Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2019

Nýdoktor við Bókmennta- og listfræðistofnun Hugvísindasviðs

Nýdoktor við Bókmennta- og listfræðistofnun Hugvísindasviðs Háskóla Íslands

Háskóli Íslands kallar eftir umsóknum um nýdoktorsstyrk við Bókmennta- og listfræðastofnun Hugvísindasviðs tengt rannsóknaverkefninu "Tilfinningar og sjálfið á miðöldum í Norður-Evrópu" ("Emotion and the Medieval Self in Northern Europe") sem styrkt er af Rannsóknasjóði (RANNÍS). Styrkurinn er til tveggja ára en reiknað er með að styrktímabil hefjist 1. september 2019.

Helstu verkefni og ábyrgð
Verkefni þetta leitast við að sýna fram á tilvist sjálfsvitundar í norður-evrópskum miðaldabókmenntum í gegnum rannsóknir á sviðsetningu tilfinninga í textum. Sviðsetningu tilfinninga í bókmenntum má skilja annars vegar sem staðlaða (félagslega og menningarlega) hegðun og hins vegar sem vitnisburð um sjálfsvitund þar sem slík sviðsetning gefur til kynna meðvitund um sjálf sem er fært um að skynja og upplifa tilfinningar. Hugtakið "sviðsetning tilfinninga" (e. emotive performativity) felur í sér táknræna, málræna eða myndræna tjáningu tilfinninga og er notað hér sem fræðileg nálgunaraðferð til að rannsaka sjálfsvitund í miðaldabókmenntum og sögu tilfinninga í Norður-Evrópu.

Verkefnið byggir á bókmenntafræðilegri og málvísindalegri nálgun í þeim tilgangi að kanna hvernig tilfinningum er miðlað í textum - bæði sem málfarslegu og sem bókmenntalegu fyrirbæri - og hvernig sviðsetning þeirra hefur áhrif á skynjun okkar og upplifun á textalegu sjálfi. Markmiðið er að rannsaka þvermenningarlega vitnisburði um tilvist sjálfsvitundar - sem miðlað er í gegnum sviðsetningu tilfinninga - og menningarbundnar og skáldlegar birtingar-myndir þess.

Verkefnið er unnið undir stjórn verkefnisstjóra, Sif Ríkharðsdóttur við Háskóla Íslands og í samstarfi við alþjóðlegt teymi fræðimanna; Carolyne Larrington við háskólann í Oxford, Frank Brandsma, við háskólann í Utrecht, Þórhall Eyþórsson við Háskóla Íslands og Massimiliano Bampi við háskólann í Feneyjum. Gert er ráð fyrir að nýdoktor eyði minnst 70% af vinnutíma sínum við Háskóla Íslands til að tryggja samvinnu rannsóknarteymis. 

Nýdoktornum er ætlað að starfa að markmiðum verkefnisins ásamt rannsóknateyminu við Háskóla Íslands. Verkefni nýdoktorsins fela m.a. í sér að sækja fundi rannsóknateymisins, vinna að birtingu niðurstaðna rannsóknarinnar, flytja erindi á viðeigandi vísindaráðstefnum og fundum og aðstoða við daglegan rekstur verkefnisins. Áætlað rannsóknarsvið nýdoktors beinist að miðlun tilfinningakóða (e. emotive scripts) yfir Norður Evrópu og er nýdoktor ætlað að vinna með verkefnisstjóra að því að skilgreina mörk milli sögulegra tilfinninga og bókmenntalegra tilfinninga. 

Hæfnikröfur
>> Umsækjendur skulu hafa lokið doktorsprófi á sl. fimm árum miðað við upphafsdag styrksins (tekið er tillit til þess ef veikindi, fæðingarorlof o.þ.h. hafa haft áhrif feril umsækjanda)
>> Góð enskukunnátta í bæði rituðu og töluðu máli er skilyrði.
>> Umsækjendur með rannsóknarbakgrunn tengdum sviði rannsóknar verða í forgangi.

Frekari upplýsingar um starfið
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og viðkomandi stéttarfélag hafa gert.
Gert er ráð fyrir því að viðtöl fari fram í maí. 

Með umsókn skulu fylgja
>> Ferilskrá (CV)
>> Yfirlýsing um áform (1-2 síður) þar sem fyrri störf og áhugasvið umsækjanda eru sett í samhengi við markmið verkefnisins
>> Staðfestingar á prófgráðum (MA-gráða og doktorsgráða)
>> Tvö meðmælabréf

Öllum umsóknum verður svarað og allir umsækjendur verða látnir vita þegar ákvörðun liggur fyrir. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests. 

Við ráðningu í störf við Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun háskólans, sjá hér: https://www.hi.is/node/303261#markmid2 

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands, sjá hér: https://www.hi.is/haskolinn/malstefna_haskola_islands 

Starfshlutfall er 100%
Umsóknarfrestur er til og með 01.04.2019

Nánari upplýsingar veitir
Eiríkur Smári Sigurðarson - [email protected] - 525 5136

Háskóli Íslands
Hugvísindastofnun
v/Sæmundargötu
101 Reykjavík


Smelltu hér til að sækja um starfið
 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum