Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2004 Innviðaráðuneytið

Reykjavíkurborg - Ráðning sveitarstjórnarmanna í starf hjá sveitarfélagi, almennt hæfi

Daníel Björnsson
18. ágúst 2004
FEL04080012/1001

Krummahólum 6, íb. 5F

111 REYKJAVÍK

Vísað er til erindis yðar, dags. 11. ágúst sl., þar sem óskað er álits ráðuneytisins á tilteknum atriðum er

varða túlkun sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum.

Í fyrsta lagi er spurt hvort það sé eðlilegt og í samræmi við sveitarstjórnarlög og góða stjórnsýsluhætti að

bæjarstjóri ráði yfirmann sinn, t.d. formann bæjarráðs eða forseta bæjarstjórnar, sem undirmann til

fyrirtækja og stofnana sveitarfélagsins. Spurning þessi er almenns eðlis og þykir þ.a.l. ekki unnt að svara

henni nema á mjög almennan hátt.

Flest sveitarfélög hafa sett sér samþykktir um stjórn og fundarsköp og kemur þar fram hvernig staðið

skuli að ráðningu starfsmanna sveitarfélagsins, sbr. 56. gr. sveitarstjórnarlaga. Algengt er að kveðið sé á

um að sveitarstjórn eða byggðarráð ráði æðstu stjórnendur en að framkvæmdarstjóri eða forstöðumenn

ráði aðra starfsmenn. Siðferðilegar spurningar geta vissulega vaknað ef pólitískt kjörnir fulltrúar eru

ráðnir sem starfsmenn fyrirtækja eða stofnana sveitarfélagsins en í sveitarstjórnarlögum er ekki að finna

ákvæði sem beinlínis banna slíkar ráðningar.

Í öðru lagi er spurt, með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga, hvort starfsmenn fyrirtækja eða stofnana

sveitarfélags séu hæfir til þess að fjalla í bæjarráði eða bæjarstjórn um fundargerðir ráða eða nefnda sem

fjalla um málefni þeirra fyrirtækja eða stofnana sem þeir starfa hjá. Tekið skal fram að með lögum nr.

69/2004 voru gerðar breytingar á sveitarstjórnarlögum og varð þá ákvæði 42. gr. laganna að 4. mgr. 40.

gr. Í umræddu ákvæði er aðeins að finna takmörkun á kjörgengi í nefndir, ráð og stjórnir sveitarfélags og

er heimilt að víkja frá ákvæðinu ef hætta á hagsmunaárekstrum er ekki talin fyrir hendi. Í lögunum er hins

vegar ekki að finna nein ákvæði sem takmarka kjörgengi starfsmanna sveitarfélagsins til setu í

sveitarstjórn eða byggðarráði.

Fulltrúa í sveitarstjórn og byggðarráði er skylt að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það

varðar hann sjálfan eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans

mótist að einhverju leyti þar af, sbr. 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga. Ekki verður ráðið af ákvæðum

laganna að kjörnir fulltrúar, sem jafnframt eru starfsmenn fyrirtækja eða stofnana sveitarfélagsins, séu

almennt vanhæfir til að fjalla um fundargerðir er varða vinnuveitanda þeirra. Hæfi til þess að fjalla um

einstaka liði fundargerða getur m.a. oltið á eðli máls og þeirri stöðu sem viðkomandi fulltrúi gegnir hjá

viðkomandi fyrirtæki eða stofnun. Almennt má segja að vanhæfi komi þannig síður til álita varðandi

almenna starfsmenn heldur en forstöðumenn eða stjórnendur og einnig verður að telja ólíklegt að

viðkomandi fulltrúa beri að víkja sæti ef einungis er um almennt afgreiðslumál að ræða.

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

G. Dýrleif Kristjánsdóttir (sign.)

18. ágúst 2004 - Reykjavíkurborg - Ráðning sveitarstjórnarmanna í starf hjá sveitarfélagi, almennt hæfi. (PDF)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum