Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2002 Innviðaráðuneytið

Vestmannaeyjabær - Ákvörðun um breytingu á ráðningarsamningi fráfarandi bæjarstjóra, hæfi forseta bæjarstjórnar til þátttöku við afgreiðslu málsins

Bæjarfulltrúar V-listans í Vestmannaeyjum             29. ágúst 2002                        FEL02070072/1001

Lúðvík Bergvinsson

Frostaskjóli 7

101 Reykjavík

 

 

 

Hinn 29. ágúst 2002 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi

 

úrskurður:

 

Með erindi, dags. 22. júlí 2002, kærði Lúðvík Bergvinsson f.h. bæjarfulltrúa V-listans í Vestmannaeyjum ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar frá 12. júní 2002, varðandi breytingu á 5. gr. ráðningarsamnings við fráfarandi bæjarstjóra, Guðjón Hjörleifsson. Kærandi krefst þess að ráðuneytið ógildi ákvörðunina með vísan til 19. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, þar sem forseti bæjarstjórnar vék ekki sæti við meðferð málsins.

 

Ráðuneytið óskaði með bréfi dags. 26. júlí 2002 eftir umsögn meirihluta bæjarstjórnar um málið. Umsögn barst með bréfi dags. 15. ágúst 2002.

 

Rétt þykir að taka fram til skýringar að fráfarandi bæjarstjóri, Guðjón Hjörleifsson, náði kjöri sem aðalmaður á D-lista Sjálfstæðisflokks við sveitarstjórnarkosningar 25. maí 2002. Í upphafi bæjarstjórnarfundar 12. júní 2002 var hann jafnframt kjörinn forseti bæjarstjórnar.

 

I. Málavextir

Á fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, sem haldinn var 12. júní 2002, barst svohljóðandi tillaga undir liðnum „Ráðning bæjarstjóra“.

 

„Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að ráða Inga Sigurðsson kt. 181268-5659, byggingatæknifræðing til heimilis að Litlagerði 3 Vestmannaeyjum í starf bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar frá 1. ágúst 2002 til loka kjörtímabils 2006, skv. fyrirliggjandi ráðningarsamningi. Jafnframt felur bæjarstjórn Vestmannaeyja Páli Einarssyni bæjarritara að gegna starfi bæjarstjóra til 1. ágúst 2002.

        Í framhaldi af ráðningarsamningi við Guðjón Hjörleifsson fráfarandi bæjarstjóra 5. grein, hefur orðið að ráði að Guðjón veiti settum og nýráðnum bæjarstjóra ráðgjöf í allt að 6 mánuði og vinni með þeim í þeim málum sem upp koma hverju sinni, óski þeir þess.“

 

Undir þessa tillögu rituðu bæjarfulltrúarnir Guðjón Hjörleifsson, Andrés Sigmundsson, Selma Ragnarsdóttir og Arnar Sigurmundsson.

 

Að loknu fundarhléi barst svohljóðandi tillaga frá minnihluta bæjarstjórnar: „Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að fyrrverandi bæjarstjóri fái ekki greidd biðlaun þar sem hann óskaði sjálfur eftir lausn frá störfum að eigin frumkvæði.“

 

Undir þessa tillögu rituðu bæjarfulltrúarnir Lúðvík Bergvinsson, Guðrún Erlingsdóttir og Stefán Jónasson.

 

Aftur var gert fundarhlé og barst þá svohljóðandi viðaukatillaga frá Arnari Sigurmundssyni við fyrri tillöguna : „...enda hafi þessi störf ekki í för með sér aukin útgjöld umfram það sem gert er ráð fyrir í ráðningarsamningi fráfarandi bæjarstjóra frá júní 1998.“

 

Óskað var eftir því að fyrri tillagan yrði borin upp í tvennu lagi. Var fyrri hluti hennar samþykktur með fjórum atkvæðum, þrír sátu hjá. Síðari hluti tillögunnar ásamt viðaukatillögu: „Í framhaldi af ... frá júní 1998“ var samþykktur með fjórum atkvæðum en þrír voru á móti.

 

Síðan var gengið til atkvæða um tillögu minnihluta bæjarstjórnar. Tillagan var felld með jöfnum atkvæðum, þrír voru með og þrír á móti. Forseti bæjarstjórnar, Guðjón Hjörleifsson, sat hjá og gerði grein fyrir hjásetu sinni. Tillögu minnihluta um að aflað yrði álits lögmanns um réttmæti þess að bæjarstjórn ákveði að greiða biðlaun til fyrrverandi bæjarstjóra var vísað frá með fjórum atkvæðum meirihluta gegn þremur atkvæðum minnihluta. Svohljóðandi bókanir bárust:

 

Bókun meirihluta: „Leggjum til að tillögunni verði vísað frá þar sem hér er ekki um biðlaun að ræða heldur efndir á gildandi ráðningarsamningi frá 1998.“

Bókun minnihluta: „Með bókun meirihlutans er viðurkennt að ekki er um biðlaunagreiðslur að ræða, heldur sérstakan ráðgjafarsamning, sem ekki er til eins og fram kom fyrr á fundinum.“

 

II. Málsrök aðila

Málavöxtum og málsrökum kæranda er þannig lýst í erindi kæranda til ráðuneytisins:

„Á árinu 1998 var gerður ráðningarsamningur við Guðjón Hjörleifsson um að hann gegndi starfi bæjarstjóra Vestmannaeyja til næstu fjögurra ára. Samningur þessi, sem hvorki er dagsettur né vottaður, var borinn upp og samþykktur í bæjarráði Vestmannaeyja 1998. Ekki er gerð sérstök athugasemd við það hér að hinn pólitískt kjörni bæjarstjóri hafi setið þann fund bæjarráðs, enda sú staðreynd algerlega óviðkomandi þeirri afgreiðslu sem hér er óskað eftir að verði ógilt...“

 

„Í umræddum ráðningarsamningi var ákvæði þess efnis að yrði bæjarstjóri ekki endurráðinn að loknum ráðningartíma bæri honum (bið)launagreiðslur í fulla sex mánuði. Áður en ráðningartíminn rann út lýsti bæjarstjórinn fyrrverandi því yfir í fjölmiðlum og víðar að hann sæktist ekki eftir endurráðningu. Því kom aldrei til álita af hálfu bæjaryfirvalda að endurráða hann. Með uppsögn og yfirlýsingum um að hann sæktist ekki eftir endurráðningu var samningurinn því í raun úr gildi fallinn. Það gat því aldrei komið til þess að ákvæði samningsins um biðlaun yrði virkt, enda bæjarstjórinn fyrrverandi þá þegar horfinn til annarra starfa. Það er reyndar ekki efni þessarar kæru. Þessu virðist meirihluti bæjarstjórnar Vestmannaeyja hafa gert sér grein fyrir og verið sammála minnihlutanum um það og því lagði hann fram breytingartillögu við 5. gr. umrædds samnings á bæjarstjórnarfundi, sem haldinn var 12. júní sl. að því er virðist til að tryggja fyrrv. bæjarstjóra umræddar launagreiðslur, þrátt fyrir þann veruleika sem að framan er lýst.

 

Í umræddri breytingartillögu var lagt til að gerð yrði breyting á ákvæði 5. gr. ráðningarsamnings frá árinu 1998 um að fráfarandi bæjarstjóri veiti nýráðnum bæjarstjóra ráðgjöf næstu sex mánuði og þiggi fyrir það greiðslur, hinar sömu og hann hefði fengið hefðu bæjaryfirvöld ekki viljað endurráða hann. Í þessu samhengi er því rétt að taka fram að vegna svara sem hafa borist við fyrirspurnum þar að lútandi, að bæjaryfirvöld hafa greitt launin út í samræmi við afgreiðslu bæjarstjórnar frá og með 15. júní sl. Þess ber þó að geta að nýr bæjarstjóri tekur ekki við hinu nýja starfi fyrr en 1. ágúst nk. svo óljóst er um ráðgjöf á þeim tíma.

 

Það má öllum ljóst vera að breytingartillaga meirihlutans varðaði fjárhagslega hagsmuni viðkomandi bæjarfulltrúa, enda hefur komið fram að þessar greiðslur nema u.þ.b. 500 þús. kr. á mánuði. Við meðferð tillögunnar og atkvæðagreiðslur sem fylgdu í kjölfarið, en þær voru nokkrar vegna breytinga- og viðbótartillagna, vék viðkomandi sveitarstjórnarmaður ekki sæti eins og skýrt er kveðið á um að honum beri að gera skv. 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga o.fl. ákvæðum laga. Það gerði hann ekki. Þess í stað tók hann þátt í allri meðferð málsins, tók m.a. til máls í umræðu um málið auk þess að taka þátt í atkvæðagreiðslu við endanlega afgreiðslu þess.

 

Það þarf vart að fara um það mörgum orðum að ákvörðun um að breyta samningi á þann hátt sem hér hefur verið rakið varðar viðkomandi sveitarstjórnarmann svo sérstaklega, að almennt verður að gera ráð fyrir því að viljaafstaða hans hljóti að mótast að einhverju leyti þar af. Það að viðkomandi sveitarstjórnarmaður vakti ekki athygli á vanhæfi sínu á fundinum, vék hvorki sæti né yfirgaf fundarsal við meðferð þess og afgreiðslu eins og kveðið er á um í 5. og 6. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga hlýtur að leiða til þess að viðkomandi afgreiðsla sé ólögmæt. Rétt er að geta þess að tillaga meirihlutans hefði fallið á jöfnu hefði hún komið til afgreiðslu við þær aðstæður sem uppi voru á fundinum, þar sem ekki hafði verið kallað á varamann...“

 

Í umsögn meirihluta bæjarstjórnar er vísað til þess sem fram kemur í 5. lið fundargerðar bæjarstjórnar frá 12. júní 2002, að tillaga um ráðningu Inga Sigurðssonar í stöðu bæjarstjóra og að fela bæjarritara að gegna starfi bæjarstjóra til 1. ágúst 2002 hafi verið borin sérstaklega upp til atkvæða. Síðan hafi verið gengið til atkvæða um síðari hluta tillögunnar, sem ásamt viðaukatillögu frá Arnari Sigurmundssyni var svohljóðandi:

 

„Í framhaldi af ráðningarsamningi við Guðjón Hjörleifsson fráfarandi bæjarstjóra 5. grein, hefur orðið að ráði að Guðjón veiti settum og nýráðnum bæjarstjóra ráðgjöf í allt að 6 mánuði og vinni með þeim í þeim málum sem upp koma hverju sinni, óski þeir þess, enda hafi þessi störf ekki í för með sér aukin útgjöld umfram það sem gert er ráð fyrir í ráðningarsamningi fráfarandi bæjarstjóra frá júní 1998.“

 

Um þetta segir í umsögn meirihlutans:

„Eins og sjá má hefur þessi tillaga hvorki í för með sér aukin útgjöld fyrir sveitarfélagið né auknar tekjur fyrir fráfarandi bæjarstjóra umfram það sem gert var ráð fyrir í 5. gr. ráðningarsamnings frá 1998. Síðari hluti tillögunnar var eingöngu útfærsla á umræddri grein. Fráfarandi bæjarstjóri hefði átt sinn rétt skv. ráðningarsamningi hvort heldur þessi tillaga hefði komið til eða ekki, eða verið borin sérstaklega upp eða ekki verið borin upp. Þessi hluti tillögunnar skapar sveitarfélaginu engar nýjar skuldbindingar heldur er Vestmannaeyjabær sem vinnuveitandi að nýta þau réttindi sem felast í 5. gr. ráðningarsamnings fráfarandi bæjarstjóra. Þess má geta að reglan um 6 mánaða laun að loknum fjögurra ára ráðningartíma, og ákveðna vinnuskyldu óski vinnuveitandi þess, hefur verið í ráðningarsamningum bæjarstjóra hér í Eyjum í rúma tvo áratugi. Sambærileg ákvæði eru í ráðningarsamningum margra annarra bæjarstjóra.

 

Á umræddum fundi bæjarstjórnar 12. júní sl., sem var sá fyrsti á nýbyrjuðu kjörtímabili, voru ekki gerðar athugasemdir um þátttöku forseta bæjarstjórnar í tillögugerð og atkvæðagreiðslu að ráðningu nýs bæjarstjóra og ráðstafanir því samfara. Enginn bæjarfulltrúi kvaddi sér hljóðs um meint vanhæfi forseta bæjarstjórnar í afgreiðslu þessa máls og gilti þar einu hvort sem tillagan væri í upphaflegri mynd eða eftir að viðauka var bætt í hana sem tók af tvímæli um að hún hefði ekki í för með sér aukin útgjöld fyrir Vestmannaeyjabæ. Jafnframt var Guðjón Hjörleifsson, forseti bæjarstjórnar, í góðri trú með að úrskurða sig ekki sjálfur vanhæfan í tillögu sem leiddi ekki til aukins kostnaðar eða skyldu fyrir bæjarfélagið þó svo að nafn hans bæri þar á góma.

 

Stjórnsýslukæra Lúðvíks Bergvinssonar, bæjarfulltrúa og alþingismanns, byggist á rangri túlkun hans á ráðningarsamningi bæjarstjóra frá 1998 og óánægju hans með það að bæjaryfirvöld skuli standa við samninginn. Enda er bréf hans fullt af rangfærslum sem eiga sér hvorki stoð í tillöguflutningi á umræddum bæjarstjórnarfundi né raunveruleikanum.“

 

III. Niðurstaða ráðuneytisins

Í erindi kæranda er krafist úrskurðar ráðuneytisins um hvort forseta bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar hafi verið skylt að víkja sæti við afgreiðslu tillögu um að hann veiti settum og nýráðnum bæjarstjóra ráðgjöf í allt að sex mánuði. Engin umræða varð á fundi bæjarstjórnar 12. júní 2002 um hugsanlegt vanhæfi forsetans og engin krafa kom fram um að hann viki sæti við afgreiðslu hinnar kærðu ákvörðunar.

 

Ágreiningur er með málsaðilum um hvort forsetanum hafi, sem fráfarandi bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar, borið réttur til biðlauna á þeim tíma sem um er að ræða, en sá ágreiningur hefur ekki verið kærður til ráðuneytisins. Telur kærandi að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið ákveðið að fráfarandi bæjarstjóri veitti nýráðnum bæjarstjóra ráðgjöf næstu sex mánuði og þægi fyrir það greiðslur sem nema sömu fjárhæð og biðlaunagreiðslur sem hann hefði fengið ef bæjaryfirvöld hefðu ekki viljað endurráða hann sem bæjarstjóra.

 

Meirihluti bæjarstjórnar hefur staðhæft að biðlaunaréttur hafi verið fyrir hendi og því hafi hin kærða ákvörðun ekki falið í sér fjárhagslega hagsmuni sem leitt geti til þess að forseta bæjarstjórnar hafi verið skylt að víkja sæti við afgreiðslu málsins. Vísar meirihlutinn í því sambandi til orðalags viðaukatillögu Arnars Sigurmundssonar sem áður er rakin.

 

Biðlaunaréttur framkvæmdastjóra sveitarfélaga byggist að öllu leyti á ákvæðum í ráðningarsamningum. Ráðuneytið á ekki úrskurðarvald á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga um hvort slíkur réttur hafi verið fyrir hendi á grundvelli ódagsetts ráðningarsamnings Vestmannaeyjabæjar og Guðjóns Hjörleifssonar sem gerður var árið 1998 og hefur kærandi ekki krafist úrskurðar um það atriði, eins og áður segir. Engu að síður er það mat ráðuneytisins að ekki verði skorið úr kæruefninu nema fjallað verði stuttlega um ágreining aðila um túlkun ráðningarsamningsins, en 5. gr. hans er svohljóðandi: „Verði ekki um endurráðningu að ræða að loknu ráðningartímabili, skal bæjarsjóður greiða full 6 mánaða laun, þar af gegni bæjarstjóri störfum í allt að 3 mánuði óski bæjarstjórn eftir því.“

 

Ráðuneytið telur alls ekki ljóst að framangreint ákvæði beri að túlka svo þröngt sem kærandi heldur fram, þ.e. að biðlaunaréttur skuli einungis vera fyrir hendi ef nýkjörin bæjarstjórn ákveður að endurráða ekki bæjarstjóra og að rétturinn falli niður ef fráfarandi bæjarstjóri sækist ekki eftir endurráðningu. Rétt er þó að taka fram að samningsákvæðið mætti vera skýrara hvað þetta varðar. Þá er ekki tekið fram í samningnum að biðlaunaréttur skerðist ef viðkomandi tekur við starfi áður en sex mánaða biðlaunatími er liðinn, samanber til hliðsjónar 2. mgr. 13. gr. laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað nr. 88/1995, með síðari breytingum.

 

Af hálfu meirihluta bæjarstjórnar er byggt á því að hin kærða ákvörðun feli ekki í sér ákvörðun um hvort biðlaunaréttur sé fyrir hendi heldur sé einungis um að ræða útfærslu á niðurlagi 5. gr. ráðningarsamningsins frá 1998. Bæjarstjórn hafi því ákveðið að í stað þess að óska eftir að fráfarandi bæjarstjóri gegni störfum í þrjá mánuði veiti hann settum og nýráðnum bæjarstjóra ráðgjöf í sex mánuði. Þessi túlkun á sér stoð í orðalagi viðaukatillögu, þar sem gerður er sá fyrirvari að þessi störf hafi ekki í för með sér aukin útgjöld umfram það sem gert er ráð fyrir í ráðningarsamningnum. Ráðuneytið telur með vísan til þessa að fallast megi á þann skilning meirihluta bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar að hin kærða ákvörðun hafi ekki varðað fjárhagslega hagsmuni sem leitt geti til þess að forseta bæjarstjórnar hafi ótvírætt verið skylt að víkja sæti við afgreiðslu málsins.

 

Hins vegar telur ráðuneytið rétt að benda á að forseta bæjarstjórnar hefði verið rétt að víkja sæti við afgreiðslu tillögu frá minnihluta bæjarstjórnar um að honum skyldu ekki greidd biðlaun þar sem hann óskaði sjálfur eftir lausn frá störfum að eigin frumkvæði. Umrædd tillaga fól augljóslega í sér ákvörðun um málefni sem fellur undir 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga. Í stað þess að víkja sæti sat forsetinn hjá við atkvæðagreiðslu um tillöguna og gerði grein fyrir þeirri afstöðu sinni. Þetta telur ráðuneytið ekki samræmast ákvæðum 4. og 5. mgr. 19. gr. laganna. Sama máli gegnir um þátttöku forsetans í atkvæðagreiðslu þar sem vísað var frá tillögu minnihluta bæjarstjórnar um að leitað yrði eftir lögfræðiáliti um réttmæti biðlaunagreiðslna til fráfarandi bæjarstjóra. Kærandi hefur ekki gert kröfu um ógildingu umræddra ákvarðana.

 

Með vísan til alls sem að framan er rakið verður að hafna framkominni kæru Lúðvíks Bergvinssonar f.h. bæjarfulltrúa V-listans í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar, um ógildingu ákvörðunar um breytingu á 5. gr. ráðningarsamnings fráfarandi bæjarstjóra.

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar frá 12. júní 2002, um breytingu á 5. gr. ráðningarsamnings við fráfarandi bæjarstjóra, Guðjón Hjörleifsson, er gild.

 

 

 

F. h. r.

Hermann Sæmundsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum