Hoppa yfir valmynd
16. apríl 1998 Innviðaráðuneytið

Öxarfjarðarhreppur - Flokkun fiskeldisfyrirtækis til álagningar fasteignaskatts

Gunnþóra S. Jónsdóttir                                        16. apríl 1998                                                     98010090

Boðagerði 13                                                                                                                                                1001

670 Kópaskeri

 

 

 

 

 

             Þann 16. apríl 1998 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með bréfi, dagsettu 12. janúar 1998, kærði Gunnþóra S. Jónsdóttir til ráðuneytisins ákvarðanir hreppsnefndar Öxarfjarðarhrepps frá 11. desember 1997 um að fiskeldisfyrirtæki skuli flokkast í A-gjaldstofn til álagningar fasteignaskatts á árinu 1998 og að fiskeldisfyrirtækinu Silfurstjörnunni h.f. yrði veittur afsláttur af fasteignasköttum vegna áranna 1996 og 1997.

 

             Erindið var sent til umsagnar hreppsnefndar Öxarfjarðarhrepps með bréfi, dagsettu 23. janúar 1998. Umsögn barst ráðuneytinu þann 17. febrúar 1998 með bréfi, dagsettu 12. sama mánaðar.

 

I.          Málavextir.

 

             Mál þetta á sér nokkra forsögu og þykir rétt samhengis vegna að rekja málavexti ítarlega.

 

             Í Öxarfjarðarhreppi er eitt fiskeldisfyrirtæki er nefnist Silfurstjarnan hf.

 

             Á árunum 1991 og 1992 ákvað hreppsnefnd Öxarfjarðarhrepps að álagning fasteignaskatta yrði 0,4% af álagningarstofni á eignum sem falla undir A-flokk og 1% af álagningarstofni á eignum sem falla undir B-flokk.

 

             Sama ákvörðun var tekin á árinu 1993, nema sérstaklega var tekið fram í bókun hreppsnefndar að fiskeldi félli undir A-flokk. Þann fund sátu m.a. Björn Benediktsson stjórnarmaður og starfsmaður Silfurstjörnunnar og Benedikt Kristjánsson framvæmdastjóri Silfurstjörnunnar.

 

             Vegna ársins 1994 var ákveðið að álagning fasteignaskatta yrði 0,36% af álagningarstofni á “íbúðarhús og lóðir, sumarhús og lóðir, útihús og mannvirki á bújörðum, jarðeignir nýttar til landbúnaðar“ og 1% af álagningarstofni á önnur mannvirki. Jafnframt var ákveðið að veita 25% afslátt af fasteignasköttum útihúsa í sveitum.

 

             Í desember 1994 fjallaði hreppsnefndin um álagningu gjalda fyrir árið 1995. Var þá ákveðið að álagning fasteignaskatta yrði 0,4% af álagningarstofni á eignum sem falla undir A-flokk, 1,25% af álagningarstofni á eignum sem falla undir B-flokk og 1,25% af verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Einnig var ákveðið að Silfurstjarnan yrði í B-flokki en fyrirtækinu yrði veittur 25% afsláttur á árinu. Fundinn sat m.a. Rúnar Þórarinsson starfsmaður Silfurstjörnunnar.

 

             Þann 12. júní 1995 barst hreppsnefndinni erindi frá Silfurstjörnunni þar sem óskað er eftir að endurskoðuð verði álagning fasteignaskatts á fyrirtækið. Um málið var fjallað á fundi hreppsnefndar þann 14. júní 1995 og sveitarstjóra falið að kanna málið nánar. Fundinn sátu m.a. Rúnar Þórarinsson starfsmaður Silfurstjörnunnar og Benedikt Kristjánsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins, en þeir viku af fundi meðan málið var til umræðu.

 

             Aftur var fjallað um málið á fundi hreppsnefndar þann 20. júlí 1995. Þar kom fram að athugun sveitarstjóra hafi leitt í ljós að fordæmi væru fyrir því að slík starfsemi flokkist í B-flokk “en ekki óyggjandi“. Hreppsnefndin ákvað því að leita eftir áliti yfirfasteignamatsnefndar. Fundinn sat m.a. Rúnar Þórarinsson starfsmaður Silfurstjörnunnar.

 

             Málið var tekið fyrir á ný í hreppsnefnd þann 18. október 1995, en svar hafði borist frá yfirfasteignamatsnefnd með bréfi, dagsettu 13. september 1995. Í því bréfi kemur fram að nefndin geti ekki úrskurðað í málinu nema kæra komi til. Á fundi hreppsnefndar var eftirfarandi m.a. bókað: “Samkvæmt þeim upplýsingum sem sveitarstjórn hefur aflað sér virðist Silfurstjarnan eiga að flokkast í B-flokk fasteignagjalda, en sveitarstjórn er sammála um að veita henni aðlögunartíma á tilfærslunni milli flokka, komi ósk um það.“ Fundinn sat m.a. Rúnar Þórarinsson starfsmaður Silfurstjörnunnar, en hann vék af fundi meðan málið var rætt.

 

             Þann 22. nóvember 1995 barst hreppsnefnd erindi frá Gústaf Þór Tryggvasyni hrl. stjórnarmanni í Silfurstjörnunni þar sem enn er óskað eftir að fyrirtækið verði flokkað í lægri gjaldflokk. Sama dag var bréfið tekið fyrir á fundi hreppsnefndarinnar og var eftirfarandi bókað: “Ágreiningur hefur risið um fasteignagjaldaflokkun fiskeldisfyrirtækisins Silfurstjörnunnar h.f. Hreppsnefnd færði fyrirtækið úr A-flokki í B-flokk á þessu ári þar sem sýnt þótti að svo ætti að vera. Silfurstjarnan h.f. vill ekki una þeirri tilfærslu. Í ljósi þessa ágreinings kærir sveitarstjórn Öxarfjarðarhrepps þennan gjörning til Yfirfasteignamatsnefndar ríkisins og óskar úrskurðar hið bráðasta.“ Fundinn sat m.a. Rúnar Þórarinsson starfsmaður Silfurstjörnunnar og lét hann bóka svo um málið: “Ég get ekki samþykkt að kæra eigin úrskurð um flokkun Silfurstjörnunnar h.f. til Yfirfasteignamatsnefndar, tel ég að starfsemi fyrirtækisins sé landbúnaður og eigi því að flokkast í A-flokk fasteignaskatts.“

 

             Á fundi sínum þann 13. desember 1995 ákvað hreppsnefnd nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins fyrir árið 1996 og afslætti til Silfurstjörnunnar til aðlögunar fyrir árin 1995—1997. Áður hafði borist niðurstaða frá yfirfasteignamatsnefnd á þann veg að nefndin tæki málið ekki til úrskurðar þar sem kæra yrði að koma frá þolanda í málinu, þ.e. Silfurstjörnunni. Á fundinum var eftirfarandi bókað m.a.: “Sveitarstjórn Öxarfjarðarhrepps ítrekar fyrri ákvörðun sína um að Silfurstjarnan flokkist í B-flokk fasteignagjalda. Ennfremur ítrekar sveitarstjórn fyrra tilboð sitt að veita Silfurstjörnunni aðlögunartíma vegna gjaldflokkabreytingarinnar. Árið 1995 verði afsláttur af álögðu fasteignagjaldi 60%. Árið 1996 40%. Árið 1997 20%. Árið 1998 greiði Silfurstjarnan álagðan fasteignaskatt að fullu. Fundinn sat m.a. Rúnar Þórarinsson starfsmaður Silfurstjörnunnar og lét hann bóka svo um málið: “Ég mun ekki leggjast gegn ákvörðun sveitarstjórnar í þessu máli, en vil þó ítreka bókun mína frá 22.11.1995 um það að ég tel að starfsemi Silfurstjörnunnar sé landbúnaður og eigi að flokkast í A-stofn fasteignagjalda.“

 

             Þann 20. febrúar 1996 sendir Gústaf Þór Tryggvason hrl. stjórnarmaður í Silfurstjörnunni bréf til hreppsnefndar þar sem óskað er eftir leiðréttingu álagningar fasteignagjalda fyrir árin 1995 og 1996. Bréfið var tekið fyrir á fundi hreppsnefndarinnar þann 21. febrúar 1996 og gerð svohljóðandi bókun m.a.: “Meirihluti sveitarstjórnar Öxarfjarðarhrepps stendur við fyrri ákvörðun sína í þessu máli, en er tilbúin að bíða með innheimtuaðgerðir meðan málið fer fyrir Yfirfasteignamatsnefnd með kæru frá Silfurstjörnunni, sem fram komi fyrir 15. mars 1996.“ Fundinn sátu m.a. Rúnar Þórarinsson starfsmaður Silfurstjörnunnar og Benedikt Kristjánsson framvæmdastjóri fyrirtækisins og létu þeir bóka eftirfarandi: “Við teljum að með ákvörðun sinni sé meirihluti sveitarstjórnar að setja málið í enn meiri hnút og ógni atvinnulífi í sveitarfélaginu.“

 

             Á fundi hreppsnefndar þann 7. maí 1997 var fjallað um ársreikning hreppsins og segir svo m.a. í bókun vegna málsins: “Reikningnum fylgdi bréf frá endurskoðendum dagsett 6. maí þar sem þau gera athugasemdir við að skuld Silfurstjörnunnar h.f. vegna fasteignagjalda sem nú er komin í 521.860. ... Reikningarnir samþykktir samhljóða og ákveðið að bréf endurskoðenda verði látið fylgja reikningunum.“

 

             Á þessum tíma reyndi hreppsnefnd Öxarfjarðarhrepps einnig að fá breytt lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með viðtölum og bréfaskrifum við Samband íslenskra sveitarfélaga, félagsmálaráðuneytið og þingmenn kjördæmisins. Var markmiðið að fá það skýrt fram í lögunum í hvorn flokkinn fiskeldisfyrirtæki ættu að falla. Engar breytingar hafa hins vegar enn orðið á lögunum hvað þetta varðar.

 

             Hreppsnefndin ákvað síðan á fundi sínum þann 10. desember 1997 að freista þess að knýja fram úrskurð í málinu með því “að kúvenda“ og leggja á fyrirtækið samkvæmt A-flokki fyrir árið 1998 og koma sér með því í stöðu “meints þolanda“ gagnvart Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem flokkar fiskeldi í B-flokk við útreikning tekjujöfnunarframlaga til sveitarfélaganna í landinu. Var samþykkt að láta þessa reglu gilda fyrir árin 1996, 1997 og 1998. Fundinn sátu m.a. Rúnar Þórarinsson starfsmaður Silfurstjörnunnar og Benedikt Kristjánsson framvæmdastjóri fyrirtækisins, en þeir sátu hjá við atkvæðagreiðslu um tillöguna.

 

             Hreppsnefndin fundaði á ný þann 11. desember 1997 og samþykkti að breyta bókun meirihluta hreppsnefndarinnar frá deginum áður. Í nýrri bókun segir m.a. svo: “Sveitarstjórn samþykkir að fiskeldi verði flokkað í A-flokk fasteignagjalda. ... Á þetta við um álagningu árið 1998, en varðandi árin 1996 og 1997 ákveður meirihluti sveitarstjórnar að afskrifa sem nemur mismuninum á upphæð A- og B-flokks fasteignagjalda hjá Silfurstjörnunni h.f.“ Fundinn sátu m.a. Rúnar Þórarinsson starfsmaður Silfurstjörnunnar og Benedikt Kristjánsson framvæmdastjóri fyrirtækisins, en þeir sátu hjá við atkvæðagreiðslu um tillöguna.

 

             Þann 12. janúar 1998 sendi Gunnþóra S. Jónsdóttir kæru til félagsmálaráðuneytisins vegna málsins.

 

             Með bréfi, dagsettu 18. mars 1998, tilkynnti yfirfasteignamatsnefnd Öxarfjarðarhreppi um niðurstöðu í kærumálinu og var kærunni vísað frá nefndinni á þeim grundvelli að ekki væri fyrir hendi ágreiningur milli Öxarfjarðarhrepps og Silfurstjörnunnar um álagninguna. Nefndin hefði ekki úrskurðarvald um ágreining um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

 

II.         Málsástæður.

 

             Í erindi kæranda til ráðuneytisins kemur fram að kærðar eru ákvarðanir hreppsnefndar Öxarfjarðarhrepps frá 11. desember 1997.

 

             Í kærunni segir svo m.a.:

             “Þar samþykkir sveitarstjórnin í fyrsta lagi að fiskeldisfyrirtæki skuli flokkast í A-gjaldstofn til álagningar fasteignagjalda á árinu 1998, ég hef fengið þá vitneskju frá Félagsmálaráðuneytinu að þar séu fiskeldisfyrirtæki flokkuð í B-gjaldstofn, og treysti ég því að þar sé farið að lögum, þar af leiðandi krefst ég þess að Öxarfjarðarhreppur leggi fasteignagjöld á fiskeldisfyrirtæki samkvæmt B-gjaldstofni.

             Í öðru lagi samþykkir sveitarstjórnin á sama fundi, að veita afslátt sem nemur mun á fasteignagjöldum í A og B flokki gjaldstofna hjá einu fyrirtæki í sveitarfélaginu (fiskeldisfyrirtækinu Silfurstjörnunni), en á árunum 1996 og 1997 voru fasteignagjöld á umrætt fyrirætki lögð á samv. B flokki.

             Ég get ekki séð í lögum að heimilt sé að afskrifa, veita afslátt, eða fella niður fasteignagjöld, hjá einstaka fyrirtæki eða einstaklingum nema um tekjulitla elli- og örorkulífeyrisþega sé að ræða.

             Þannig háttar til, að allt frá sameiningu sveitarfélaganna Presthólahrepps og Öxarfjarðarhrepps hafa alltaf setið í sveitarstjórn fulltrúar frá Silfurstjörnunni, ýmist framvæmdastjóri, stjórnarmaður eða skrifstofumaður, nú síðustu ár bæði framkvæmdastjóri fyrirtækisins Benedikt Kristjánsson og skrifstofumaður fyrirtækisins Rúnar Þórarinsson, sem jafnframt er oddviti sveitarstjórnarinnar. Þeir hafa aldrei vikið af fundi þegar umræða um flokkun fiskeldisstöðva í gjaldstofna hefur farið fram (þar sem einungis eitt fiskeldisfyrirtæki þ.e. Silfurstjarnan h.f. er í sveitarfélaginu, hafa umræðurnar beinlínis snúist um hagsmuni þess fyrirtækis) og hafa þeir augljóslega haft áhrif á ákvarðanatöku sveitarstjórnarinnar í þessu máli, þótt þeir hafi ekki verið í meirihluta.Hvað varðar vanhæfni (sic.) ofangreindra aðila til þess að taka þátt í umræðum og afgreiðslu mála varðandi fyrirtækið Silfurstjörnuna h.f. bendi ég á 3. og 4. grein stjórnsýslulaga einnig á 45. grein í sveitarstjórnarlögum.“

 

             Frekari málsástæður en lýst er í málavaxtakaflanum hér að framan komu ekki fram frá hreppsnefnd Öxarfjarðarhrepps.

 

III.        Niðurstaða ráðuneytisins.

 

Um afslátt eða niðurfellingu skatta og gjalda:

 

             Í 2. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 segir svo:

             “Sveitarstjórn fer með stjórn sveitarfélagsins skv. ákvæðum laga þessara og annarra laga.“

 

             Í 9. gr. laganna er almennt ákvæði um skyldur sveitarfélaga og valdsvið og 1. og 2. mgr. 9. gr. hljóða svo:

             “Sveitarstjórnir hafa ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélaga og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast, að svo miklu leyti sem ekki eru settar um það reglur í löggjöf.

             Sveitarstjórn skal sjá um að lögbundin verkefni sveitarfélagsins séu rækt og að fylgt sé þeim reglum um meðferð sveitarstjórnarmála sem ákveðnar eru í samþykktum sveitarfélagsins, lögum og reglugerðum.“

 

             Um hlutverk og verkefni sveitarfélaga er m.a. fjallað í 1.-3. mgr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga, en þau ákvæði hljóða svo:

             “Skylt er sveitarfélögum að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum.

             Sveitarfélög skulu vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna eftir því sem fært þykir á hverjum tíma.

             Sveitarfélög geta tekið að sér hvert það verkefni sem varðar íbúa þeirra, enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar að lögum.“

 

             Félagsmálaráðuneytið hefur ekki talið ástæðu til að gera athugasemdir við styrkveitingar sveitarfélaga til einstakra verkefna, svo fremi sem sveitarfélögin sinna lögbundnum verkefnum sínum, sbr. 3. mgr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga. Slíkar styrkveitingar geta verið í formi beinna styrkja, ábyrgða eða í formi niðurfellingar á sköttum og gjöldum, sbr. þó þær athugasemdir sem hér fara á eftir.

 

             Gera verður þó greinarmun á styrkjum til ýmissa félagasamtaka annars vegar og hins vegar styrkjum til fyrirtækja sem geta hugsanlega raskað samkeppnisaðstöðu, sbr. samkeppnislög nr. 8/1993.

 

             Í þessu sambandi verður að hafa í huga 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Í 1. mgr. kemur fram meginreglan og hljóðar hún svo:

             “Ef ekki er kveðið á um annað í samningi þessum er hvers kyns aðstoð, sem aðildarríki EB eða EFTA-ríki veitir eða veitt er af ríkisfjármunum og raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara, ósamrýmanleg framkvæmd samnings þessa að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila.“

 

             Samkvæmt athugasemdum með framangreindu ákvæði nær skilgreining á ríkisstyrkjum yfir bein fjárframlög, ábyrgðir og skattaívilnanir, auk trygginga og niðurgreiðslu lánskjara frá markaðskjörum, og á jafnt við um styrki veitta af ríkisvaldinu, sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum og sjóðum í eigu opinberra aðila að hluta eða öllu leyti.

 

             Í 2. og 3. mgr. 61. gr. samningsins eru undanþágur frá meginreglunni og segir m.a. í a-lið 3. mgr. að aðstoð til að efla hagþróun á svæðum þar sem lífskjör eru óvenju bágborin eða atvinnuleysi mikið geti talist samrýmanleg framkvæmd samningsins og í c-lið segir að sama gildi um aðstoð til að greiða fyrir þróun ákveðinna greina efnahagslífsins eða ákveðinna efnahagssvæða enda hafi hún ekki svo óhagstæð áhrif á viðskiptaskilyrði að stríði gegn sameiginlegum hagsmunum.

 

             Varðandi aðstoð samkvæmt samningnum ber ennfremur að taka til skoðunar XI. kafla samkeppnislaga nr. 8/1993. Má í því samhengi greina frá áliti samkeppnisráðs nr. 2/1997, en þar var fjallað um hvort það kynni að brjóta í bága við samkeppnislög að sveitarfélög niðurgreiði kvótakaup einstakra bænda. Í niðurstöðu samkeppnisráðs segir m.a. að “þegar opinber stuðningur sem hér um ræðir kemur til athugunar samkeppnisyfirvalda skuli einungis litið til þeirra áhrifa sem aðstoðin hafi á samkeppni á viðkomandi markaði en ekki hver tilgangurinn sé með slíkri aðstoð eða hvert markmið hennar sé...“ Síðan segir svo orðrétt í álitinu: “Opinberir styrkir af þeim toga sem mál þetta fjallar um eru til þess fallnir að halda uppi óeðlilega háu verði á greiðslumarki. Samkeppnisráð telur því að styrkveitingar sveitarfélaga til kaupa á greiðslumarki geti torveldað nauðsynlega hagræðingu í búvöruframleiðslu og unnið þar með gegn hagkvæmri nýtingu á framleiðsluþáttum þjóðfélagsins, sbr. 1. gr. samkeppnislaga. Jafnframt telur samkeppnisráð ljóst að með því að styrkja bændur innan ákveðins sveitarfélags til kaupa á greiðslumarki hafi það samkeppnishamlandi áhrif á markaðinn fyrir kaup og sölu á greiðslumarki. Sá markaður er eðli málsins samkvæmt ekki bundinn við staðarmörk sveitarfélaga. Eins og átti sér stað í þessu máli hafa styrkir sveitarfélaga þau áhrif að möguleikum bænda, sem ekki njóta styrkja, til þess að kaupa greiðslumark er raskað.“

 

             Tekið skal sérstaklega fram að úrskurðarvald vegna meintra brota á samkeppnislögum er ekki í höndum félagsmálaráðuneytisins heldur samkeppnisyfirvalda, sbr. lög nr. 8/1993.

 

             Rétt er jafnframt að taka skýrt fram að sveitarstjórnir verða að gæta jafnræðis við ákvörðun um styrkveitingar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en það ákvæði hljóðar svo: “Við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Óheimilt er að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum.“

 

             Í athugasemdum með frumvarpi til stjórnsýslulaga segir m.a. um 11. gr.:

             “Í reglunni felst að mál sem eru sambærileg í lagalegu tilliti skuli hljóta sams konar úrlausn. Í þessu sambandi verður þó að hafa í huga að ekki er um mismunun að ræða í lagalegu tilliti, jafnvel þótt mismunur sé á úrlausn mála, byggist sá mismunur á frambærilegum og lögmætum sjónarmiðum.“

 

             Ráðuneytið telur að eðlilegt sé að sveitarstjórnir setji fyrirfram reglur um styrkveitingar viðkomandi sveitarfélags, en ef það reynist ekki unnt í öllum tilfellum verður sveitarstjórnin að gæta þess að framangreind jafnræðisregla sé virt. Rétt er jafnframt að kynna innan sveitarfélagsins allar breytingar á reglum um styrkveitingar samkvæmt framansögðu, svo einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki viti fyrirfram að hverju gengið er þegar sótt er um styrki.

 

Um flokkun fiskeldisfyrirtækja í A- eða B-flokk:

 

             Í 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 segir að verði ágreiningur um gjaldstofn skv. 3. gr. laganna skuli vísa honum til úrskurðar Fasteignamats ríkisins. Þeim úrskurði má skjóta til yfirfasteignamatsnefndar ríkisins. Verði hins vegar ágreiningur um gjaldskyldu sker yfirfasteignamatsnefnd úr.

 

             Skýrt er samkvæmt framangreindu að ekki er gert ráð fyrir afskiptum félagsmálaráðuneytisins af ágreiningi um flokkun tiltekinna fyrirtækja í gjaldflokka samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Ráðuneytið hefur einungis gefið álit á grundvelli fyrirliggjandi úrskurða yfirfasteignamatsnefndar.

 

             Samkvæmt gögnum málsins barst yfirfasteignamatsnefnd kæra frá Öxarfjarðarhreppi vegna máls þessa, en niðurstaða nefndarinnar var sú að vísa málinu frá þar sem viðkomandi gjaldandi hélt því fram að ekki væri ágreiningur um álagninguna, sbr. úrskurð nefndarinnar frá 18. mars 1998.

 

             Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið ekki rétt að það fjalli frekar um þennan þátt kærunnar.

 

Um hæfi einstakra hreppsnefndarmanna:

 

             Í þessum úrskurði verður einvörðungu fjallað um hæfi sveitarstjórnarmannanna Rúnars Þórarinssonar, starfsmanns Silfurstjörnunnar, og Benedikts Kristjánssonar, framvæmdastjóra fyrirtækisins, til að fjalla um og afgreiða mál á fundi hreppsnefndar Öxarfjarðarhrepps þann 11. desember 1997.

 

             Um hæfi sveitarstjórnarmanna til afgreiðslu einstakra mála gildir 45. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Rétt er að taka fram að stjórnsýslulög nr. 37/1993 eiga ekki við í þessu sambandi, enda segir í 2. mgr. 2. gr. þeirra laga að um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna og annarra þeirra sem starfa við stjórnsýslu sveitarfélaga fari eftir sveitarstjórnarlögum.

 

             Í 45. gr. sveitarstjórnarlaga segir svo:

             “Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Honum er þó heimilt að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni. Sveitarstjórn sker umræðulaust úr hvort mál er svo vaxið. Sveitarstjórnarmaður, sem hlut á að máli, má taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt. Sveitarstjórnarmanni, sem veit hæfi sitt orka tvímælis, ber að vekja athygli á því.

             Sveitarstjórnarmaður, sem vanhæfur er við úrlausn máls, skal yfirgefa fundarsal sveitarstjórnar við afgreiðslu þess.“

 

             Eins og áður er rakið var á fundi hreppsnefndarinnar þann 11. desember 1997 samþykkt bókun sem hljóðar m.a. svo: “Sveitarstjórn samþykkir að fiskeldi verði flokkað í A-flokk fasteignagjalda. ... Á þetta við um álagningu árið 1998, en varðandi árin 1996 og 1997 ákveður meirihluti sveitarstjórnar að afskrifa sem nemur mismuninum á upphæð A- og B-flokks fasteignagjalda hjá Silfurstjörnunni h.f.“ Fundinn sátu m.a. Rúnar Þórarinsson starfsmaður Silfurstjörnunnar og Benedikt Kristjánsson framvæmdastjóri fyrirtækisins, en þeir sátu hjá við atkvæðagreiðslu um

tillöguna.

 

             Ljóst er m.a. af aðdraganda þessarar afgreiðslu, sem rakinn er í málavaxtalýsingu hér að framan, að ákvörðun hreppsnefndarinnar skiptir fiskeldisfyrirtækið Silfurstjörnuna h.f. meginmáli, enda er fyrirtækið hið eina í sveitarfélaginu sem stundar þessa starfsemi. Við umfjöllun og atkvæðagreiðslu um málið sátu m.a. fundinn Rúnar Þórarinsson, oddviti hreppsnefndar og starfsmaður Silfurstjörnunnar, og Benedikt Kristjánsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Við atkvæðagreiðslu um tillöguna sátu þeir hins vegar hjá. Ráðuneytið telur ljóst að umfjöllun hreppsnefndar Öxarfjarðarhrepps um fyrrgreint mál varði framangreinda tvo hreppsnefndarmenn svo sérstaklega að ætla megi að viljaafstaða þeirra mótist að einhverju leyti þar af. Af þeim sökum telur ráðuneytið að Rúnar Þórarinsson og Benedikt Kristjánsson séu vanhæfir til þess að fjalla um málið í hreppsnefndinni.

 

             Í 2. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga er sérstaklega tekið fram að sveitarstjórnarmaður, sem vanhæfur er við úrlausn máls, skuli yfirgefa fundarsal sveitarstjórnar við afgreiðslu þess. Samkvæmt orðanna hljóðan nægir því ekki að vanhæfur sveitarstjórnarmaður sitji hjá við afgreiðslu viðkomandi máls heldur ber honum að víkja úr fundarsal “við afgreiðslu þess“. Á þetta bæði við um umfjöllun málsins og atkvæðagreiðslu um það, en samkvæmt 1. mgr. 45. gr. er sveitarstjórnarmanninum þó heimilt “að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni“.

 

             Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að Rúnari Þórarinssyni og Benedikt Kristjánssyni hafi borið að víkja af fundi við umræðu og atkvæðagreiðslu um málið á fundi hreppsnefndarinnar þann 11. desember 1997, enda nægir ekki í slíkum tilvikum einvörðungu að sitja hjá við atkvæðagreiðslu. Í ljósi þess að um er að ræða vanhæfi tveggja hreppsnefndarmanna af fimm og að annar þeirra er oddviti hreppsnefndarinnar telur ráðuneytið að vanhæfi þetta leiði til þess að ógilda ber ákvörðun hreppsnefndar frá 11. desember 1997 varðandi flokkun fiskeldisfyrirtækja í gjaldflokka. Hreppsnefnd Öxarfjarðarhrepps ber því að taka málið fyrir á nýjan leik og er eðlilegt að kallaðir verði til varamenn í stað þeirra sem vanhæfir teljast.

 

 

             Dregist hefur að kveða upp úrskurð þennan vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Ákvörðun hreppsnefndar Öxarfjarðarhrepps frá 11. desember 1997 um flokkun fiskeldisfyrirtækja í gjaldflokka er ógild. Hreppsnefnd ber að taka málið fyrir á ný til löglegrar meðferðar.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

Ljósrit:  Hreppsnefnd Öxarfjarðarhrepps.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum