Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2003 Innviðaráðuneytið

Blönduóssbær - Meint vanhæfi formanns bæjarráðs vegna hjúskapartengsla við sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs sveitarfélagsins

Blönduóssbær                                                 3. júlí 2003                                      FEL03070001/1001

Jóna Fanney Friðriksdóttir, bæjarstjóri

Húnabraut 6

540 BLÖNDUÓSI

 

 

 

Vísað er til erindis yðar, dags. 27. júní 2003, þar sem óskað er álits ráðuneytisins varðandi hugsanlegt vanhæfi formanns bæjarráðs Blönduóssbæjar til að gegna því embætti vegna hjúskapartengsla við sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs bæjarins, sem jafnframt er staðgengill bæjarstjóra. Meðfylgjandi bréfinu er bókun sem bæjarfulltrúi D-lista lagði fram á fundi bæjarráðs 26. júní sl. við kosningu formanns bæjarráðs en samþykkt var á fundinum að leita álits ráðuneytisins um málið. Fram kemur í umræddri bókun að bæjarfulltrúinn telji talsverðar líkur á því að formaður bæjarráðs sé vanhæfur til að gegna því embætti vegna fyrrgreindra hjúskapartengsla. Er í bókuninni vísað til 43., 46., 48.-49. og 23. gr. samþykkta um stjórn og fundarsköp Blönduóssbæjar, nr. 303/1998, þar sem fjallað er um hlutverk bæjarráðs og reglur um vanhæfi bæjarfulltrúa við meðferð og afgreiðslu mála. Jafnframt er í bókuninni vísað til breytinga sem nýlega voru samþykktar á skipuriti Blönduóssbæjar, varðandi verkefni fjármála- og stjórnsýslusviðs. Í niðurstöðu bókunarinnar segir síðan eftirfarandi:

 

„Niðurstaða mín er sú að miðað við að hlutverk bæjarráðs sé að hafa eftirlit með fjármálastjórn bæjarins, umsjón með stjórnsýslu og innra eftirliti í stjórnkerfinu geti það ekki farið saman að formaður bæjarráðs fjalli með beinum hætti um störf sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs, sem fer jafnframt með innra eftirlit með fjármálum og stjórnsýslu. Því hljóti annar hvor aðilinn að vera vanhæfur við afgreiðslur einstakra mála. Það getur leitt það af sér að bæjarráð sé meira og minna óstarfhæft vegna þeirra aðstæðna. Ég óska hér með eftir að bæjarráð taki afstöðu til þess hvort þetta stangist á við samþykktir Blönduóssbæjar eins og ég tel talsverðar líkur á og hvort þetta standist sveitarstjórnarlög nr. 45/1998.“

 

Álit ráðuneytisins

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, ber sveitarstjórnarmanni að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. sömu laga gildir ákvæðið einnig um hæfi fulltrúa í nefndum ráðum og stjórnum á vegum sveitarfélags eftir því sem við á. Af 6. mgr. 19. gr. má ráða að almenna reglan er sú að sveitarstjórnarmaður víki einungis úr fundarsal á meðan tiltekið mál er til meðferðar í sveitarstjórn en taki að öðru leyti þátt í afgreiðslu þeirra mála sem meðferðar eru á fundi sveitarstjórnar.

 

Í sveitarstjórnarlögum er ekki mælt fyrir um að óheimilt sé að makar eða ættingjar sveitarstjórnarmanna gegni störfum á vegum sveitarfélagsins. Hins vegar er í 42. gr. laganna kveðið á um að starfsmenn fyrirtækja og stofnana sveitarfélags séu ekki kjörgengir í nefndir, ráð og stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana er þeir starfa hjá, og í 3. mgr. 19. gr. segir að sveitarstjórnarmenn sem jafnframt eru starfsmenn sveitarfélaga og hafa sem slíkir átt þátt í að undirbúa tiltekið mál sem lagt er fyrir sveitarstjórn eru alltaf vanhæfir þegar sveitarstjórnin fjallar um málið. Síðarnefnda ákvæðið á þó ekki við um framkvæmdastjóra sveitarfélags, jafnframt því að tekið er fram í 4. mgr. 19. gr. að ákvæðið eigi ekki við þegar sveitarstjórn fjallar um og afgreiðir fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélagsins.

 

Skilja verður bókun fulltrúa D-lista á bæjarráðsfundi 26. júní sl. á þann veg að hann telji að vegna eftirlitshlutverks bæjarráðs Blönduóssbæjar með fjármálum sveitarfélagsins valdi hjúskapartengsl formanns bæjarráðs við sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs því að formaðurinn sé almennt vanhæfur til setu í bæjarráði. Með hliðsjón af þeim ákvæðum sveitarstjórnarlaga sem að framan voru rakin telur ráðuneytið að tvö skilyrði verði að vera uppfyllt til að unnt sé að fallast á þann skilning sem fram kemur í bókuninni. Í fyrsta lagi verða þau mál sem til afgreiðslu koma á fundum bæjarráðs og varða fjármál sveitarfélagsins að varða formann bæjarráðs eða maka hans persónulega. Í öðru lagi þurfa mál sem uppfylla fyrsta skilyrðið að vera svo algeng að almennt verði að líta svo á að formaður sé vanhæfur til setu í bæjarráði vegna hagsmunaárekstra sem upp kunna að koma.

 

Samkvæmt skipuriti heyrir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs undir bæjarstjóra Blönduóssbæjar en er jafnframt staðgengill bæjarstjóra í fjarveru hans. Almennt verður að ætla að þau erindi sem koma til afgreiðslu bæjarráðs Blönduóssbæjar og varða málefni er heyra undir fjármála- og stjórnsýslusvið sveitarfélagsins varði ekki forstöðumann sviðsins persónulega. Sviðsstjórinn er starfsmaður bæjarins og afgreiðir sem slíkur þau erindi og verkefni sem honum eru falin. Ber honum meðal annars að víkja sæti í þeim málum er varða hann persónulega, sbr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, og virða málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga þegar um afgreiðslumál er að ræða. Líkt og aðrir starfsmenn sveitarfélaga hefur sviðsstjórinn hollustuskyldu gagnvart sínum vinnuveitanda og verður ekki séð að um hagsmunaárekstra eigi að verða að ræða nema í algerum undantekningartilvikum. Sömu sjónarmið gilda einnig í þeim tilvikum sem sviðsstjórinn gegnir hlutverki sínu sem staðgengill bæjarstjóra.

 

Það er álit ráðuneytisins, með vísan til þess sem að framan er rakið, að formanni bæjarráðs Blönduóssbæjar sé heimilt samkvæmt sveitarstjórnarlögum og samþykkt um stjórn og fundarsköp Blönduóssbæjar að gegna því embætti sem hann hefur verið kjörinn til. Ákvæði 19. gr. sveitarstjórnarlaga gilda um vanhæfi bæjarráðsmanna og ber formanninum að víkja við meðferð og afgreiðslu mála er varða hann eða nána venslamenn hans persónulega en ekki verður talið að slíkir hagsmunaárekstrar stafi af hjúskapartengslum hans við sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs sveitarfélagsins að hann sé af þeim sökum almennt vanhæfur til setu í bæjarráði.

 

 

F. h. r.

Sesselja Árnadóttir (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum