Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2000 Innviðaráðuneytið

Vatnsleysustrandarhreppur - Umboð til að afgreiða mál ef dregist hefur að kjósa oddvita

Vatnsleysustrandarhreppur                                                 21. janúar 2000                                                              FEL00000016

Jóhanna Reynisdóttir, sveitarstjóri                                                                                                                                             1001

Iðndal 2

190 Vogar

 

 

 

        Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 28. desember 1999, þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins á því hvort hreppsnefnd hafi haft gilt umboð til afgreiðslu mála frá júní 1999 til 7. desember 1999.

 

        Samkvæmt erindinu eru málsatvik þau að vegna mistaka var oddviti ekki kjörinn í júní 1999 heldur á fundi hreppsnefndar hinn 7. desember.  Á þeim fundi hafi minnihluti hreppsnefndar bókað um vanrækslu meirihlutans og jafnframt efast um gildi ákvarðana hreppsnefndar og embættisverka oddvita og varaoddvita á þessu tímabili.

 

        Á grundvelli 1. og 2. mgr. 14. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 skal kjósa oddvita sveitarstjórnar á fundi sveitarstjórnar í júní ár hvert.  Kjörtímabilið er því eitt ár og telur ráðuneytið það aðfinnsluverð vinnubrögð að draga kosninguna fram í desember.

 

        Í þessu tilviki ber að líta til þess að á fundum hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá júní til desember komu engar athugasemdir fram við að sá einstaklingur sem var kjörinn oddviti í júní 1998 stýrði fundi.

 

        Hreppsnefnd hefur ákvörðunarvald í málefnum sveitarfélagsins, en hlutverk oddvita, þar sem ráðinn er sveitarstjóri, felst fyrst og fremst í því að stýra störfum hreppsnefndarinnar og koma fram sem fulltrúi sveitarfélagsins.  Ráðuneytið telur að afgreiðslur hreppsnefndar og embættisverk oddvita og varaoddvita á þessu tímabili verði ekki sjálfkrafa talin ógild eða markleysa.  Það útilokar þó ekki að einstök máli geti verið fyrir hendi þar sem þetta gæti haft áhrif, en slík mál þarf þá að skoða sérstaklega.  Ennfremur er ástæða til að minna á að samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal kæra borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema lög mæli á annan veg.  Hinn almenni kærufrestur er því þrír mánuðir.

 

F. h. r.

 

Berglind Ásgeirsdóttir (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum