Hoppa yfir valmynd
14. ágúst 1998 Innviðaráðuneytið

Húnaþing vestra - Gildi samþykktar hreppsnefndar Fremri-Torfustaðahrepps rétt fyrir sameiningu

Sameinað sveitarfélag Fremri-                                              14. ágúst 1998                                   98070058

Torfustaðahrepps, Hvammstangahrepps,                                                                                        16-5508

Kirkjuhvammshrepps, Staðarhrepps,

Ytri-Torfustaðahrepps, Þorkelshólshrepps

og Þverárhrepps

Brynjólfur Gíslason sveitarstjóri

Klapparstíg 4

530 Hvammstanga

 

 

 

 

 

             Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 20. júlí 1998, þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins á gildi samþykktar hreppsnefndar Fremri-Torfustaðahrepps þann 6. júní sl. varðandi sölu jarða til óstofnaðs einkahlutafélags. Einnig er óskað eftir áliti ráðuneytisins á verðlagningu jarðanna.

 

             Á fundi hreppsnefndar Fremri-Torfustaðahrepps þann 6. júní 1998 var gerð svohljóðandi samþykkt:

             “Hreppsnefnd Fremri Torfustaðahrepps samþykktir að selja eyðijarðirnar Þverá í Núpsdal, Fosskot og Lækjabæ, væntanlegu einkahlutafélagi í eigu íbúa í Fremri Torfustaðahreppi, í samræmi við bókun frá 05.06.1998. Kaupverð samkvæmt fasteignamati. ... Einkahlutafélagið yfirtaki áhvílandi veðskuldir. Mismunur kaupverð og áhvílandi veðskulda greiðist með þremur jöfnum greiðslur á fjögurra mánaða fresti, fyrsta greiðsla við undirritun kaupsamnings.“

 

             Með erindinu fylgdi einnig álitsgerð frá löggiltum fasteignasala þar sem fram kemur að hann telji að söluverð jarðanna geti verið mun hærra en fasteignamatsverð.

 

             Í máli þessu mun ráðuneytið fyrst og fremst fjalla um formhlið málsins, þ.e. hvort hreppsnefnd Fremri-Torfustaðahrepps hafi haft umboð til að taka ákvörðun um málið á fundi sínum þann 6. júní 1998.

 

             Þann 7. júní 1998 tók gildi sameining Fremri-Torfustaðahrepps, Hvammstangahrepps, Kirkjuhvammshrepps, Staðarhrepps, Ytri-Torfustaðahrepps, Þorkelshólshrepps og Þverárhrepps, sbr. auglýsingu frá félagsmálaráðuneytinu nr. 215/1998. Í þeirri auglýsingu kemur að að kjósa skyldi til sveitarstjórnar hins nýja sveitarfélags þann 23. maí 1998.

 

             Hreppsnefnd Fremri-Torfustaðahrepps var kjörin þann 28. maí 1994, sbr. III. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Var kjörtímabil hennar fjögur ár, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna.

 

             Sameining framangreindra sjö sveitarfélaga var ákveðin á grundvelli 108. gr. sveitarstjórnarlaga. Í þeirri grein er ekki að finna takmörkun á valdsviði fráfarandi sveitarstjórna eftir að sameining hefur verið ákveðin og þar til hún hefur tekið gildi. Slíka takmörkun er heldur ekki að finna í áðurgreindri auglýsingu nr. 215/1998.

 

             Í 6. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 er svohljóðandi ákvæði:

             “Fulltrúi í sveitarstjórn getur krafist frestunar á framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar sem teknar eru frá kjördegi og þar til nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum og skal þá leggja mál að nýju fyrir hana á fyrsta fundi hennar. Nú er mál þannig vaxið að framkvæmd ákvörðunar þolir enga bið og verður þessa úrræðis þá ekki neytt, enda sé heimild til afgreiðslu málsins í fjárhagsáætlun, lögum, almennum fyrirmælum stjórnvalda eða með leyfi ráðuneytisins.“

 

             Samkvæmt fundargerð frá fundi hreppsnefndar Fremri-Torfustaðahrepps þann 6. júní 1998 fór enginn fundarmanna fram á að málinu yrði frestað, sem þó var heimilt samkvæmt 1. málsl. 6. mgr. 37. gr. laganna, og var málið afgreitt einróma í hreppsnefndinni.

 

             Samkvæmt auglýsingu nr. 215/1998 tók sameining fyrrgreindra sveitarfélaga gildi þann 7. júní 1998 og héldu fráfarandi sveitarstjórnir umboði sínu fram til þess dags, en þá tók við sveitarstjórn sú sem kjörin var fyrir hið nýja sveitarfélag þann 23. maí 1998.

 

             Með vísan til þess er það niðurstaða ráðuneytisins að hreppsnefnd Fremri-Torfustaðahrepps hafi haft umboð til að taka ákvörðun um sölu þriggja eyðijarða á fundi sínum þann 6. júní 1998.

 

             Hvað varðar efnisþátt ákvörðunarinnar er rétt að taka fram ráðuneytið hefur ekki úrskurðarvald um hvort bindandi kaupsamningur verði talinn hafa verið kominn á með samþykkt hreppsnefndar Fremri-Torfustaðahrepps frá 6. júní 1998. Eru það dómstólar sem hafa úrskurðarvald um slíkt, en til fróðleiks er rétt að benda á eftirfarandi kafla í bókinni Samningaréttur eftir Pál Sigurðsson, en þar segir svo á bls. 87 um hvenær saminngur teljist vera kominn á:

             “Oft er óljóst, hvort samingur telst hafa komist á eða ekki, sbr. að nokkru það, sem fyrr hefur verið sagt um mismunandi skýran tjáningarhátt við löggerningsgerð almennt. Sérstaklega skal tekið fram, að oft myndi það, að samkomulag hefur ekki tekist um mikilvæga samningsþætti, svo sem upphæð kaupverðs eða þ.u.l., benda til þess, að samningur um málsefni í heild sé ekki kominn á. Hafi hins vegar náðst samkomulag um meginatriði, svo sem kaupverðið, kann að mega líta svo á, að samningur um tiltekin viðskipti hafi stofnast, enda þótt nánari ákvörðun um smærri samningsatriði hafi verið frestað til síðara samkomulags. Einkum myndi þetta eiga við, þegar veruleg verðmæti eru í húfi, svo sem er um fasteignaviðskipti. Það að aðiljar hafa enn ekki undirritað skriflegan samning, kann oft að benda til þess að þeir telji sig ekki vera bundna fyrr en svo hefur verið gert, en niðurstaðan getur þó orðið sú, eftir atvikum, að samningsumleitanir hafi í raun leitt til bindandi samkomulags, þótt eftir væri að fullnægja þessu formskilyrði.“

 

             Það sama má segja um kaupverðið, ráðuneytið hefur ekki neitt úrskurðarvald um þann hluta erindis yðar heldur dómstólar.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum