Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2001 Innviðaráðuneytið

Reykhólahreppur - Sala jarðar í eigu sveitarfélags, sveitarstjóri tengdur einum tilboðsgjafa

Reykhólahreppur                                                                  7. febrúar 2001                                Tilvísun: FEL01010019/1001

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, sveitarstjóri

Reykhólum

380 KRÓKSFJARÐARNES

 

 

 

 

Hinn 6. febrúar 2001 var upp kveðinn í félagsmálaráðuneytinu svofelldur:

 

úrskurður

 

          Með bréfi dags. 7. janúar 2001 barst ráðuneytinu erindi frá Einari Hafliðasyni og Bergsveini G. Reynissyni, þar sem kærð er málsmeðferð hreppsnefndar Reykhólahrepps frá 16. desember 2000, varðandi sölu á eignarhluta hreppsins í jörðinni Brekku í Gufudal.

          Jafnframt barst ráðuneytinu erindi vegna sama máls dags. 3. janúar 2001, frá Jónu Valgerði Kristjánsdóttur, sveitarstjóra Reykhólahrepps og hreppsnefndarmanni, þar sem farið var fram á að ráðuneytið úrskurðaði um hæfi Jónu Valgerðar við meðferð málsins.

          Í bréfi ráðuneytisins dags. 9. janúar sl. var óskað umsagnar hreppsnefndar Reykhólahrepps vegna málsins. Jafnframt var þar tilkynnt sú ákvörðun ráðuneytisins að erindin yrðu sameinuð og afgreidd sem eitt mál. Frestur til að veita umsögn var gefinn til 19. janúar en hann var síðar framlengdur símleiðis til 28. janúar. Umsögnin barst með símbréfi dags. 29. janúar sl.

 

I. Málavextir:

Málavöxtum er lýst í bréfi sveitarstjóra dags. 3. janúar og stjórnsýslukæru málshefjenda dags. 7. janúar og ber þeim að öllu verulegu saman. Um er að ræða ágreining vegna ákvörðunar hreppsnefndar Reykhólahrepps um að selja Katli Axelssyni eignarhluta hreppsins í jörðinni Brekku í Gufudal, sem telst vera 5/12 hl. jarðarinnar. Kaupverð var kr. 6 milljónir króna. Eignin var auglýst til sölu á fasteignasölu og alls bárust fimm tilboð í eignarhlutann, öll í gegnum fasteignasöluna, að undanskildu tilboði frá Einari Hafliðasyni, öðrum kæranda máls þessa, sem lagt var fram skömmu fyrir hreppsnefndarfund sem haldinn var þann 20. október sl.  Einar á sjálfur sæti í hreppsnefnd og vék hann sæti þegar málið var rætt í hreppsnefnd. Sveitarstjóri tók hins vegar þátt í afgreiðslu málsins og var falið á fundinum að vinna áfram að málinu, en endanlegri ákvörðun var síðan frestað til næsta fundar.

          Á fundi þann 16. desember var málið tekið fyrir að nýju. Var þá ákveðið eins og áður sagði að taka tilboði Ketils Axelssonar, en önnur tilboð, að undanskildu tilboði Einars Hafliðasonar að fjárhæð kr. 4.050.000 höfðu þá verið dregin til baka. Að sögn málshefjenda stendur Bergsveinn Reynisson einnig að því tilboði.

          Fram kemur í bréfi sveitarstjóra til ráðuneytisins dags. 3. janúar sl. að tengsl hennar við hæstbjóðanda séu þau að hæstbjóðandi sé tengdafaðir hálfsystur tengdasonar sveitarstjóra. Hafi henni verið ókunnugt um þessi ættartengsl fyrr en á síðari stigum máls þess sem hér er til umfjöllunar. Einnig tekur sveitarstjóri fram að hún sé ókunnug hæstbjóðanda en sonur hans hafi verið staddur í brúðkaupi dóttur sveitarstjórans sl. sumar.

          Kærendur hafa ekki gert athugasemd við þessa lýsingu á ættartengslum, en telja að þar sem sonur hæstbjóðanda standi væntanlega með honum að kaupunum hefði sveitarstjóra borið að víkja sæti við afgreiðslu málsins. Þá telja þeir að málsmeðferð sveitarstjóra milli funda hafi haft áhrif á gang málsins og ekki verið að öllu leyti í samræmi við bókun hreppsnefndar frá 20. október, en af henni telja kærendur ljóst að sveitarstjóra hafi borið að ræða sérstaklega við þá heimamenn sem sendu inn tilboð í jarðarhlutann og gefa þeim kost á að gera hærra tilboð. Það hafi hún hins vegar aldrei gert. Þá hafi sveitarstjóra láðst að vekja athygli hreppsnefndar á hugsanlegu vanhæfi sínu, til að nefndin gæti tekið afstöðu til þess á grundvelli 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

 

II. Álit ráðuneytisins

Í erindi málshefjenda eru greindar tvær ástæður fyrir því að ákvörðun hreppsnefndar er kærð til ráðuneytisins. Önnur er meint vanhæfi sveitarstjóra og hin er sú að hagsmunir sveitarfélagsins hafi verið fyrir borð bornir við meðferð málsins, með því að selja utansveitarmönnum umræddan jarðarhluta. Ráðuneytið telur að það geti eingöngu fjallað um fyrri málsástæðuna. Ákvæði jarðalaga mæla fyrir um að jarðanefnd og sveitarstjórn meti hvort síðara skilyrðið er uppfyllt. Ef þessir aðilar verða ekki sammála getur hvor um sig skotið ágreiningnum til landbúnaðarráðherra til úrskurðar, sbr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Er upplýst í málinu að jarðanefnd lýsti sig andvíga sölunni og hefur hreppsnefnd nú ákveðið að falla frá áformum um söluna, a.m.k. fyrst um sinn. Sá gerningur sem kærður er hefur því í reynd verið dreginn til baka. Hvorugt þeirra erinda sem send voru ráðuneytinu hefur hins vegar verið dregið til baka og liggur fyrir sú afstaða sveitarstjóra að hún telji nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort hún hafi verið vanhæf til að fjalla um málið, á grundvelli 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.

          Ráðuneytið telur að því sé heimilt að fjalla um hvort sveitarstjóri hafi verið vanhæfur í umrætt sinn til að taka þátt í afgreiðslu málsins, á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Byggist sú afstaða á því að aðild Reykhólahrepps að málinu er á grundvelli eignarréttar hreppsins á jarðarhlutanum og fer því um ákvörðun um sölu hans samkvæmt sveitarstjórnarlögum en ekki samkvæmt jarðalögum nr. 65/1976. Þar sem sveitarstjóri hefur ótvíræða hagsmuni af því að fá skorið úr um meint vanhæfi telur ráðuneytið mál þetta því tækt til efnismeðferðar, þrátt fyrir að sú stjórnsýsluákvörðun sem kærð er sé niður fallin, eins og áður sagði.

          Um hæfi sveitarstjórnarmanna gildir 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Í 1. mgr. 19. gr. segir svo:

 

          Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.

 

          Við mat á hugsanlegu vanhæfi ber að líta til aðildar sveitarstórnarmanns eða náinna venslamanna hans að því tiltekna máli sem sveitarstjórn hefur til umfjöllunar. Sveitarstjórnarmaður sem á sjálfur aðild að máli er alltaf vanhæfur til að taka þátt í málsmeðferð. Varðandi túlkun á því hverjir teljast nánir venslamenn er unnt að líta til 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en einnig eru gerðar strangari hæfiskröfur þegar um mikla persónulega eða fjárhagslega hagsmuni er að ræða. Loks ber að gæta að því með hvaða hætti sveitarstjórnarmaður kemur að málinu, en í því máli sem hér er til umfjöllunar var sveitarstjóra falið að vinna að málinu á milli funda sveitarstjórnar, auk þess sem hún tók þátt í atkvæðagreiðslu um málið.

          Ráðuneytið telur að kærendum hafi ekki tekist að véfengja þá fullyrðingu sveitarstjóra að hún sé ókunnug hæstbjóðanda. Hafði sveitarstjórinn því ekki tilefni til þess að vekja athygli á hugsanlegu vanhæfi sínu við meðferð málsins til að sveitarstjórn gæti tekið afstöðu til þess atriðis áður en endanleg ákvörðun lá fyrir. Raunar kemur fram í umsögn hreppsnefndar frá 29. janúar sl. að hreppsnefnd hafi tekið afstöðu til þess atriðis á fundi sínum þann 25. janúar sl., en ráðuneytið telur að sú afgreiðsla hreppsnefndar geti ekki haft þýðingu fyrir úrslit máls þessa.

          Ráðuneytið telur að þau ættartengsl milli hæstbjóðanda og sveitarstjóra sem um er að ræða í þessu máli séu ekki með þeim hætti að varðað geti vanhæfi sveitarstjóra. Er þá meðal annars horft til þess að tengslin eru fjarlægari en svo að valdið geti vanhæfi samkvæmt 3. gr. stjórnsýslulaga. Einnig vísast til álits ráðuneytisins frá 6. september 1993 varðandi Hafnarhrepp (ÚFS 1992-1993:74), þar sem tengsl málsaðila og sveitarstjórnarmanns voru mun nánari en í því máli sem hér er til umfjöllunar (börn þeirra höfðu nýhafið sambúð). Hefur ráðuneytið þá einnig tekið tillit til þess að um fremur mikla fjárhagslega hagsmuni kann að vera að ræða fyrir hæstbjóðanda og þeirrar staðreyndar að auk þess að taka þátt í atkvæðagreiðslu var sveitarstjóra falið að vinna að framgangi málsins milli funda.

         

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

          Sveitarstjóri Reykhólahrepps var ekki vanhæfur til að taka þátt í málsmeðferð vegna sölu á eignarhluta hreppsins í jörðinni Brekku.

 

 

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

 

Afrit:

Einar Hafliðason

Bergsveinn Reynisson

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum