðum annars vegar um boðun hreppsnefndarmanna og hins vegar auglýsingar gagnvart hinum almenna borgara hefur ekki verið fylgt að öllu leyti af oddvita og hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps. Vekja ber þó sérstaka athygli á að af gögnum málsins verður ráðið að hreppsnefndarmenn hafa ekki gert athugasemdir við þennan hátt á boðun funda með bókun í fundargerð. Þeir hafa því treyst sér til að fjalla um mál og taka ákvarðanir á hreppsnefndarfundum þó þessi háttur á fundarboðun hafi verið viðhafður. Með hliðsjón af því telur ráðuneytið þessa ágalla ekki vera til þess fallna að leiða til ógildis hreppsnefndarfundanna. Hins vegar telur ráðuneytið þessi vinnubrögð aðfinnsluverð og mun skora á hreppsnefnd og oddvita Vestur-Landeyjahrepps að bæta úr fyrrgreindum ágöllum.

 

Um meðferð máls Svanborgar E. Óskarsdóttur.

 

             Hvað varðar hinn langa afgreiðslutíma máls þessa hjá hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps á síðast liðnu ári þá hefur þegar verið fjallað um þann þátt málsins í áliti ráðuneytisins frá 20. desember 1996.

 

             Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986 hafa einungis hreppsnefndarmenn málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt á fundum hreppsnefndar, sbr. 41. gr., svo og sveitarstjóri, sbr. 71. gr. Hreppsnefndarfundir eru að jafnaði haldnir fyrir opnum dyrum, sbr. 3. mgr. 48. gr. laganna, en það leiðir þó ekki af sér að áheyrendur hafi sjálfkrafa málfrelsi eða tillögurétt. Hins vegar segir í 3. mgr. 25. gr. áðurgreindrar fyrirmyndar að samþykkt um stjórn og fundarsköp N.N.hrepps að hreppsnefnd geti heimilað að maður utan hreppsnefndar kveðji sér hljóðs á hreppsnefndarfundi. Það er því í valdi hreppsnefndar hverju sinni að heimila slíkt.

 

             Vegna ákvæðis 2. mgr. 58. gr. sveitarstjórnarlaga verður að telja að efnisákvæði um starfsemi sveitarstjórna gangi framar efnisákvæðum um starfsemi leikskólanefnda. Þar af leiðandi er niðurstaða ráðuneytisins sú að þó hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps fari með verkefni leikskólanefndar verður ekki talið að henni sé skylt að boða fulltrúa foreldra og starfsmenn leikskóla almennt á hreppsnefndarfund með málfrelsi og tillögurétti þegar hreppsnefndin fjallar um leikskólamál.

 

             Ljóst er að í máli þessu er um íþyngjandi stjórnsýsluákvörðun að ræða. Því verður að gera ríkari kröfur um að málið sé rannsakað og viðkomandi aðilum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

 

             Ennfremur er ljóst af gögnum málsins að oddviti eða hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps tilkynntu ekki Svanborgu E. Óskarsdóttur sérstaklega að málið yrði tekið fyrir á nýjan leik í hreppsnefnd þann 8. janúar 1997 í framhaldi af áliti ráðuneytisins frá 20. desember 1996. Rétt er að taka fram að ráðuneytið telur að mál þetta hafi verið íþyngjandi fyrir Svanborgu umfram aðra íbúa sveitarfélagsins.

 

             Eins og áður segir er hreppsnefnd ekki skylt að kjósa leikskólanefnd og því var 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki brotin með því að hreppsnefnd leitaði ekki álits slíkrar nefndar áður en ákvörðun var tekin. Eins og atvikum er háttað í þessu máli verður hins vegar að telja að hreppsnefnd hafi borið að tilkynna Svanborgu E. Óskarsdóttur um hvenær málið yrði tekið fyrir í hreppsnefnd á ný og jafnframt gefa henni kost á að tjá sig um framkomin gögn og/eða koma á framfæri sjónarmiðum sínum að öðru leyti. Ekki er fallist á að augljóslega óþarft hafi verið að leita eftir þeim rökum. Hreppsnefnd og oddviti Vestur-Landeyjahrepps hafa þannig ekki fylgt fyrirmælum 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins.

 

             Með vísan til þess telur ráðuneytið slíka annmarka vera á málsmeðferð hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps að ógilda beri ákvörðunina. Hreppsnefndinni ber því að taka málið fyrir á nýjan leik og bæta úr framangreindum ágöllum.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Ákvörðun hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps frá 8. janúar 1997 um staðfestingu á fyrri ákvörðun hreppsnefndar um lækkun mótframlags til leikskóla Hvolhrepps vegna barna úr Vestur-Landeyjahrepps er ógild.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ljósrit:  Hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum