Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2003 Innviðaráðuneytið

Skaftárhreppur - Skipulags- og byggingarmál, hæfi, beiðni um endurupptöku hafnað vegna skorts á kæruheimild

Lárus Helgason                                         14. apríl 2003                               FEL02080048/1001

Vesturbergi 69

111 REYKJAVÍK

 

 

Vísað er til erindis yðar, dags. 27. desember 2002, varðandi meint vanhæfi fyrrverandi sveitarstjóra Skaftárhrepps og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps til að taka þátt í gerð aðalskipulags fyrir sveitarfélagið. Með bréfi yðar fylgdi dómur Hæstaréttar frá 14. nóvember 2002, í máli nr. 496/2002, þar sem staðfestur er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands frá 15. október 2002, um að vísa frá kröfu Skaftárhrepps á hendur eigendum jarðarinnar Kirkjubæjarklausturs, um að viðurkenndur verði eignarréttur sveitarfélagsins að tiltekinni landspildu í Skaftárhreppi.

 

Ráðuneytið túlkar erindi yðar sem ósk um endurupptöku á erindi yðar, dags. 26. ágúst 2002, þar sem óskað var eftir úrskurði ráðuneytisins um meint vanhæfi þáverandi sveitarstjóra og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps. Erindinu var vísað frá ráðuneytinu með bréfi, dags. 4. september 2002, með svohljóðandi rökstuðningi:

 

"Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Skaftárhrepps rennur frestur til að gera athugasemdir við tillögu að aðalskipulagi út hinn 12. september nk. Að þeim tíma liðnum verður tillagan tekin til afgreiðslu í skipulags- og byggingarnefnd Skaftárhrepps. Fram kemur í gögnum málsins að þér hafið þegar sent sveitarstjórn rökstuddar athugasemdir yðar varðandi efni tillögunnar og meint vanhæfi starfsmanna sveitarfélagsins við meðferð málsins. Verði niðurstaða skipulags- og byggingarnefndar og sveitarstjórnar Skaftárhrepps sú að taka ekki tillit til athugasemda yðar verður tillagan send Skipulagsstofnun ásamt athugasemdum og umsögn sveitarstjórnar um þær.

 

Samkvæmt grein 6.3.2 í skipulagsreglugerð skal Skipulagsstofnun innan fjögurra vikna frá því samþykkt aðalskipulag barst henni gera tillögu til umhverfisráðherra um staðfestingu þess, synjun eða frestun á staðfestingu að öllu leyti eða hluta. Meðal annars skal koma fram í tillögu stofnunarinnar hvort formgallar séu á afgreiðslu sveitarstjórnar. Umhverfisráðherra á síðan endanlega ákvörðun um staðfestingu aðalskipulags.

 

Hvergi er í skipulags- og byggingarlögum eða skipulagsreglugerð gert ráð fyrir að unnt sé að skjóta álitamálum um gerð aðalskipulags til félagsmálaráðherra til úrskurðar. Telur ráðuneytið að slíkt málskot sé ekki heimilt og verður því að vísa erindi yðar frá félagsmálaráðuneytinu."

 

Samkvæmt 3. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, fer umhverfisráðherra með yfirstjórn skipulags- og byggingarmála. Ráðherra til aðstoðar er skipulagsstofnun. Samkvæmt 16. gr. laganna ber sveitarstjórn ábyrgð á gerð aðalskipulags. Í aðalskipulagi skal fjallað um allt land innan marka sveitarfélagsins. Í 17. gr. er mælt fyrir um kynningu aðalskipulagstillögu, og kemur þar m.a. fram að skylt er að kynna tillöguna fyrir íbúum sveitarfélags og senda tillöguna til Skipulagsstofnunar til athugunar. Í 18. gr. er síðan mælt fyrir um skyldu sveitarstjórnar til að auglýsa tillögu að aðalskipulagi með áberandi hætti og gefa hverjum þeim sem telur sig eiga hagsmuna að gæta færi á að gera athugasemdir við tillöguna. Að lokinni umfjöllun sveitarstjórnar um athugasemdir skal sveitarstjórn senda Skipulagsstofnun tillöguna til afgreiðslu, ásamt athugasemdum og umsögn sveitarstjórnar um þær. Jafnframt skal senda þeim aðilum er athugasemdir gerðu athugasemdir um þær. Loks kemur fram í 19. gr. laganna að aðalskipulag er háð staðfestingu umhverfisráðherra og tekur skipulag gildi þegar staðfestingin hefur verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

 

Af framansögðu er ljóst að í skipulags- og byggingarlögum er mælt fyrir um að tillögur um aðalskipulag eiga að hljóta vandaða umfjöllun og kynningu af hálfu sveitarstjórnar. Skipulagsstofnun hefur eftirlit með því að framfylgt sé ákvæðum laga auk þess sem gildistaka aðalskipulags er háð staðfestingu ráðherra. Hvorki í skipulags- og byggingarlögum né í reglugerð um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu nr. 96/1969, með síðari breytingum, er gert ráð fyrir því að félagsmálaráðuneyti geti átt aðkomu að afgreiðslu sveitarstjórnar á aðalskipulagstillögu. Telur ráðuneytið því óhjákvæmilegt að hafna beiðni yðar um endurupptöku erindis yðar frá 26. ágúst 2002, sem vísað var frá ráðuneytinu með bréfi, dags. 4. september 2002.

 

Beðist er velvirðingar á því að vegna mikilla anna í ráðuneytinu undanfarna mánuði hefur ekki reynst unnt að svara erindi yðar fyrr en nú.

 

 

F. h. r.

Garðar Jónsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum