Hoppa yfir valmynd
23. desember 2002 Innviðaráðuneytið

Vatnsleysustrandarhreppur - Staðfesting hreppsnefndar á fundargerð sem ekki fylgdi fundarboði

Vatnsleysustrandarhreppur                                 23. desember 2002                    FEL02090033/1001

Jóhanna Reynisdóttir, sveitarstjóri

Iðndal 2

190 VOGAR

 

 

 

Með erindi, dags. 12. september 2002, hefur Halldóra Magný Baldursdóttir, fulltrúi í hreppsnefnd Vatnsleysustrandahrepps, leitað liðsinnis ráðuneytisins varðandi afgreiðslu umsóknar Halldórs Ármannssonar f.h. Bentínu Jónsdóttur um leyfi til að setja upp myndbandaleigu í bílgeymslu að Aragerði 16 í Vogum. Fram kemur í málsgögnum að fjallað var um umsóknina á fundi hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps sem haldinn var 10. september sl. Um var að ræða fyrsta lið á dagskrá sem bar fyrirsögnina "Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps dags. 27/08 & 09/09 2002." Fram kemur í fundargerð hreppsnefndar að tveir hreppsnefndarmenn óskuðu eftir að málinu yrði frestað til að þeim gæfist tími til að kynna sér fundargerðina en því var hafnað og var fundargerðin staðfest með þremur atkvæðum gegn einu en einn hreppsnefndarmaður sat hjá við atkvæðagreiðslu.

 

Málshefjandi er aðalmaður í hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps og gerir hún meðal annars athugasemd við að í fundarboði vegna umrædds hreppsnefndarfundar, sem hreppsnefndarmönnum barst í pósti föstudaginn 6. september 2002, var á dagskrá fundargerð skipulags- og byggingarnefndar vegna fundar sem ekki átti að halda fyrr en 9. september. Af þessum sökum gat ekkert fylgiskjal fylgt fundarboðinu en fundargerð var sett í póstkassa málshefjanda seint á mánudagskvöldi.

 

Samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga hefur félagsmálaráðuneytið úrskurðarvald um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Úrskurðarhlutverk ráðuneytisins takmarkast af ákvæðum sérlaga þar sem öðrum stjórnvöldum er falið að úrskurða um ágreining í einstökum málaflokkum. Í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál falið að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál. Af þeim sökum getur félagsmálaráðuneytið ekki fjallað um athugasemdir sem tíundaðar eru í erindi málshefjanda og varða efnislega afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar. Telji aðili máls að brotið hafi verið á rétti sínum getur hann sent kæru til úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál innan mánaðar frá því honum er kunnugt um niðurstöðu sveitarstjórnar eða skipulags- og byggingarnefndar, samanber 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997. Einstakir sveitarstjórnarmenn geta ekki átt aðild að slíku kærumáli nema þeir séu jafnframt aðilar að stjórnsýslumáli því sem um er að ræða.

 

Í 49. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að fundargerðir nefnda, ráða og stjórna skuli lagðar fyrir byggðarráð og/eða sveitarstjórn eftir því hver háttur er hafður á fullnaðarafgreiðslu í viðkomandi málaflokki. Ef fundargerðir nefnda innihalda ekki ályktanir eða tillögur sem þarfnast sérstakrar staðfestingar eru fundargerðirnar lagðar fram til kynningar. Ef ályktanir eða tillögur þarfnast staðfestingar byggðarráðs og/eða sveitarstjórnar ber að taka þær sérstaklega fyrir. Fundargerðir skulu fylgja dagskrá reglulegra sveitarstjórnarfunda. Verður að telja að óheimilt sé að taka fundargerðir nefnda til afgreiðslu í sveitarstjórn sem ekki fylgja fundarboði nema 2/3 fundarmanna samþykki, sbr. 12. gr. og 2. mgr. 20. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Vatnsleysustrandarhrepps, nr. 586/2001. Fyrir liggur að ekki kom fram tillaga um að heimila slíkt frávik frá samþykktinni á fundi sveitarstjórnar hinn 10. september 2002.

 

Umsókn Halldórs Ármannssonar f.h. Bentínu Jónsdóttur til skipulags- og byggingarnefndar um byggingarleyfi fól í sér beiðni um heimild til að breyta eldra húsnæði í þegar byggðu hverfi. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga þarfnast ákvarðanir skipulags- og byggingarnefndar um veitingu byggingarleyfa staðfestingar viðkomandi sveitarstjórnar. Það er mat ráðuneytisins að staðfesting hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps á fundargerð skipulags- og byggingarnefndar, sólarhring eftir að fundur nefndarinnar var haldinn, sé í andstöðu við 12. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Vatnsleysustrandarhrepps og 2. mgr. 49. gr. sveitarstjórnarlaga og geti sú afgreiðsla því ekki falið í sér endanlega niðurstöðu máls, óski aðili eftir að hreppsnefnd endurskoði ákvörðun nefndarinnar.

 

Með vísan til alls sem að framan er rakið er því hér með beint til hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps að hún taki til sjálfstæðrar afgreiðslu umsókn Halldórs Ármannssonar f.h. Bentínu Jónsdóttur um leyfi til að setja upp myndbandaleigu í bílageymslu að Aragerði 16, komi fram ósk um endurupptöku málsins.

 

Beðist er velvirðingar á því að afgreiðsla málsins hefur dregist vegna mikils annríkis í ráðuneytinu.

 

 

F. h. r.

Garðar Jónsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

Afrit:

Halldóra Baldursdóttir

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum