Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 1997 Innviðaráðuneytið

Bessastaðahreppur - Aðal- og deiliskipulag í hesthúsahverfi. Oddviti eigandi hesthúss

Álftaneslistinn                                                                                            13. febrúar 1996                          95120066

Kjartan Sigtryggsson                                                                                                                                              1001

Sjávargötu 8

225 Bessastaðahreppur

 

 

 

 

           Vísað er til erindis yðar, dagsett 12. desember 1995, sem barst ráðuneytinu hinn 20. sama mánaðar. Með erindi þessu er óskað eftir áliti félagsmálaráðuneytisins á hæfi oddvita hreppsnefndar Bessastaðahrepps til að fjalla um deiliskipulag hesthúsahverfis í sveitarfélaginu. Erindinu fylgdu fundargerðir þeirra hreppsnefndarfunda sem um ræðir.

 

           Erindi yðar var sent til umsagnar oddvita hreppsnefndar Bessastaðahrepps með bréfi, dagsettu 20. desember 1995. Umsögn barst ráðuneytinu með bréfi, dagsettu 9. janúar 1996.

 

           Í erindi yðar er tekið fram að oddviti hreppsnefndar Bessastaðahrepps, Guðmundur G. Gunnarsson, eigi hesthús á því svæði sem deiliskipulagið varðar. Deiliskipulagstillagan geri ráð fyrir að tvö hesthús verði fjarlægð, þ. á m. húsið hans. “Hugmyndir núverandi meirihluta er að þau hesthús sem fjarlægja þarf, en þau voru byggð til bráðabirgða, verði fjarlægð á kostnað sveitarfélagsins.”

 

           Um hæfi sveitarstjórnarmanna til að fjalla um einstök mál er ákvæði í 45. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og segir m.a. svo í 1. mgr.:

           “Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega, að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.”

 

           Um hæfi hreppsnefndarmanna í hreppsnefnd Bessastaðahrepps er jafnframt fjallað í 26. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Bessastaðahrepps nr. 244/1990

 

           Tilgangur 45. gr. sveitarstjórnarlaga er að tryggja málefnalega umfjöllun í sveitarstjórn um þau erindi sem henni berast og að almenningur og þeir sem hlut eiga að máli geti treyst því að sveitarstjórn leysi úr málum á hlutlægan hátt.

 

           Eitt af lögbundnum verkefnum hreppsnefndar Bessastaðahrepps er að fjalla um gerð aðal- og deiliskipulags í sveitarfélaginu, sbr. 5. tölulið 6. mgr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og skipulagslög nr. 19/1964 ásamt reglugerð.

 

           Ráðuneytið telur að þegar um er að ræða umfjöllun um aðal- eða deiliskipulag í sveitarstjórn, þá sé slík umfjöllun svo almenn að hreppsnefndarmenn verða ekki vanhæfir eingöngu vegna þess að þeir eiga fasteign á viðkomandi svæði, þ.e. að málið varði þá svo sérstaklega að hætta sé á að viljaafstaða þeirra mótist að einhverju leyti af því. Fasteignareigandi verður því ekki af þeirri ástæðu einni vanhæfur til að fjalla um aðal- og/eða deiliskipulag í sveitarstjórn.

 

           Þó ber að hafa hér fyrirvara um að ef tiltekin deiliskipulagstillaga fjallar eingöngu um svæði sem er í eigu eða umráðum hreppsnefndarmanns, þ.e. hann hefur einn hagsmuna að gæta, þá er rétt að hann víki sæti við umfjöllun málsins í hreppsnefnd á grundvelli 45. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

           Ráðuneytið telur hins vegar að ef sveitarstjórn þarf að fjalla um kröfu fasteignareiganda um bætur vegna breytinga á aðal- og/eða deiliskipulagi og það mál varðar einn hreppsnefndarmann sérstaklega, þá beri honum að víkja sæti í hreppsnefnd á grundvelli 45. gr. sveitarstjórnarlaga þegar fjallað er um málið. Málið verður í slíkum tilfellum talið varða hann svo sérstaklega að hætta sé á að viljaafstaða þeirra mótist að einhverju leyti af því.

 

           Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að Guðmundur G. Gunnarsson, oddviti Bessastaðahrepps, sé ekki vanhæfur til að fjalla um aðal- og/eða deiliskipulagstillögur í hreppsnefnd varðandi hesthúsabyggð í sveitarfélaginu. Hins vegar telur ráðuneytið að hann sé vanhæfur til að fjalla um hugsanlegar bætur frá sveitarfélaginu vegna kostnaðar sem hann og aðrir eigendur hesthúsa í sömu stöðu verða fyrir vegna breytinga á aðal- og/eða deiliskipulagi.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Ljósrit:  Guðmundur G. Gunnarsson, Norðurtúni 3, 225 Bessastaðahreppur.

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum