Hoppa yfir valmynd
25. mars 2002 Innviðaráðuneytið

Ísafjarðarbær - Skylda bæjarstjóra og bæjarráðs til að fylgja ákvörðun bæjarstjórnar við gerð samnings

Sæmundur Kr. Þorvaldsson                                25. mars 2002                        FEL02030062/1001

Lyngholti

471 ÞINGEYRI

 

 

 

Vísað er til erindis yðar, sem móttekið er 15. mars 2002, þar sem óskað er álits ráðuneytisins á gildi samnings við Foreldrafélag skíðabarna um rekstur skíðaskála í Tungudal, sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar undirritaði fyrir hönd bæjarins þann 8. mars 2002.

 

Fram kemur í erindinu að ástæður þess að þér efist um lögmæti samningsins er að þegar drög að samningnum voru borin undir bæjarstjórn á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var 7. mars sl. samþykkti bæjarstjórn með öllum greiddum atkvæðum að bæta inn í samninginn ákvæði um endurskoðun eftir tvo mánuði. Í samninginn eins og hann var undirritaður vantar hins vegar þetta endurskoðunarákvæði og mun ástæðan vera sú að Foreldrafélag skíðabarna vildi ekki samþykkja ákvæðið. Engu að síður var samningurinn undirritaður af bæjarstjóra og vottaður af tveimur bæjarráðsmönnum. Kemur fram í erindi yðar að bæjarstjóri hafði símasamband við yður sem þriðja mann í bæjarráði áður en undirritun fór fram og að þér lögðust ekki gegn undirritun en dróguð þó í efa lögmæti hennar.

 

Með erindi yðar voru lögð fram afrit fundargerða og rekstrarsamnings en einnig yfirlýsing Foreldrafélags skíðabarna og Ísafjarðarbæjar, dags. 11. mars 2002. Í yfirlýsingunni er vitnað til fyrrgreindrar samþykktar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og segir í yfirlýsingunni að gera skuli "ráð fyrir endurskoðun miðað við reynslu í lok apríl. Skal þar sérstaklega skoða samkeppnissjónarmið sem Ísafjarðarbær mun fela bæjarlögmanni að gera greinargerð um. Þá skal skoða rafmagns- og hitunarkostnað milli eignaraðila. Ísafjarðarbær skal tryggja að Foreldrafélag skíðabarna verði ekki fyrir auknum kostnaði vegna þess. Foreldrafélagi skíðabarna er kunnugt um samþykkt bæjarstjórnar."

 

Ráðuneytið fær ekki betur séð en að með undirritun framangreindrar yfirlýsingar hafi verið tekið nægilegt tillit til þeirrar breytingar sem felst í samþykkt bæjarstjórnar frá 7. mars 2002. Telur ráðuneytið því ekki þörf á að efast um gildi umrædds samnings.

 

 

F. h. r.

Hermann Sæmundsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum