Hoppa yfir valmynd
2. desember 2003 Innviðaráðuneytið

Þórshafnarhreppur - Ákvörðunartaka

Siggeir Stefánsson

Rafn Jónsson

Langanesvegi 26

680 ÞÓRSHÖFN

FÉLAGSMÁLARÁÐUNEYTIÐ

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu

150 Reykjavík

Sími 545 8100, Bréfsími 552 4804

Netfang: [email protected]

Veffang: felagsmalaraduneyti.is

Reykjavík 2. desember 2003

Tilv.: FEL03110041/1001

Texti:

Vísað er til erindis yðar, dags. 17. nóvember 2003, þar sem farið er fram á að ráðuneytið skeri úr um

hæfi yðar til ákvörðunartöku í hreppsnefnd Þórshafnarhrepps á fundi nefndarinnar í september sl. Var

um að ræða ákvörðun um afstöðu sveitarstjórnarinnar til kaupa Hraðfrystistöðvar Þórshafnar hf. (HÞ)

á fjölveiðiskipinu Þorsteini EA-110 auk aflaheimilda. Ráðuneytið túlkar erindi yðar svo að þér óskið

álits ráðuneytisins á því hvort yður hafi verið skylt að víkja sæti við umrædda ákvarðanatöku.

Jafnframt óskuðuð þér eftir áliti ráðuneytisins á stöðu yðar almennt varðandi ákvarðanatöku er snertir

HÞ.

Í erindi yðar kemur fram að þér séuð báðir starfsmenn HÞ, Siggeir Stefánsson rekstrarstjóri

landvinnsludeildar HÞ og Rafn Jónsson verksmiðju- og útgerðarstjóri. Auk þess eigi Rafn Jónsson 3-

4% hlut í HÞ. Þar kemur einnig fram að HÞ sé langstærsti vinnuveitandinn í sveitarfélaginu og að þér

hafið verið kosnir í sveitarstjórn í óhlutbundinni kosningu vorið 2002. Í september sl. hafi verið

boðað til hluthafafundar í HÞ vegna fyrirhugaðra kaupa fyrirtækisins á fjölveiðiskipinu Þorsteini EA-

110 auk aflaheimilda. Þórshafnarhreppur sé eigandi á 6,5% hlut í HÞ og hafi hreppsnefnd því þurft að

taka afstöðu til þessara kaupa fyrirtækisins. Fyrir fund sveitarstjórnar þar sem ákvörðun hafi verið

tekin um afstöðu sveitarstjórnarinnar til málsins hafið þér leitað álits lögfræðings Sambands íslenskra

sveitarfélaga um hæfi yðar í málinu og í kjölfar þess hafið þér vikið sæti á umræddum fundi.

Samkvæmt skipuriti HÞ er framkvæmdastjóri fyrirtækisins æðsti starfsmaður þess og heyra störf hans

beint undir stjórn félagsins. Starfsemi fyrirtækisins skiptist síðan almennt í tvö svið, þ.e. landvinnslu,

sem stýrt er af Siggeiri Stefánssyni og fiskimjölsverksmiðju sem stýrt er af Rafni Jónssyni. Eruð þér

því næst æðstu starfsmenn fyrirtækisins og heyrið beint undir framkvæmdastjóra þess. Jafnframt

verður ráðið af gögnum málsins að ásamt framkvæmdastjóra skipið þér þriggja manna

framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

Um hæfi sveitarstjórnarmanna er fjallað í 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Samkvæmt 1. mgr.

19. gr. ber sveitarstjórnarmanni að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann

eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að

einhverju leyti þar af. Sveitarstjórnarmanni sem veit hæfi sitt orka tvímælis ber að vekja athygli á því.

Sveitarstjórnarmanni er heimilt við meðferð máls sem hann er vanhæfur að afgreiða að gera stuttlega

grein fyrir afstöðu sinni. Sveitarstjórn sker umræðulaust úr um hvort mál er svo vaxið að einhver

sveitarstjórnarmanna sé vanhæfur. Sveitarstjórnarmaður sem hlut á að máli má taka þátt í

atkvæðagreiðslu um hæfi sitt, sbr. 5. mgr. 19. gr. Sveitarstjórnarmaður sem vanhæfur er við úrlausn

máls skal yfirgefa fundarsal sveitarstjórnar við meðferð og afgreiðslu þess, sbr. 6. mgr. 19. gr.

Við mat á hæfi skv. 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 verður að líta til aðstæðna hverju sinni og

hvaða möguleg áhrif staða eða tengsl sveitarstjórnarmanns geta haft á ákvörðunartöku hans í

sveitarstjórn. Að mati ráðuneytisins verður í þessu máli að gera greinarmun á annars vegar vanhæfi

vegna starfs yðar hjá HÞ og hins vegar vegna hlutafjáreignar Rafns Jónssonar í HÞ.

Þegar sveitarstjórnarmaður gegnir stjórnunarstöðu í fyrirtæki sem hefur beina hagsmuni af ákvörðun

sveitarstjórnar verður annars vegar að líta til skyldna hans sem sveitarstjórnarmanns gagnvart

sveitarfélaginu og íbúum þess og hins vegar starfs- og trúnaðarskyldna hans gagnvart vinnuveitanda

sínum. Hvað hið síðarnefnda varðar verður að telja að umræddar skyldur aukist eftir því sem

viðkomandi einstaklingur gegnir hærri stöðu innan fyrirtækis. Er því ljóst að við meðferð mála er

varða vinnuveitanda sveitarstjórnarmanns getur sveitarstjórnarmaður ekki í sömu andrá gætt

hagsmuna sveitarfélagsins og vinnuveitanda síns.

Það er þó ekki sjálfgefið að sömu kröfur eigi alltaf við hvað þetta varðar og verður að meta það út frá

aðstæðum í hverju sveitarfélagi fyrir sig meðal annars með tilliti til þess um hvers konar hagsmuni er

að ræða. Að öllum málavöxtum virtum verður ekki að mati ráðuneytisins horft framhjá því að þér sem

æðstu stjórnendur HÞ berið ríkar skyldur gagnvart fyrirtækinu og má því draga þá ályktun að staða

yðar hjá HÞ sé til þess fallin að hafa áhrif á viljaafstöðu yðar í ákvörðunum sem varða HÞ og að

umtalsverð hætta sé á hagsmunaárekstrum. Með vísan til framangreinds er það því álit ráðuneytisins

að þér teljist vanhæfir í öllum málum er varða HÞ sérstaklega. Gildir þá einu hvort um er að

ákvarðanatöku í sveitarstjórn eða nefndum sveitarfélagsins.

Af gögnum málsins má ráða að hlutafjáreign Rafns Jónssonar í HÞ sé á bilinu 3-4% og samkvæmt

upplýsingum ráðuneytisins er markaðsvirði hlutabréfanna á bilinu 40-60 milljónir króna. Við úrlausn

um vanhæfi á grundvelli hlutafjáreignar í fyrirtæki verður annars vegar að líta til stærðar eignarhluta í

viðkomandi fyrirtæki og hins vegar verðmætis hans og fjárhagslegra hagsmuna sveitarstjórnarmanns í

því sambandi. Er það álit ráðuneytisins að þrátt fyrir að eignarhluti Rafns Jónssonar í HÞ sé ekki stór í

prósentum talið sé verðmæti hans, og þar af leiðandi fjárhagslegir hagsmunir Rafns af ákvörðunum er

lúta að fyrirtækinu, slíkt að þeir valdi vanhæfi skv. 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1995.

Að þessu virtu er ljóst að almennt teljist þér báðir vanhæfir til að taka afstöðu til þeirra úrlausnarefna

sveitarstjórnar sem varða HÞ með beinum hætti. Hins vegar verður þó ekki talið að störf yðar valdi

alltaf vanhæfi þegar um ákvarðanir sem varða HÞ með óbeinum hætti er að ræða. Sem dæmi má

nefna ákvarðanir sem varða íbúa og atvinnulíf sveitarfélagsins í heild svo sem um gjaldskrár, skipulag

og o.fl. Verður í slíkum tilvikum að meta það hverju sinni hvaða hagsmuni HÞ hefur af viðkomandi

ákvörðun og hvort þeir séu svo sérstakir að valdi vanhæfi í samræmi við það sem áður hefur verið

rakið.

Hvað varðar ákvörðun hreppsnefndar Þórshafnarhrepps um afstöðu sveitarstjórnar til kaupa HÞ á

Þorsteini EA-110 auk aflaheimilda, er ljóst að málið varðar verulega hagsmuni sveitarfélagsins og

beina hagsmuni HÞ. Með vísan til framangreinds er það álit ráðuneytisins að yður hafi báðum verið

rétt að víkja sæti vegna vanhæfis við umfjöllun um málið í sveitastjórn Þórshafnarhrepps. Þar sem

þessa var gætt er að mati ráðuneytisins ekki ástæða til að gera athugasemdir við afgreiðslu málsins í

hreppsnefnd.

F. h. r.

Guðjón Bragason

Guðmundur Ómar Hafsteinsson

2. desember 2003 - Þórshafnarhreppur - Ákvörðunartaka (PDF)

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum