Hoppa yfir valmynd
28. október 1998 Innviðaráðuneytið

Vestur-Landeyjahreppur - Seta varamanns á hreppsnefndarfundi þegar allir aðalmenn eru mættir

Haraldur Júlíusson                                                28. október 1998                                               98080028

Akurey, Vestur-Landeyjahreppi                                                                                                               1001

861 Hvolsvöllur

 

 

 

 

 

             Vísað er til erindis yðar og Rúnars Guðjónssonar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 12. ágúst 1998, varðandi setu Vilborgar A. Jónsdóttur varamanns á fundi hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps sem haldinn var 6. ágúst 1998.

 

             Erindið var sent til umsagnar hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps með bréfi, dagsettu 14. ágúst 1998. Umsögn barst frá oddvita með bréfi, dagsettu 17. ágúst 1998 og síðan frá hreppsnefndinni með bréfi, dagsettu 18. september 1998. Auk þess barst bréf frá einum hreppsnefndarmanna með bókun minnihluta hreppsnefndar frá 16. september 1998, sbr. bréf frá 17. september 1998.

 

Málavextir og málsástæður.

 

             Í erindi yðar kemur fram að allir fimm aðalmenn í hreppsnefnd hafi verið mættir í upphafi fundarins auk áheyrenda. Auk aðalmanna hafi 1. varamaður K listans Vilborg A. Jónsdóttir tekið sæti á fundinum sem 6. maður í hreppsnefnd. Oddviti hafi gefið þá skýringu að Vilborg hafi verið boðuð á fundinn samkvæmt samþykkt hreppsnefndar frá fyrra kjörtímabili sem fyrsti varamaður í hreppsnefnd með málfrelsi og tilllögurétt. Hafi Vilborg tekið virkan þátt í störfum fundarins. Fulltrúar F listans mótmæltu setu Vilborgar harðlega, en mótmæli þeirra voru ekki tekin til greina af fulltrúum meirihlutans. Einnig hafi minnihlutanum meinað að taka inn varamann á fundinn til samræmis við meirihlutann, þótt varamenn væru mættir meðal áheyrenda. Er því haldið fram að seta Vilborgar A. Jónsdóttur á hreppsnefndarfundinum sé ógild og að bókanir hennar á fundinum skuli afmá úr fundargerð fundarins.

 

             Í umsögn oddvita frá 17. ágúst 1998 kemur meðal annars eftirfarandi fram:

             “Hreppsnefnd Vestu Landeyjahrepps setti sér eftirfarandi reglur á síðasta kjörtímabili.

             a) Mánaðarlegur fundur fyrsta miðvikudag í mánuði kl. 21.00

             b) Fyrsti varamaður með seturétt, málfrelsi og tillögurétti.

             c) Að loknum hverjum fundi væri áheyrendum heimilt að bera fram spurningar til hreppsnefndarmanna.

             Við þessar reglur hefur verið stuðst.

             Oft hefur varamaður ekki verið á fundum, og stundum aðeins á hluta þeirra. ...

             Í ljósi framkvæmda á þessum reglum verður þeim að sjálfsögðu breytt á fundi í september.

             ... Seta varamanna verður afnumin, enda breyttar forsendur. ...“

 

             Með bréfi, dagsettu 18. september 1998 barst síðan eftirfarandi bókun meirihluta hreppsnefndarinnar um málið:

             “Vísað er til bréfs oddvita til ráðuneytisins dagsett 17/8 1998.

             Til viðbótar þetta.

             Vakin er athygli ráðuneytisins á eftirfarandi orðum sem bókuð eru í fundargerð 6. ágúst.

             “Hjörtur Hjartarson tók til máls og mótmælti því að Vilborg Jónsdóttir sæti fundinn sem varamaður, það væri Jóhann Nikulásson sem væri 6. maður samkvæmt síðustu kosningum.“

             Eftirfarandi orð verða felld niður úr fundargerð, hreppsnefndarfundar 6. ágúst.

             “Vilborg Jónsdóttir fyrsti varamaður óskar bókunar að hún teldi að þessi skrípaleikur hefði ekkert upp á sig og reikningarnir hefðu ekkert breyst.“

             Felldar eru niður eftirfarandi reglur frá síðasta kjörtímabili.

             b) Fyrsti varamaður með seturétt, málfrelsi og tillögurétti.

             c) Að loknum hverjum fundi væri áheyrendum heimilt að bera fram spurningar til hreppsnefndarmanna.“

 

             Á sama fundi hreppsnefndar kom fram eftirfarandi bókun frá minnihluta hreppsnefndar:

             “Á hreppsnefndarfundi þann 6. ágúst s.l. voru allir aðalmenn boðaðir ásamt Vilborgu A. Jónsdóttur. Í upphafi fundar tók Vilborg sæti á fundinum og oddviti vísaði í samþykkt frá fyrri hreppsnefnd um að fyrsti varamaður sæti fundi. Við undirrituð kröfðumst þess að Vilborg sæti ekki fundinn og þar sem nú hafði hreppsnefnd verið kosin með listakosningu gat þetta ekki gengið. Við bentum á að ef oddviti vildi halda fast við ákvörðun fyrri hreppsnefndar þá ætti að kalla til 6. mann en ekki Vilborgu sem er 7. í röðinni. Oddviti úrskurðaði Vilborgu fyrsta varamann hreppsnefndar þrátt fyrir mótmæli okkar á þessari lögleysu og tók hún sæti í hreppsnefnd til viðbótar öllum fimm aðalmönnum sem voru mættir.

             Það er okkar skoðun að þessi vinnubrögð meirihluta hreppsnefndar séu óásættanleg og flokkast undir valdníðslu sem ekki á að viðgangast og hlýtur að vera litið alvarlegum augum af stjórnvaldi sem er æðra en því sem ákvörðunina tók.“

 

Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Í 1. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er svohljóðandi ákvæði:

             “Varamenn taka sæti í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir eru kosnir þegar aðalfulltrúar þess lista sem þeir eru kosnir af falla frá, flytjast burtu eða forfallast varanlega á annan hátt eða um stundarsakir frá því að sitja í sveitarstjórn.“

 

             Ákvæði þetta er skýrt um hvenær varamenn hafa heimild til að taka sæti á sveitarstjórnarfundi, þ.e. einungis þegar aðalmaður hefur forfallast. Ljóst er því að ekki voru uppfyllt skilyrði laganna til þess að Vilborg A. Jónsdóttir, varamaður í hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps, sæti fund hreppsnefndarinnar hinn 6. ágúst 1998 og tæki þátt í störfum hreppsnefndarinnar, þar sem allir aðalmenn voru mættir. “Reglur“ þær sem hreppsnefndin setti og tilgreindar eru í gögnum málsins um þátttöku varamanna á fundum fá því ekki staðist sveitarstjórnarlögin og eru að mati ráðuneytisins aðfinnsluverðar.

 

             Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að hreppsnefndin hafi þegar orðið við kröfu um að afmá úr fundargerð framangreinds fundar það sem varðaði þátttöku Vilborgar A. Jónsdóttur í umræðum, auk þess sem felldar hafa verið niður fyrrgreindar “reglur“ um þátttöku varamanna í fundum. Er þar af leiðandi ekki tilefni til frekari fyrirmæla af hálfu ráðuneytisins til hreppsnefndarinnar hvað varðar mál þetta.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Samrit:  Rúnar Guðjónsson.

Afrit:  Hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum