Hoppa yfir valmynd
7. október 2004 Innviðaráðuneytið

Sveitarfélagið Skagafjörður - Hæfi sveitarstjórnarmanns við meðferð aðalskipulagstillögu, almennar leiðbeiningar

Sveitarfélagið Skagafjörður
7. október 2004
FEL04090054/1001

Ársæll Guðmundsson, sveitarstjóri

Ráðhúsinu

550 Sauðárkróki

Vísað er til erindis sveitarstjóra, dags. 28. september 2004, þar sem óskað er eftir því að

ráðuneytið láti í té álit sitt á því hvort sveitarstjórnarfulltrúinn Bjarni Maronsson sé vanhæfur til

að taka þátt í atkvæðagreiðslu um tiltekið mál í sveitarstjórn Skagafjarðar.

Málavextir eru þeir að viðkomandi sveitarstjórnarfulltrúi er varaformaður í stjórn Kaupfélags

Skagfirðinga. Kaupfélag Skagfirðinga á 78,7% hlut í félaginu Norðlensk orka ehf. sem aftur á

50% í Héraðsvötnum ehf. á móti Rarik. Fyrirtækið Héraðsvötn ehf. hefur það markmið að virkja

Austari- og Vestari-Jökulsá í Skagafirði við Villinganes og byggja þar svokallaða

Villinganesvirkjun. Í samkomulagi meiri hluta sveitarstjórnar Skagafjarðar um samstarf á árinu

2002 segir meðal annars að horfið skuli frá áformum um virkjun við Villinganes. Einnig var

samþykkt í sveitarstjórn 18. júní 2004 tillaga um kynningartexta fyrir aðalskipulag fyrir

Sveitarfélagið Skagafjörð þar sem kveðið er á um að sveitarfélagið nýti sér heimild í lögum um

tímabundna frestun á aðalskipulagi á hlutaðeigandi svæði þar sem fyrirhugað virkjunarstæði var

áætlað. Á sveitarstjórnarfundi 23. september 2004 las Bjarni Maronsson upp tillögu sína um

breytingu á áður samþykktum kynningartexta í aðalskipulagi sem fól meðal annars í sér að

virkjun við Villinganes skyldi vera inni á skipulagi. Forseti sveitarstjórnar lagði þá fram tillögu

þess efnis að afgreiðslu tillögunnar skyldi frestað til næsta fundar, þann 7. október nk.

Með hliðsjón af framangreindum kringumstæðum tekur sveitarstjóri Skagafjarðar fram í erindi

sínu að sveitarstjórnarfulltrúinn Bjarni Maronsson hafi verulegra hagsmuna að gæta í máli þessu

sem virkjunaraðili og því vakni sú spurning hvort sveitarstjórnarfulltrúanum beri ekki að víkja

sæti þegar tillaga um Villinganesvirkjun verður borin upp til atkvæðagreiðslu á fundi

sveitarstjórnar 7. október nk.

Af þessu tilefni tekur ráðuneytið eftirfarandi fram:

Um hæfi sveitarstjórnarmanna gildir 19. gr. sveitarstjórnarlaga og ákvæði 9. gr. samþykktar um

stjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar og fundarsköp sveitarstjórnar, nr. 344/2002. Í 1. mgr. 19. gr.

laganna segir að sveitarstjórnarmanni beri að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það

varðar hann svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar

af. Markmiðið með reglunni er að stuðla að málefnalegri stjórnsýslu og að fólk geti treyst því að

stjórnvald leysi úr málum á hlutlægan hátt. Hefur verið litið svo á að virðing fyrir hinum

almennu hæfisreglum í stjórnsýslunni sé nauðsynlegt skilyrði fyrir eðlilegum samskiptum

almennings og stjórnvalda og því trausti sem stjórnvöld verða að njóta.

Í 5. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga segir að sveitarstjórnarmanni sem veit hæfi sitt orka tvímælis

beri að vekja athygli á því. Ráðuneytið leggur áherslu á þá ábyrgð sem lögð er á herðar

sveitarstjórnarmanna í þessu efni. Sveitarstjórn skal síðan án umræðu skera úr um hvort mál er

svo vaxið að einhver sveitarstjórnarmanna sé vanhæfur. Sveitarstjórnarmaður sem hlut á að máli

má taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt, sbr. niðurlag 5. mgr. 19. gr. Skal

sveitarstjórnarmaður sem er vanhæfur við úrlausn máls yfirgefa fundarsal sveitarstjórnar við

meðferð og afgreiðslu málsins, sbr. 6. mgr. 19. gr. laganna.

Ráðuneytið bendir í þessu sambandi á álit umboðsmanns Alþingis frá 31. mars 2003 (mál nr.

3521/2002). Þar taldi umboðsmaður tvo fulltrúa í sveitarstjórn, sem báðir áttu sæti í stjórn

tiltekins fyrirtækis, hafa verið vanhæfa til að taka þátt í afgreiðslu sveitarstjórnar í málefni er

tengdist fyrirtækinu. Lagði umboðsmaður áherslu á þann tilgang 1. mgr. 19. gr.

sveitarstjórnarlaga að draga úr hættu á að ómálefnaleg sjónarmið hefðu áhrif á afgreiðslu mála í

sveitarstjórn og að almenningur og þeir sem hlut ættu að máli gætu treyst því að

sveitarstjórnarmenn sýndu óhlutdrægni í störfum sínum. Jafnframt er bent á álit

félagsmálaráðuneytis frá 10. júlí 2003 í sama máli. Enn fremur bendir ráðuneytið á úrskurð þess

frá 16. apríl 1998. Þar taldi ráðuneytið ljóst að umfjöllun sveitarstjórnar um málefni tiltekins

fyrirtækis varðaði tvo sveitarstjórnarmenn svo sérstaklega að ætla hefði mátt að viljaafstaða

þeirra hefði mótast að einhverju leyti þar af, en annar sveitarstjórnarmaðurinn var starfsmaður

fyrirtækisins en hinn framkvæmdastjóri þess. Ekki hafi verið nægjanlegt að

sveitarstjórnarfulltrúarnir sátu hjá við atkvæðagreiðslu um málið, heldur hafi þeim borið að víkja

af fundi.

Með vísan til framangreinds er ljóst að 19. gr. sveitarstjórnarlaga ber með sér að sveitarstjórnum

er sjálfum ætlað að skera úr um það hvort einhver sveitarstjórnarmanna sé vanhæfur í tilteknu

máli. Skjóta má þeirri ákvörðun til ráðuneytisins skv. 103. gr. laganna.

Með hliðsjón af framangreindu beinir ráðuneytið því til sveitarstjórnar Skagafjarðar að hún gæti

ákvæða 19. gr. sveitarstjórnarlaga og þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið nefnd að því er varðar

hugsanlegt vanhæfi þess sveitarstjórnarfulltrúa sem hlut á að máli.

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)

7. október 2004 - Sveitarfélagið Skagafjörður - Hæfi sveitarstjórnarmanns við meðferð aðalskipulagstillögu, almennar leiðbeiningar (PDF)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum