Hoppa yfir valmynd
5. maí 1999 Innviðaráðuneytið

Raufarhafnarhreppur - Boðun aukafundar í hreppsnefnd. Einn hreppsnefndarmanna ekki boðaður

Bergur Guðmundsson                                     5. maí 1999                                                                                   99040027

Víkurbraut 20                                                                                                                                                                  1001

675 Raufarhöfn

 

 

 

 

          Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 13. mars (sic.) 1999, sem barst þann 15. apríl sl. Í erindinu er óskað eftir áliti ráðuneytisins á boðun fundar í hreppsnefnd Raufarhafnarhrepps sem fram fór hinn 24. (sic.) mars sl.  Erindið var sent til umsagnar sveitarstjóra Raufarhafnarhrepps með bréfi, dagsettu 15. apríl sl.  Umsögn barst ráðuneytinu með bréfi, dagsettu 19. apríl sl.  Hér á eftir fer álit ráðuneytisins:

 

Málavextir og málsástæður.

 

          Í erindinu er rakið að á fundinum hafi verið til umfjöllunar mál sem sveitarstjóri taldi að hreppsnefndarmaðurinn Bergur Guðmundsson hafi verið vanhæfur til að fjalla um.  Því hafi hann ekki verið boðaður á fundinn og ekki barst honum vitneskja um hann fyrirfram.  Vísað er til 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 um málsmeðferð þegar um vanhæfi sveitarstjórnarmanns er að ræða og sérstaklega er vitnað til þess að sveitarstjórnarmaður eigi rétt á að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni áður en hann yfirgefur fund.  Einnig telur hreppsnefndarmaðurinn að ekki sé heimilt að leyna fundum fyrir hreppsnefndarmönnum jafnvel þótt þeir séu sýnilega vanhæfir.  Sama gildi um gögn viðkomandi máls.

 

          Í umsögn sveitarstjóra Raufarhafnarhrepps kemur fram að umræddur fundur hafi verið aukafundur í hreppsnefnd og að á honum hafi einungis eitt mál verið á dagskrá, sem varðaði sérstaklega móður Bergs Guðmundssonar.  Í umsögninni segir síðan m.a. svo orðrétt:  "Ég tilkynnti Hafþóri Sigurðssyni, efsta manni á R listanum, um leið og ég bar út fundarboð fyrir fundinn þann 23. mars, að ég hefði ekki boðað Berg Guðmundsson á fundinn, annan mann á R listanum, þar sem vanhæfi hans væri augljóst í umfjöllun um málið. Við það var ekki gerð athugasemd. ... Að sögn Hafþórs skýrði hann Bergi síðan frá fundinum áður en hann var haldinn ... fyrsti fundur um fyrrgreint mál er haldinn 23. mars sl."

          Vitnað er til orðalags 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og síðan segir svo:

          "Það var með hliðsjón af fyrrgreindum texta sem Bergur Guðmundsson var ekki boðaður til fundarins svo og vegna þess að umrætt mál var eina mál fundarins.  Einnig var tekið mið af því að hann býr á Akureyri en ekki á Raufarhöfn.  Þess ber einnig að geta að hér var ekki um reglulegan fund sveitarstjórnar að ræða heldur fund sem boðað var til í skyndi vegna sérstaks mál sem barst til sveitarstjórnar.

          Fundinum var ekki leynt fyrir Bergi né hefur gögnum málsins verið haldið frá honum öðrum frekar.  Hann hefur hins vegar ekki óskað eftir upplýsingum um það sem gerst hefur í umræðu um fyrrgreint mál.

          Á sveitarstjórnarfundi þann 23. mars kom fram sú skoðun, eins og kemur fram í fundargerð, að eðlilegt hefði verið að Bergur hefði verið boðaður formlega til fundarins og hann síðan vikið af honum.  Í umræðum á fundinum var lagt til af undirrituðum að ef að sveitarstjórn efaðist um lögmæti fundarins sökum boðunar hans, þá yrði hann afboðaður strax og fundurinn síðan boðaður á nýjan leik.  Samhljóða sveitarstjórn taldi enga ástæðu til þess.  Um þessa umræðu var ekki bókað í fundargerð.  Sveitarstjórn var sammála því að Bergur væri vanhæfur til umfjöllunar um málið sökum tengsla við málsaðila, en ekki var bókað um það sérstaklega.

          Bergur Guðmundsson býr á Akureyri í 240 km fjarlægð frá Raufarhöfn og stundar nám þar.  Sl. sumar stundaði hann sjó fjarri heimabyggð, meðal annars frá Vestfjörðum. Sú staða hefur því komið upp oftar en einu sinni frá síðustu kosningum að ekki hafi náðst í hann þegar kalla hefur þurft sveitarstjórn saman með skömmum fyrirvara og hann því ekki verið boðaður til fundar.  Við það hefur ekki verið gerð athugasemd af hans hálfu eða

annarra. ...

          Á fundi sveitarstjórnar þann 23. mars var fyrrgreint mál eina mál fundarins og svo hefur verið á öllum þeim fundum sem þetta mál hefur verið til umfjöllunar, þannig að önnur mál hafa ekki verið tekin fyrir því samhliða enda boðun fundar oft með skömmum fyrirvara.

          ... Í þessu máli hefur verið reynt að halda því innan eins þröngs hóps og mögulegt hefur verið þar til endanleg ákvörðun liggur fyrir.  Því hafa fundargerðir sveitarstjórnar sem fjalla um þetta einstaka mál ekki verið fjölfaldaðar og sendar út, heldur einungis lesnar upp í lok hvers fundar og þannig samþykktar."

 

          Að lokum er eftirfarandi spurning m.a. borin fram í bréfi sveitarstjórans:  "Ef fyrirkomulag fundar þann 23. mars telst ámælisvert, getur það haft í för með sér að taka verði málið upp aftur frá þeim fundi, til að endanleg ákvörðun sveitarstjórnar í málinu teljist ekki ólögmæt?"

 

Niðurstaða ráðuneytisins.

 

          Hreppsnefnd Raufarhafnarhrepps hefur ekki sett sér sérstaka samþykkt um stjórn og fundarsköp og því gildir um þau atriði fyrirmynd að samþykkt sem félagsmálaráðneytið hefur sett, sbr. auglýsingu nr. 527/1998, sbr. einnig 25. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Af ákvæðum II. kafla þeirrar fyrirmyndar svo og ákvæðum II. kafla sveitarstjórnarlaga er ljóst að boða ber alla aðalmenn í sveitarstjórn til fundar, enda er þeim skylt að sækja alla sveitarstjórnarfundi nema lögmæt forföll hamli, sbr. 27. gr. sveitastjórnarlaga. Sveitarstjórnarmanni er síðan skv. 2. mgr. 22. gr. fyrirmyndarinnar ætlað að tilkynna um forföll til framkvæmdastjóra sveitarfélagsins sem boðar þá varamann hans á fund.

 

          Um vanhæfi sveitarstjórnarmanns segir svo í 5. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga:

          "Sveitarstjórnarmanni sem veit hæfir sitt orka tvímælis ber að vekja athygli á því. Sveitarstjórnarmanni er heimilt við meðferð máls sem hann er vanhæfur að afgreiða að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni. Sveitarstjórn sker umræðulaust úr um hvort mál er svo vaxið að einhver sveitarstjórnarmanna sé vanhæfur. Sveitarstjórnarmaður sem hlut á að máli má taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt."

 

          Í ákvæði þessu er því gert ráð fyrir tiltekinni málsmeðferð varðandi vanhæfi sveitarstjórnarmanns og hefur hann í þeim tilvikum tiltekin réttindi.  Þau réttindi verða ekki af honum tekin, en hann getur hins vegar afsalað sér þeim, t.d. með því að greina fyrirfram frá því að hann muni ekki sækja fund þar sem hann sé vanhæfur til að fjalla um það sem þar á að fara fram.

          Ljóst er því að ekki var að öllu leyti fylgt framangreindum ákvæðum við boðun fundar í hreppsnefnd Raufarhafnarhrepps sem haldinn var 23. mars 1999 þegar sveitarstjóri ákvað að boða Berg Guðmundsson ekki til fundarins.  Verður að telja þau vinnubrögð aðfinnsluverð.

 

          Á fyrrgreindum hreppsnefndarfundi var aðeins eitt mál á dagskrá og er ljóst að Bergur Guðmundsson var vanhæfur til að fjalla um það mál þar sem það varðaði sérstaklega móður hans.  Á fundinum var málið kynnt fyrir viðstöddum sveitarstjórnarmönnum og það rætt ítarlega.  Síðan var eftirfarandi bókað í fundargerð:  "Fram kom að sveitarstjórn taldi rétt að óska eftir fundi með forstöðumanni Félagsþjónustu Þingeyinga um málefni fundarins.  Ekki teknar frekari ákvarðanir."

 

          Með hliðsjón af því að á fundinum var ekki tekin önnur ákvörðun en sú að kanna málið frekar telur ráðuneytið að fyrrgreindur ágalli á boðun fundarins leiði ekki til ógildingar hans.

 

          Að lokum telur ráðuneytið rétt að taka fram að þrátt fyrir að Bergur Guðmundsson hafi verið vanhæfur til að fjalla um málið í hreppsnefnd á hann óskoraðan rétt samkvæmt 30. gr. sveitarstjórnarlaga á að kynna sér gögn málsins og fá upplýsingar um það á skrifstofu sveitarfélagsins.  Ráðuneytið telur þó ekki að sýnt hafi verið fram á í gögnum máls þessa að sá réttur hafi ekki verið virtur.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

 

Afrit:  Raufarhafnarhreppur.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum